«

»

Molar um málfar og miðla 1045

Vinur Molanna sendi eftir eftirfarandi (26.10.2012): ,,Get ekki stillt mig um að benda þér á hörmulega málnotkun í tölvupósti frá Váflugi (WOW air) til viðskiptavina í gær.
Þar sagði neðst í póstinum:
Hvað er upp? Þessi póstur er sendur til xxx@xxxx.is af WOW air, Höfðatúni 12, 105 Reykjavík, af því að á einhverjum tímapunkti gerðistu áskrifandi að fréttabréfinu.
Hvað er upp? What’s up. Vonandi eru það bara flugvélar félagsins sem eru upp(i) og ekkert annað. Ekki er þolmyndarnotkunin til að bæta úr.
Vonandi eru ekki sömu amatörar undir stjórn flugvéla félagsins og setja þennan óskapnað fram#. Miolaskrifari þakkar sendinguna.

No comment er haft eftir formanni stjórnar Ríkissjónvarpsins (17.10.2012) þegar Fréttablaðið innir eftir áliti formannsins á þeirri ákvörðun útvarpsstjóra að hætta fréttalestri í sjónvarpi, – fyrst um sinn að minnsta kosti. Hversvegna talar formaðurinn ekki íslensku þegar íslenskt blað spyr álits? Alveg óþarfi að slá um sig með ensku. Hvað gerir annars stjórn Ríkissútvarpsins ohf annað en að ákvarða laun útvarpsstjóra? Staða stjórnarformanns Ríkisútvarpsins er er vel launuð. Ekki er auðvelt að sjá hvert vinnuframlagið er. Hve nmargir weru fundirnir. Hver eru launin? Verðlaunastóll fyrir konur úr VG?

Fínn þáttur Braga Valdimars Skúlasonar um íslenskt mál , Tungubrjótur, á Rás eitt á laugardag (27.10.2012). Fróðleikur og skemmtilegar vangaveltur. Eldri þættir eru aðgengilegir vefnum.

Báðar sjónvarpsstöðvarnar sögðu frá því (26.10.2012) er forseti Íslands lagði hornstein að stöðvarhúsi Búðarhálsvirkjunar. Forsetinn var á virkjuninni í dag var sagt á Stöð tvö, sem varla getur talist vandað orðalag. Forsetinn var aðalatriðið í frétt Stöðvar tvö. Virkjunin skipti hinsvegar meira máli í fréttum Ríkissjónvarpsins. Það var miklu betri fréttamennska.

Það er heldur dapurlegt að menningarstefna Ríkissjónvarpsins skuli einkum og sér í lagi í því fólgin að innræta ungu fólki að það sem mestu máli skipti sé popp og dans. Hvort tveggja á auðvitað að eiga sinn sess í dagskránni en hreint ekki í þeim mæli sem stjórnendur dagskrár í Ríkissjónvarpinu hafa ákveðið. – Þið eruð bara geðveik, sagði einn dómaranna í þætti Ríkissjónvarpsins, Dans, dans, – á laugardagsvöldið ( 27.10.2012). Þessi ummæli eru ekki við hæfi.

Það var góð tilbreyting á föstudagskvöld (26.10.2012) í Ríkissjónvarpinu að fá hefðbundinn krimma á skikkanlegum tíma. Við af honum tók svo endursýning einnar af dellumyndunum sem innkaupastjórar Ríkissjónarsins hafa óskýranlegt dálæti á.

Norska ríkissjónvarpið NRK sýnir reglulega gamlar fréttamyndir, Filmavisen. Á laugardaginn (27.10.2012) var sýnd mynd frá 1962 um makrílveiðar Norðmanna. Handfæraveiðar á mótorbátum, svona 40-50 tonna bá tum eins og þá voru einnigalgengir á Íslandi. Þeir voru með slóða og voru að draga sex- átta fiska í einu. Hristu hann af önglunum. Slitu hann ekki af. Makrílinn var svo flokkaður í þrjá stærðarflokka og ísaður í trékassa sem á var letrað Norges Makrellag. Þeir hafa sem sagt studnað þessar veiðar talsvert lengur en við. Gaman að þessu.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>