Helgi Haraldsson prófessor emeritus í Osló sendi Molum nokkrar línur (08.11.2012)og segir þar meðal annars: ,,Ég hef minnst á Stóru orðabókina um íslenska málnotkun. Ósköp væri það
menningarlegt framtak hjá fjölmiðlum, s.s. RÚV, að hafa þátt um það
starf sem unnið er á Orðabók Háskólans og vefbækur Snöru
(http://snara.is/8/s9.aspx). Líklega er alltof fáum ljóst hve mörg
girnileg og aðgengileg hjálpartæki þar er að finna fyrir fólk sem vanda
vill mál sitt eða sem er í vafa um beygingar o.þ.h., sbr. t.d. BÍN –
Beygingarlýsing íslensks nútímamáls (http://bin.arnastofnun.is/).
Örlítil sýndarkennsla í notkun þessara verka kynni að láta margt gott af
sér leiða.” Þetta er auðvitað hverju orði sannara og góð hugmynd. Kærar þakkir, Helgi.
Eirný Vals sendi þetta (07.11.2012): ,,Þetta er með eindæmum skrítin fyrirsögn í Morgunblaðinu.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2012/11/07/utdaudi_frakka_fai_hommar_ad_gifta_sig/
Útdauði Frakka fái hommar að gifta sig.
Ef það er vit í setningunni/fyrirsögninni þá hef ég engan skilning.”. Rétt er það að það er ekki minnsta vit í þessu ! Molaskrifari þakkar sendinguna.
Velunnari Molanna skrifar (07.11.2012): ,,Aldrei þessu vant var ég að hlusta á umræður frá Alþingi í gær, þar sem samþykkt var tillaga Skúla Helgasonar o.fl. um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Sullumbullarinn Vigdís Hauksdóttir, sem þú hefur stundum nefnt, var þá að tala fyrir breytingatillögu og ræddi í tvígang um að síðari atburðir í bankasögunni ,hefðu ollið þessum og hinum vandræðunum.
Þú hefur nú ríka máltilfinningu, Eiður. Heldur þú að slys af því tagi ,,að stinga höfðinu í steininn“ geti valdið alvarlegum skemmdum á þeim hluta heilans þar sem máltilfinningin á heima? Heldurðu að það geti jafnvel valdið skaða víðar?”
Molaskrifari treystir sér ekki í sjúkdómsgreiningu á svo sérkennilegu tilfelli.
Vakin er athygli á Tungutakspistli Þórðar Helgasonar á bls. 38 í Morgunblaðinu í dag (10.11.12) þar sem hann fjallar um ,,yfirgang naforðanna”.
Líklega er erfitt að finna nokkursstaðar á byggðu bóli fjölmiðil sem skrifar af jafnmikilli illsku um nána samvinnu 27 Evrópuþjóða og hið íslenska Morgunblað gerir. Stundum hafa svona hatursfull skrif þveröfug áhrif við það sem ætlað er. Það gæti átt eftir að slá í bakseglin hjá Morgunblaðinu.
Óskiljanlegt á mbl.is (09.112012): Óvænt og fyrirvaralaust brotthvarf hans úr starfi kemur sér illa fyrir Obama. Búist hefur verið við að hann muni stökkva upp í sveit þjóðaröryggisrágjafa sinna en þó ætlað Petreus áframhaldandi hlutverk þar. Hér hefur fréttaskrifari greinilega ruglað því saman að stokka upp, gera breytingar og stökkva upp, sem þýðir nú bara að hoppa upp! Þegar Molaskrifari afritaði þetta hafði það staðið óbreytt í hálfa aðra klukkustund á vef mbl.is. Ekki mikið um yfirlestur þar á föstudagskvöldi.
Það er misráðin ákvörðun ráðamanna Kastljóss í Ríkissjónvarpinu að verja takmörkuðu dagskrárfé í kjánagang sem þeir kalla Hraðfréttir. Þar bar mest á undarlega óhnyttnum innanhússbröndurum í sl. viku. Fréttaþulur Hraðfréttanna sagði okkur að Obama hefði sigrað forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Það var og. – Ef þið þurfið endilega að sýna þetta , látið þá einhvern að minnsta kosti prófarkalesa textana.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar