Lesandi sendi þetta (076.11.2012): ,,Ég er áhugamaður um íþróttir en afskaplega er þreytandi á stundum að lesa íþróttafréttir, sérstaklega á vefmiðlunum þar sem varla finnst skrifandi blaðamaður. Sjáðu til dæmis þetta:
„Hákarlinn heitir í höfuðið á athæfi Mario Balotelli framherja Manchester City.“ Einmitt það já. Ég þakka fyrir að vera skírður í höfuðið á afa mínum en ekki einhverju sem hann gerði!
Nú, svo er það þetta:
„Johnson hefur misst af síðustu þremur leikjum liðsins eftir að hafa tognað gegn Anzhi í Evrópudeildinni.“ Ég hef tognað, til dæmis á fæti og baki en aldrei gegn einhverju, til dæmis Anzhi í Evrópudeildinni. Ætli það sé sársaukafullt? Þetta er auðvitað með ólíkindum ! Molaskrifari þakkar sendinguna.
Ágúst Ragnarsson skrifaði (06.11.2012): ,,Sá þetta í Molunum:
,,Athugull lesandi benti á Fésbókarfærslu utanríkisráðuneytisins (02.11.2012) þar sem segir: .. þá kynntu nemendurnir sem koma frá Palestínu, Afghanistan, Úganda og Mósambík .. og segir að betur hefði farið á að segja að nemendurnir væru frá … ekki kæmu frá. Það er rétt athugað.”
,,Ég held að fólk hafi byrjað að ,,koma frá“ Akureyri, Ísafirði, Vestmannaeyjum og víðar þegar kynnar eða hátíðarstjórar í fegurðarsamkeppnum á Broadway, nánast grátandi af geðshræringu, voru að kynna stúlkurnar til leiks í keppnina og notuðu hráþýðingar úr ensku. ,,She comes from Iceland yeahhha“
Því miður er þetta að festast í málinu okkar.
Ps. Ég er frá Seltjarnarnesi!”
Auglýsingar: Einfaldar en áhrifaríkar auglýsingar VÍS bera af auglýsingum tryggingafélaganna. Auglýsing Icelandair um flug til 35 borga austanhafs og vestan 220 ferðir á viku kemur áreiðanlega mörgum á óvart. Hvernig skyldi staðan vera í dag ef Ólafur Ragnar Grímsson hefði haft sitt fram þegar hann barðist með kjafti og klóm fyrir því að Flugleiðir hættu að fljúga til Bandaríkjanna. Sem betur fer réðu vitrari menn því að ekki var farið að ráðum hans í þessu efni.
Af mbl.is (07.11.2012): Ekki þarf að fjölyrða um óþægindi skertrar sjónar sé leiðrétting við henni ekki fengin með gleraugum. Seint verður sagt að þetta sé lipurlega skrifað. Óþægindi skertrar sjónar!
Lesandi skrifar (06.11.2012): ,,Sjá: http://www.visir.is/bjorgolfur-thor-og-robert-wessman-bera-klaedi-a-vopnin/article/2012121109370
Greinin hér að ofan hefur að fyrirsögn:,,Björgólfur Thor og Róbert Wessman bera klæði á vopnin“. Við lestur greinarinnar kemur í ljós að þessir tveir menn deildu um nánar tiltekið málefni, en hafa nú náð sáttum. Ef nota á líkingamál ætti, að mínu mati, að segja þarna að þeir ,,hafi slíðrað sverðin“. Klæði munu borin á vopn af þriðja aðila og voru það líkast til einkum konur sem það gerðu áður fyrr, í þeim tilgangi að torvelda bardaga.” Molaskrifari þakkar réttmæta ábendingu.
Ríkissjónvarpið sýndi lokaþátt hinna sjálfhverfu þátta Andra Freys um Andra Frey í gærkveldi (08.11.2012). Ef ekki hefði verið viðtalið við Janis Johnson , öldungadeildarþingmann (senator á þinginu í Ottawa, sem Molaskrifara þykir fremur ólíklegt að vilji láta kalla sig þingkonu) og fjallkonuna Connie Magnuson sem Andri Freyr lét ekki svo lítið að kynna með nafni, hefði þátturinn í gærkveldi næstum getað verið hvaðan sem var. Andri Freyr ávarpaði Lornu Tergesen á ensku. Hún svaraði á íslensku, en hann hafði ekki fyrir því a eða ræða við hana af neinu viti. Þúsundir Íslendinga hafa hitt Lornu í Tergsenbúðinni í Gimli. Þetta var bæði fúsk og dónaskapur. Sjónvarpið þarf að gera bragarbót. Gera alvöruþætti um fólkið okkar vestra sem helgar sig því að halda menningarafleifð forfeðranna á lofti og bæta fyrir þau mistök sem þessi þáttaröð var. Til þess að svona verk sé vel unnið þarf að nálgast viðfangsefnið af þekkingu, hógværð og virðingu. Það var ekki gert.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
09/11/2012 at 23:00 (UTC 0)
Ekki bara taldi ÓRG flugstöðina of stóra, – og hún var því miður minnkuð, heldur hamraði hann líka á því að hún væri hernaðarmannvirki. Það þyrfti einhver að leggjast í lesa þessar ræður hans.
Egill Þorfinnsson skrifar:
09/11/2012 at 17:58 (UTC 0)
Sæll Eiður,
Þessu til viðbótar varðandi Ólaf Ragnar þá barðist hann líka af mikilli hörku gegn byggingu flugstöðvarinnar sem m.a annars hann taldi alltof stóra.
Kv, Egill Þorfinnsson