«

»

Molar um málfar og miðla 1042

Molaskrifari þakkar Helga Haraldssyni , prófessor emeritus í Osló, góða hugleiðingu sem hér fer á eftir:
,,Sæll enn og aftur Eiður, og þökk fyrir birtinguna á „gegnum tíðina“ o.fl. í Molum þínum.
Mig langar að endingu til að koma með enn eina hugleiðingu í svipuðum dúr:

Til að byrja með:
“Sá sem segir til að byrja með verður drepinn” (haft eftir Jóni Helgasyni prófessor)

Það er eins og menn gleymi því einatt að unnt er að segja
Fyrst
Fyrst í stað
Fyrsta kastið,
Í fyrstu(nni),
Í upphafi,
Upphaflega,
Í byrjun,
Framan af, o.s.frv.
Hér gildir það sama og um „gegnum tíðina“ að mörg þessara orðatiltækja hafa skýrari og þrengri merkingu en ”til að byrja með”, sem þarfnast þess vegna minni hugsunar.

Margt er til góðra uppsláttarverka um íslenskt mál sem fúskarar fjölmúlavílsins virðast ekki nenna að nýta sér.
Nýlega kom Svavar Sigmundsson með endurbætta útgáfu af Íslenskri samheitaorðabók.
Þá eigum við frábærar handbækur um málnotkun sem Jón Hilmar Jónsson hefur samið, svo sem
Stóru orðabókina um íslenska málnotkun, sem mörg stærri málsamfélög gætu öfundað okkur af!

Með virktum,
Prof. emeritus Helgi Haraldsson”. Molaskrifari kanna Helga bestu þakkir fyrir þessa góðu sendingu:

Aðalsteinn Hjelm skrifaði Molum ( 22.10.2012) og segir: Mig langar að koma með smá ábendingu varðandi tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu á hafnarbakkanum. Nú er mikið talað um hinar og þessar uppákomur í „Hörpunni“ í fjölmiðlum en eftir því sem ég best veit er formlegt nafn hússins án greinis og ætti því alltaf að mínu mati að vera ritað og borið þannig fram, a.m.k. í virtari fjölmiðlum.

Sem dæmi um þetta er þessi frétt hér á vefmiðlinum Vísi í dag: http://www.visir.is/klappad-og-stappad-i-horpunni/article/2012121029801 . En ég hef séð og heyrt flesta íslenska fjölmiðla tala um „Hörpuna“ með greini, þ.m.t. RÚV.
Hvaða skoðun hefur þú á málinu?
Með kveðju að norðan,Aðalsteinn S. Hjelm”
Molaskrifari þakkar Aðalsteini bréfið. Hann játar vera kannski ekki alltaf sjálfum sér samkvæmur með Hörpu án greinis og með greini. Húsið heitir Harpa. Molaskrifari leiðrétti góða vinkonu sem talaði um Hörpuna og hún sagði: ,,Heitir ekki fjallið Esja. Tölum við ekki alltaf um Esjuna? “ Þetta var eiginlega skák og mát. Betur get ég ekki svarað þessu. Mér finnst reyndar fallegra að tala um Hörpu frekar en Hörpuna.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>