Það er alltaf gaman þegar fréttatexti rís upp úr flatneskjunni eins á mbl.is ( 30.10.2012) í fréttum af ofsaveðri og flóðum á austurströnd Bandaríkjanna.
Við landtöku rumdi sollinn sær og glymjandi hrannir gengu á land. Er þetta kannski tilvitnun í ljóð? Skemmtilegt tilbreyting. Gott hjá mbl.is.
Af mbl.is (29.10.2012): Hinn flugfarþeginn var einnig færður á lögreglustöð vegna ölvunarástands síns. Það var og. Vegna ölvunarástands síns! Hér hefði farið betur á að segja: Hinn flugfarþeginn var einnig færður á lögreglustöð vegna ölvunar. Eða , — vegna þess að hann var ofurölvi.
Hún var ekki skemmtileg myndin sem brugðið var upp í Kastljósi af breytingunum sem verða við Austurvöll og Ingólfstorg ef áform gírugra hótelbyggjenda og Reykjavíkurborgar ná fram að ganga. Vonandi verður ekkert af þessum framkvæmdum sem varla er hægt að kalla annað en skemmdarverk í miðborginni. Líkast til er lagaramminn þannig að Alþingi fær ekki rönd við reist, þótt hótel með tilheyrandi rútu- og ofurjeppaumferð rísi í hlaðvarpa þingsins, – ótrúlegt.
Lesandi sendi eftirfarandi af forsíðu Morgunblaðsins (30.10.2012) ,,Þegar fyllingin er á bak og burt verður hafist handa við að hlaða grjótkant sem er sjávarvörn til að hindra að sjórinn gangi ekki of mikið á land.” Þetta hefði að skaðlausa mátt orða betur.
Konráð sendi eftirfarandi (30.10.2012): ,, (http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/10/29/ertu_ad_sja_hvad_er_i_glasinu/)
Þetta birtir Mogginn alveg athugasemdalaust. Sennilega sjá fæstir nokkuð athugavert við þetta orðalag nú orðið. (Það tekur því varla að nefna hitt atriðið að ,,ofan“ táknar hreyfinguna niður. Hluturinn er sem sagt niðri í glasinu eða bara í glasinu en ekki ofan í því.)
„Ég segi við hann: „Ertu að sjá hvað er ofan í glasinu hjá mér?““
Og Konráð bætir við: ,,Hér er vitnað í sömu konu í DV og þá er þetta svona:
-Hún snéri sér þá til dyravarðar og sýndi honum glasið. „Ertu að sjá hvað er í glasinu?,“ spurði hún…-
Hér er ekkert ,,ofaní“. Hvað skyldi manneskjan hafa sagt í raun og veru?”
… sem fyrirtækið vann upp á sitt einsdæmi , var sagt í fréttum Stöðvar tvö (30.10.2012) . Þarna hefði átt að tala um eindæmi, en eindæmi er sjálfdæmi eða ábyrgð. Að gera eitthvað upp á sitt eindæm i, er að gera eitthvað á eigin ábyrgð. Einsdæmi er hinsvegar einstæður atburður.
Í sama fréttatíma var rætt við konu sem sagði að í óveðrinu mikla hefði rafmagnsplanta sprungið í New York. Þetta var sprenging sem varð í orkuveri eða spenni í orkuveri eða rafstöð í New York. Þá var í þessum fréttatíma sagt að 50 hús hefðu brunnið til grunna í óveðrinu í Breezy Point í Queens í New York. Sama tala var í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins. Það var gömul frétt,- tala frá því um hádegið. Síðdegis greindu erlendar fréttaveitur frá því að 80 hús hefðu brunnið til kaldra kola..http://www.huffingtonpost.com/2012/10/30/breezy-point-fire_n_2043071.html Talað hækkaði reyndar er leið á kvöldið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
31/10/2012 at 14:59 (UTC 0)
Húsið á sér langtum lengri sögu en að hafa verið mötuneyti Símans.
Pétur Kristjánsson skrifar:
31/10/2012 at 13:59 (UTC 0)
Aðalatriðið er að hótelbyggingar sem reistar verða í miðbænum verði fallegar og falli vel að umhverfinu. Það má benda á að vel hefur tekist til með hótelið á horni Túngötu og Aðalstrætis og það hefur bætt miðborgina á þessum stað. Skemmtistaðurinn Nasa er varla þess virði að vernda hann sérstaklega. Þetta gamla mötuneyti Landssímans er ekkert sérstakt augnayndi þó svo að síðasta útlitsbreyting á því sé þokkaleg.
Eiður skrifar:
31/10/2012 at 11:50 (UTC 0)
Rétt. CNN talar í síbylju um ,,superstorm“
Eiríkur skrifar:
31/10/2012 at 11:01 (UTC 0)
Fréttin á mbl.is var sérstaklega skemmtileg en orðskrýpið „ofurstormur“ sem þar kom fram er hins vegar óþolandi. Við eigum fjölda orða á íslensku sem ná yfir svona veður. Fárviðri eða ofsaveður mætti nota, ásamt fleirum.
Eiður skrifar:
31/10/2012 at 09:46 (UTC 0)
Takk fyrir ábendinguna, Gunnar. Áreiðanlega er þetta rétt athugað hjá þér. Það er fágætlega skemmtilegt að sjá svona skrif í fréttum.
Gunnar skrifar:
31/10/2012 at 08:48 (UTC 0)
Þetta var mjög skemmtileg frétt á mbl.is, ég held að þetta sé óbein tilvitnun í ljóð eftir Grím Thomsen: http://www.ljod.is/index.php/ljod/view_poem/10055