Við Íslendingar búum í svolitlu sovéti. Svona reglugerðasovéti. Kynntist því aðeins á dögunum. Það var einkar fróðlegt.
Í sumar var tilkynnt með lúðrablæstri að hér eftir mættu ferðamenn taka með sér til Íslands dálitið af hráu kjöti til eigin nota, frosið ( Sjá t.d. Fréttablaðið 11. júlí 2012,Fyrirsögn: ,,Koma má með hrátt kjöt ef það er frosið”) . Fram til þess tíma hafði það verið höfuðsök og refsivert ef ferðamenn tóku með sér kjötbita frá útlöndum.
Greinarhöfundur átti erindi til Færeyja frá föstudegi til mánudags. Hugsaði sér gott til glóðarinnar að kaupa í leiðinni smáræði af nautakjöti á grillið. Sleppa þannig við að kaupa vakúmpakkaða lottókjötið sem ranglega er kallað ,,fullmeyrnað ungnautakjöt”og reynist svo gúmmíkjöt þegar á diskinn er komið. Jafnvel þótt það sé selt undir merkinu fersk kjötvara.
Fylgt var settum reglum og sótt um leyfi til gamla landbúnaðarráðuneytisins sem nú der hluti Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Þaðan var hógvær beiðni um að fá að nýta þetta nýja frelsi send til Matvælastofnunar á Selfossi. Allt gekk þetta greiðlega fyrir sig og við komuna til Færeyja síðdegis á föstudag beið svarbréf í tölvunni. Þar segir:
,,Með vísan til til 10.gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, reglugerðar nr. 1043/2011 um eftirlit með heilbrigði eldisdýra og dýraafurðum í viðskiptum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EB gerðir nr 89/662,90/425,90/667, 90/675, 91/68, 91/174,91/483, 91/494, 91/495, 91/496, 91/628, 92/45, 92/46, 92/60, 92/65, 92/67, 92/118, 2002/33, 2004/41, 93/444, 94/338, 94/339) og 3.,4., og 5. gr reglugerðar nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins hefur Matvælastofnun/yfirdýralæknir mælti með því að viðkomandi aðila (innskot: Eiði Guðnasyni) verði heimilað að flytja til landsins lítið magn af nautakjöti frá Færeyjum. Með vörunum skulu fylgja eftirtalin gögn og vottorð:
1. Opinbert uppruna- og heilbrigðisvottorð, er staðfesti að að kjötið komi frá ESB-samþykktri starfsstöð.
2. Opinbert vottorð sem staðfestir að dýrum sem afurðirnar eru af hafi ekki verið gefin vaxtarhvetjandi efni á eldistímanum.
3. Vottorð sem staðfestir að vörurnar hafi verið geymdar við a.m.k. -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu.
4. Opinbert vottorð sem staðfestir að afurðirnar séu lausar við salmonellasýkla.
5. Opinbert vottorð sem staðfestir að afurðirnar hafi verið færðar til verkunarstöðvar (svo!) sem eru samþykktar af þarlendum yfirvöldum. “
Svo mörg voru þau orð. Þetta er dagsatt. Þetta var síðdegis á föstudegi. Allar vottorðaskrifstofur lokaðar og ég átti að vera Vogaflugvelli klukkan tíu á mánudagsmorgni. Nú voru góð ráð dýr. Rándýr. Fróðir vinir mínir í Færeyjum tjáðu mér að líklega væri það hálfs annars dags verk að útvega þessi fimm vottorð og líklegt væri að þau mundu kosta sjö til áttahundruð alvöru krónur, þessar færeysk- dönsku, eða um fimmtán þúsund íslenskar krónur.
Það gefur auga leið að ekkert var úr kjötkaupum.
Ég lagði hinsvegar leið mína í SMS, glæsilegustu matvöruverslun Færeyja. Þar vantaði ekki að þar væri kjöt frá öllum heimshornum. Þar voru engelskir búffar, tornedos, ítalskir kjúklingar og allt sem nöfnum tjáir að nefna og það meira að segja talsvert ódýrara en býðst á Íslandi. Þetta kjöt er búið að fara í öll þau heilbrigðispróf sem hugsanleg eru og öllum vottorðum hefur verið skilað. En Íslendingum er ekki óhætt eða heimilt að kaupa það og hafa með sér heim. Mér sýndist annars fólk í Færeyjum vera við hestaheilsu og ekki að sjá nein einkenni matareitrunar eða krankleika á því fólki sem ég hitti.. Ég bjó reyndar í Færeyjum í tæp tvö ár og varð aldrei meint af kjötinu sem þar er selt í verslunum og ekki heldur af heimaslátruðu. Mér tókst hinsvegar aldrei að kaupa þar jafn ólseigt kjöt og mér stendur til boða hér heima.
En auðvitað er þetta allt misskilningur. Hinn þröngi sérhagsmunahópur sem stjórnar markaðsmálum landbúnaðarins á Íslandi ber sér á brjóst og segist ætla að leyfa ferðamönnum að koma með kjöt til landsins, en setur í næstu andrá reglur sem þýða í raun að ferðamenn geta ekki flutt neitt kjöt til landsins.
Svona látum við alltaf plata okkur. Gamla sovétkerfið lifir góðu lífi hér norður undir heimskautsbaugi. Það blómstrar og belgist út í afdönkuðu landbúnaðarkerfi.
Eiður Svanberg Guðnason
Höfundur er fyrrverandi aðalræðismaður Íslands í Færeyjum. Greinin birtist í Morgunblaðinu 25.10.2012
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
25/10/2012 at 22:44 (UTC 0)
Þessar reglur eru rugl og andstæðar heilbrigðri skynsemi. Stundum eru svona aðferðir kallaðar ,,tæknilegar viðskiptahindranir“ og varða við lög.
Sigurður Bogi Sævarsson skrifar:
25/10/2012 at 22:36 (UTC 0)
Á meðan engin sæmilega skiljanleg rök eru fyrir því færð að innflutningur á hráu kjöti eða lifandi fénaði stefni íslenskri framleiðslu í voða verð ég að líta á þetta allt sem hræðsluáróður . Varðstaðan um þetta kerfi er afar sterk og aflsmunar neytt til að halda umræðu um landbúnaðarkerfið niðri. Bændaforystan með sér vinveitta landbúnaðarráðherra hefur náð þeim árangri – ef árangur skyldi kalla. Ef umræðan kæmist hins vegar á eitthvað flug – myndi fljótlega molna úr múrunum. Ekkert regluverk stenst til lengdar, ef það er öndvert við vilja fólksins í landinu og það sem kalla mætti heilbrigða skynsemi.
Eiður skrifar:
25/10/2012 at 20:40 (UTC 0)
Sæll Sigurður Bogi, í þessu tilviki er skrifræðið orðið hreint rugl. Veisla í farangrinum er flgtt þýðing hjá Halldóri. En moveable feast er reyndar einnig notað um hátíðir sem færast til í almanakinu eins og er með páska og hvítasunnu.
Sigurður Bogi Sævarsson skrifar:
25/10/2012 at 19:23 (UTC 0)
Sú viðleitni stjórnvalda að halda Íslandi í einhverskonar sóttkví með takmörkuðum matvælainnflutningi og banni við að fénaður á fæti komi hingað, er í sjálfu sér virðingarverð og skiljanleg. Og íslensk matvæli eru yfirleitt á borð berandi og „veisla í farángrinum,“ eins og Kiljan skrifaði eftir Hemmingway. Hins vegar hef ég engan heyrt útskýra og rökstyðja, svo almenningi sé vel skiljanlegt, hver sjúkdómahætta jafnhliða innflutningi yrði. Því ætla ég sem svo að meint hætta sé stórlega ýkt, þar sem markaður og hagsmunir íslenskra bænda eru útgangspunkturinn og sá tilgangur sem meðalið helgar.
Jón Frímann skrifar:
25/10/2012 at 18:47 (UTC 0)
Þetta er mál fyrir umboðsmann alþingis.