Molum barst nýlega eftirfarandi bréf: ,,Ég hef lengi lesið pistlana þína um málfar og kann þér þakkir fyrir, góð áminning um vandað málfar. Mig langaði að senda þér póst um frétt sem birtist á www.ruv.is í gær (21/10) klukkan 23:25. Hún fjallaði um kosningaúrslit úr kjördæminu Reykjavík norður. Ég hef þrjár athugasemdir sem mig langaði að benda þér á, tvær efnislegar og eina formlegs eðlis:
Önnur málsgrein fréttarinnar hljóðar svo „Langflestir sögðu já við spurningu tvö, hvort í nýrri stjórnarskrá eigi náttúruauðlindir að vera þjóðareign, séu þær ekki þegar í einkaeign. Þetta vilja 18.425 í Reykjavík norður, 2.205 eru andvígir þessu. 1.912 stendur á sama, og merktu því ekki við þessa spurningu.“
Fimmta málsgrein er eftirfarandi „16.817 vilja rýmri reglur um persónukjör, 3.427 eru á móti því, 2.296 er sama.“
Sem skattgreiðandi sem hefur ekkert val um hvort hann vilji styðja Ríkisútvarpið og sem stjórnmálafræðingur og almennur kjósandi get ég vart orða bundist um dónaskapinn sem mér finnst birtast í þessum tveim málsgreinum fréttarinnar. Að leyfa sér að segja að fólk sem skilar auðu sé sama um niðurstöðuna! Að taka ekki efnislega afstöðu getur þýtt að kjósandanum finnist spurningin ekki nógu skýr, að hann sé í sammála eða ósammála en getur ekki látið í ljós afstöðu án þess að vita hvernig útfærsla slíks ákvæðis yrði og enn fremur getur skýringin verið sú að kjósandinn getur verið ósáttur við ferlið sjálft. Hægt er að færa ýmis rök, með og á móti, fyrir því að skila auðu í kosningum en að setja alla sem það gera undir sama hatt og segja að þeim sé sama um niðurstöðuna er ekki fréttamennska á háu stigi.
Sú athugasemd mín sem er formlegs eðlis snýr að því að ekki var ákveðið að sýna hlutfallstölur í umfjöllun um hverja spurningu, ekki hefði það verið erfitt og það hefði gefið lesendum betra færi á að meta fréttina úr frá prósentutölum.
Hér læt ég hlekk á fréttina fylgja: http://www.ruv.is/frett/reykjavik-nordur-ja-vid-ollu
Með bestu kveðju
Sigurjón Skúlason, stjórnmálafræðingur. Molaskrifari þakkar Sigurjóni bréfið.
Jóhanna gefur fimleikastúlkum fimm milljónir, sagði í fyrirsögn á visir.is (22.10.2012) Ekki var þetta nú hárnákvæmt. Forsætisráðherra afhenti fræknum fimleikastúlkum fimm milljón króna styrk, en féð kom af fjárlagalið sem nefndur er ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar.
Lesandi spyr, – hvað ætli þessi fyrirsögn merki (Viðskiptablaðið 23.10.2012): Dregur á milli Obama og Romney. Það er ekki gott að segja. Líklega er átt við að munurinn á fylgi Obamas og Romneys fari minnkandi. Ekki góð fyrirsögn.
Ágætur Molalesandi sendi eftirfarandi undir fyrirsögninni: ,,Orðaleppur: Nú um stundir stígur fólk á Íslandi ótt og títt „til hliðar“. Þessi eða hin ákveður að „stíga til hliðar“. Er ekki einfaldara fyrir fólkið að hætta bara?
Þessi hliðarspor minna óþægilega mikið á enska orðatiltækið „step aside“ semþýðir að draga sig í hlé, hætta. Eða að víkja fyrir öðrum bæði í eiginlegri og yfirfærðri merkingu”. Að sjálfsögðu er einfaldara að hætta en taka hliðarspor og auðvitað kemur þetta beint úr enskunni.
Molalesandi rakst á þetta á vef Heimssýnar, – andstæðinga ESB umsóknar og aðildar Íslands: ,, Hér ein óvenju svæsin fyrirsögn af vef Heimssýnar:
Um hvað átti að spyrja spurninguna?
Sunnudagur, 21. október 2012
Stærsta spurningin var ekki spurð
http://heimssyn.blog.is/blog/heimssyn/entry/1263916/
Molaskrifari þakkar sendinguna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar