Það er með ólíkindum að forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson skuli koma í sjónvarpsfréttir og segja að það sé betra fyrir samskipti Íslands og Bandaríkjanna að Obama skuli hafa verið kjörinn forseti frekar en Mitt Romney. Ólafur Ragnar er ekki talsmaður þjóðarinnar í utanríkismálum. Það er utanríkisráðherrann, samkvæmt okkar stjórnskipan. Utanríkisráðherrann heitir Össur Skarphéðinsson. Hann talar fyrir stefnu landsins í utanríkismálum. Össur á ekki að láta þetta yfir sig ganga. Þetta er raunar alveg hliðstætt við það ef Obama hefði sagt eftir forsetakosningarnar hér hjá okkur að það hefði verið betra fyrir samskipti Íslands og Bandaríkjanna ef Þóra Arnórsdóttir hefði verið kjörin forseti en ekki Ólafur Ragnar. Hvað hefði þá verið sagt? Þá hefði einhver veinað eins og stunginn og talað um alvarlega íhlutun erlends ráðamanns í íslensk innanríkismál. Enn merkilegra er í rauninni að þjóðhöfðingi okkar Íslendinga skuli nota heillaskeyti til Bandaríkjaforseta til að árna honum heilla með endurkjör til þess að prédika yfir honum um loftslagsmál. Seint verður Ólafur Ragnar reyndar talinn til sérfræðinga á því sviði. En að blanda þessu tvennu saman heitir einfaldlega að kunna sig ekki.
Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi þýðir að sjálfsögðu öll ummæli Ólafs Ragnars sem við höfð eru opinberlega um Bandaríkin og sendir til utanríkisráðuneytisins í Washington. Þar taka menn líklega mátulega mikið mark á þessum ummælum forseta Íslands.
Það er dálítið holur hljómur, að ekki sé meira sagt, í fréttatilkynningu forsetaskrifstofu um heillaóskir forsetans til Obama í gær. http://www.forseti.is/media/PDF/2012_11_07_Bandarikjaforseti.pdf Manni verður eiginlega orða vant, þegar haft í í huga að alla sína þingmanns- og ráðherratíð lét Ólafur Ragnar Grímsson eiginlega ekkert tækifæri ónotað til að níða Bandaríkin. Hann efndi til upphlaupa á Alþingi og í fjölmiðlum og fullyrti að Bandaríkjamenn geymdu kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli. Allt voru það ósannindi. Þegar hann var valdamikill þingmaður Alþýðubandalagsins og ríkið átti hlut í Flugleiðum vildi hann að hætt yrði að fljúga héðan til Bandaríkjanna. Þetta var rætt á Alþingi. Steingrímur Hermannsson og fleiri ráðherrar komu í veg fyrir að þessi áform Ólafs Ragnars næðu fram að ganga. Sem betur fer. Þegar Ólafur Ragnar var orðinn forseti Íslands móðgaði hann sendiherra Bandaríkjanna og Bandaríkin eftirminnilega með því að hætta skyndilega við að sæma sendiherrann fálkaorðunni. Sendiherrann var á leið til Bessastaða til að veita orðunni viðtöku þegar Ólafur Ragnar lét hringja í bílinn hennar og segja að hún fengi ekki fálkaorðuna. Aldrei hefur það mál verið skýrt. Ólafur Ragnar skuldar okkur skýringu. Enginn maður skyldi láta sér detta í hug að Bandaríkjamenn hafi gleymt nokkru af þessu. Þeir muna það sem minna er. Allt er þetta skráð og skrifað vestur í Washington.
Skildu eftir svar