Prófessor emerítus, Helgi Haraldsson í Osló, fær þakkir fyrir þessa hugleiðingu:
,,Til gamans þessi þankabrot:
„gegnum tíðina“
Skelfing finnst mér þetta lágkúrulegt orðatiltæki!
Þessu verður ekki útrýmt héðan af, látum svo vera.
Hitt er verra, að „gegnum tíðina“ virðist hafa bolað burt skörulegu málfari á borð við
í tímans rás
lengi vel
um langan aldur
árum saman, um áraraðir
frá fornu fari
frá upphafi vega
og svona mætti lengi telja
Mörg þessara orðatiltækja hafa skýrari og þrengri merkingu en ”í gegnum tíðina” (og út hinum megin?).
Þess vegna er vitsmunalega áreynsluminna að troða sér í gegnum tíðina.
Tjáningarfátækt og vanskapað harðlífismálfar ryðja sér stöðugt til rúms í fjölmiðlum, hverju nafni sem þeir nefnast.
Það er virðingarverð viðleitni hjá Eiði Guðnasyni og fleirum að sporna við þessari mengun.
En hætt er við að sú barátta sé til lítils.
Illu heilli.” Kærar þakkir, Helgi.
Molalesandi spyr (18.10.2012): ,,Ég hef gaman að pistlum þínum um málfar sem betur má fara. Það er eitt sem pirrar mig svolítið, en það er þegar menn segja ,,hann var ómyrkur í máli“, og er þá átt við að hann sé að skammast út í eitthvað eða einhvern. Mér finnst einhvern veginn að þetta séu öfugmæli, að það eigi að segja „myrkur“ í máli. Hvað segir þú um það?” Molaskrifari svarar: Að vera ómyrkur í mál þýðir að vera hreinskilinn, hispurslaus. Segja sína meiningu umbúðalaust. Ekki endilega að vera skömmóttur. Tala þannig að merkingin sé ljós, ekki myrkri hulin. – Þakka bréfið.
Hversvegna segir Ríkissjónvarpið í dagskrárkynningu að klukkan 23 20 í kvöld (20.10.2012) verði aukafréttatími í sjónvarpi um úrslit í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það er næsta víst að úrslit liggja ekki fyrir svo fljótt.
Annar Molalesandi (18.10.2012) skrifar og sendir tengil á frétt á visir.is:,, http://www.visir.is/vangadans-a-settinu/article/2012121019005
Ætli hér sé átt við klósettið ?
Hvað segir ritstjórn visir.is við þessu? Það virðist vera að vegna þess að þetta er ekki eiginleg frétt, heldur undir dálknum „lífið“ að þá sé allt í lagi að sletta. Lélegt þegar svona miðlar einsog visir.is taka sig ekki alvarlegar en þetta”. Molaskrifari þakkar sendinguna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
21/10/2012 at 16:40 (UTC 0)
Við skulum barasta vona það, Sigurður.
Sigurður Sigurðsson skrifar:
21/10/2012 at 14:35 (UTC 0)
Mér finnst svar Láru Ómarsdóttur alveg frábært.´Hún hefur eflaust verið að gera grín að ambögu þess sem spurði“hvenær loka kjörstöðum“svar hennar er alveg í þeim anda.
Eiður skrifar:
21/10/2012 at 00:36 (UTC 0)
Molaskrifari þakkar Sigurði sendinguna.
Sigurður Ólafsson skrifar:
20/10/2012 at 18:29 (UTC 0)
Sæll Eiður og hafðu þakkir fyrir pistla þína.
Ég rakst á þetta á dv.is, nú rétt áðan:“ Ástu og Birni ber ekki sama um tilkynningu
Forseti Alþingis hafði ekkert samráð við mig að nokkru leyti“.
Geri ráð fyrir að þarna vanti (óvart) n fyrir aftan sama. En það er augljóst að sá sem skrifar veit einfaldlega ekki hvað „að nokkru leiti“ merkir,
Það versta er að svona mun þetta standa, því engin metnaður virðist vera til þess að lagfæra það sem illa er gert , jafnvel þó á það sé bent.
Eiður skrifar:
20/10/2012 at 14:26 (UTC 0)
Takk fyrir þetta, Kristján.
Kristján skrifar:
20/10/2012 at 13:01 (UTC 0)
Í síðdegisþætti rásar 2. í gær var Lára Ómarsdóttir, fréttamaður, í viðtali. Annar stjórnanda spurði: „Hvenær lokar kjörstöðum“?
Lára svaraði: Þeim lokar kl. 22:00.