«

»

Molar um málfar og miðla 1040

Í auglýsingu frá Umhverfisstjóra Garðabæjar í Garðapóstinum (18.10.2012) segir: … og þaðan í Selgjánna sem er stórmerkilegur minjastaður. Þarna ætti að standa: … og þaðan í Selgjána, ekki Selgjánna. Í sömu auglýsingu er talað um að gangan geti tekið um það bil 1,5 klukkustund. Óeðlilegt er að nota tugakerfið þegar talað er um tíma. Þarna hefði frekar átt að tala um eina og hálfa klukkustund. Hvað væru 1,6 klukkustundir ef notast væri við þetta kerfi? Þetta er því miður bara til þess að rugla fólk í ríminu.

Blaðamaðurinn BBl skrifar á visir.is (20.10.2012): Konan var stödd í N1 Kópavogi og lenti í röð á eftir konu sem var að versla sér Víkingalottómiða. Þá tók konan þá ákvörðun um að versla sér sinn fyrsta Víkingalottómiða og keypti sér tíu raða miða . Lagt er til að ritstjóri kenni blaðamanni sínum muninn á sögnunum að kaupa og versla.

Hvar er nú landafræðikunnáttan? Ágætur lesandi benti Molaskrifara á eftirfarandi á mbl.s (22.10.2012) Suður-Ameríkuríkið Panama vill taka upp evru jafnhliða Bandaríkjadal sem nú er helsti gjaldmiðill landsins. Síðast þegar til fréttist var Panama í Mið-Ameríku. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2012/10/21/panama_vill_taka_upp_evru/

Hún var óneitanlega dálítið skondin ein spurningin á atkvæðaseðlinum á laugardaginn: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda allsstaðar að af landinu vegi jafnt?. Hér hefði átt að spyrja: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda allsstaðar á landinu vegi jafnt?

Þegar súlurit eru birt á skjánum í sjónvarpi verða fréttamenn/þáttastjórnendur að gæta þess að samræmi sé milli þeirra talna sem lesnar eru og þeirra talna sem birtast á skjánum. Þetta hefur verið nefnt hér áður. Misbrestur á þessu varð í Silfri Egils (21.10.2012) þegar talað var um kosningaþátttöku í atkvæðagreiðslunni um helgina. Á skjánum stóð 49,8% en talað var um 48,9%. Vandvirkni skiptir alltaf máli. Svo verður líka að hafa samræmi, ef menn velja þá leið að sleppa aukastaf og jafna tölur. Ekki segja að 15,7% sé 15% eða að 15,3% sé 16%. Langbest er að nota aukastafinn. Þá fer ekkert milli mála.

Molalesandi sendi eftirfarandi (21.10.2012)Þ ,,Skrítin fyrirsögn á dv.is: „Keypti peysu af Dorrit til styrktar fötluðum börnum.“ Síðan segir í fréttinni: Kona sem keypti peysu af Dorrit Moussaieff forsetafrú á uppboði til styrktar sumarbúðum fatlaðra barna, segir að gott sé að geta styrkt gott málefni á þennan hátt. Ekki skemmir heldur fyrir hversu glæsileg forsetafrúin er.
– Við lestur fréttarinnar kemur í ljós að konan keypti ekki peysu AF Dorrit, hún var ekki þarna að selja af sér peysu. Forsetafrúin gaf peysu til þessa góðgerða uppboðs… og á uppboðinu bauð konan í peysuna og eignaðist hana þannig. Fyrirsögn er tómt bull.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Á laugardagskvöld (20.10.2012) naut Molaskrifari óperunnar Il trovatore í Hörpu. Hann telur að þorri tónleikagesta hafi verið í mun betra skapi en gagnrýnandi Morgunblaðsins sem fjallar um sýninguna í blaði dagsins (23.10.2012).

Molaskrifara varð á í messunni í gær er hann skrifaði um Stangaveiðifélag Reykjavíkur sem í fréttum Ríkisútvarps hafði bæði verið kallað Stangveiðifélag og Stangaveiðifélag. Taldi Molaskrifari fyrra nafnið rétt, en fór þar villur vegar. Dyggur Molalesandi sendi honum eftirfarandi: ,,Sæll, ágæti Eiður. Svo getur skýrum skjöplast! Félagið heitir einmitt Stangaveiðifélag Reykjavíkur en ekki Stangveiðifélag Reykjavíkur. Þetta varð mér afar vel kunnugt ungum vegna tengsla við félagið. Þetta kemur líka glögglega fram á vef félagsins, http://www.svfr.is/. Vinur er til vamms segir … Molaskrifari þakkar kærlega og leiðréttist þetta hér með.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Að sjálfsögðu rétt. Þetta er innsláttarvilla hjá mér og ónákvæmni í yfirlestri. Mér dytti aldrei í hug að tala um mörg samræmi! Þakka þér ábendinguna

  2. Linda skrifar:

    Sæll Eiður: Þú skrifar… samræmi séu milli þeirra talna….

    Orðið samræmi er ekki til í fleirtölu og því ekki rétt að segja „að samræmi séu milli þeirra talna“… heldur „að samræmi sé milli þeirra talna“.

  3. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Valgeir. Alltaf gaman að heyra frá þér. Þakka þér fyrir að benda á pennaglöpin. Búinn að leiðrétta og lagfæra.

  4. Eiður skrifar:

    Laugardagskvöldið var að sjálfsögðu 20.10. ekki 30.10 eins og ég klaufaðist til að skrifa.

  5. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Kærar þakkir fyrir alla pistlana.
    Ath. Pennaglöp: 30. okt er enn ekki runninn upp!
    Kkv. VS.

  6. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Sigurður. Hvalurinn hefur sem sé andast!

  7. Sigurður Ólafsson skrifar:

    Í fréttatíma Ríkisútvarpsins nú kl. 11 var talað um að hvalur hefði dáið.
    Ég hélt að hvalir dræpust?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>