Molalesandi sendi eftirfarandi (04.11.2012): ,,Apple býður nú litla spjaldtölvu sem sagt er frá á mbl.is Í texta Árna Matthíassonar segir:,,Hann fer líka miklu betur í hendi, það er til að mynda hægt að halda á honum í einni hendi, sem er ekki hægt með hina græjuna, og fyrir vikið er hún frábær kostur sem lestölva, ekki síður ef mann langar að horfa á vídeó“. Textinn er steypa svo ekki sé meira sagt. Ég hef lesið margar góðar greinar eftir ÁM sem hefur staðið sig vel í umfjöllun um tölvur og tæki. Þarna hefur hann greinilega látið ógert að lesa textann áður en hann var gefinn út.” Molaskrifari þakkar sendinguna. Þarna hefur ólesinn texti greinilega sloppið út.
Takk, Egill Helgason, fyrir viðtalið við Vilhjálm Hjálmarsson fyrrum þingmann og ráðherra, núverandi fræðimann og rithöfund, í Kiljunni í gærkveldi (07.11.2012). ,,Ég er ágætlega ern í efripartinum”, sagði Vilhjálmur og sló á létta strengi. Það voru lítil ellimörk á öldungnum, þótt árin séu orðin mörg. Sannur heiðursmaður Vilhjálmur og hreint ótrúlegur maður. Molaskrifari minnist þess er kjaradeila sjónvarpsstarfsmanna var í hörðum hnút og fundur var haldinn á skrifstofu Vilhjálms sem þá var menntamálaráðherra. Þetta mun hafa verið í september 1976. Formaður starfsmannafélags sjónvarpsins nefndi á fundinum atriði sem starfsmenn lögðu mikla áherslu á og heyrði ekki undir fjármálaráðuneytið sem var mesti þröskuldurinn í málinu. Þá sagði Vilhjálmur: ,,Nú get ég”. Og hann leysti málið.
Eftirfarandi pistill barst Molum frá Danmörku (05.11.2012): ,,Sæll Eiður. Takk fyrir góða og fróðlega pistla. Rakst á þessa auglýsingu frá Wow á forsíðu mbl.is í dag: ,,Lekker pakkar til Köben.“ . Hvað eiga þeir við? Var ætlunin að nota danska orðið ,,lækker“ ? Stundum notað um að eitthvað sé ,,lekkert“ á íslensku. Þetta er ekki vandað. Flestir þeir sem hafa bara smá þekkingu á dönsku vita að fleirtalan af ,,lækker“ er ,,lækre“. Þar fyrir utan finnst mér algjör óþarfi að blanda saman tveimur tungumálum í einni setningu.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Það á ekki að vera hipsum-haps hvort nafn fréttamanns birtist á skjánum í sjónvarpsfréttum. Það á alltaf að birta nöfn. Um þetta virðast ekki gilda fastar reglur hjá Ríkissjónvarpinu (05.11.2012).
Ósköp er lítil reisn yfir því þegar dagskrárkynnir Ríkissjónvarps segir að ferðalag Andra Freys um Kanada fari nú að styttast í annan endann (05.11.2012). Molaskrifari syrgir hinsvegar ekki að þessum þáttum skuli nú ljúka. Þeir flokkast ekki undir vandaða dagskrárgerð. Langur vegur frá.
Aftur og aftur og aftur má sjá á helstu fréttavefjum aulaháttinn þegar talað er um að „draga að sér fé“. http://www.dv.is/frettir/2012/11/5/nunna-stal-milljonum/ Hér er þetta bæði í undirfyrirsögn og meginmáli þannig að ekki er um innsláttarglöp að ræða. Fólk sem þekkir ekki orðalagið „draga sér fé“ og skynjar ekki hugsunina að baki er ekki hæft til að stunda fréttaskrif. Vanþekking á þessu tiltekna atriði er traustur vitnisburður um almenna vanþekkingu á íslensku máli.
Salan hefur verið samkvæmt bókinni, segir í fyrirsögn í Morgunblaðinu (06.11.2012). Verið var að fjalla um bílasölu. Hvaða bók? Algjör óþarfi er að innleiða þetta enskættaða orðalag í íslensku.
Í fréttum Stöðvar tvö (07.11.2012) var ítrekað sagt: … taldra atkvæða, þegar átti að segja: … talinna atkvæða. Ótrúlegt að enginn skuli hafa heyrt séð eða leiðrétt þessa villu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eirný Vals skrifar:
08/11/2012 at 15:31 (UTC 0)
Það er hægt að gera nokkrar athugasemdir við texta ÁM án þess að vera smámunasamur.
Rangt er að segja einni hendi – við höldum á hlut í annarri hendi (erum með tvær).
Svo er skipt á milli kynja.
Fyrst er sagt frá spjaldtölvu, sem er kvenkyn. Samt sem áður hefst næsta setning á orðinu hann sem vísar til spjaldtölvunnar (ég tel að þar hafi ipad verið efst í huga þess er skrifar). Að lokum er talað um græju, sem er kvenkyn, og vísað í hana sem slíks.
Illa skrifaður texti, illa hugsaður.
Friðrik Smári Sigmundsson skrifar:
08/11/2012 at 10:29 (UTC 0)
Ég get ekki fallist á að texti ÁM sé steypa. Hann er mér fyllilega skiljanlegur.
[Nýi Ipad-inn] fer líka miklu betur í hendi, það er til að mynda hægt að halda á honum í einni hendi, sem er ekki hægt með hina græjuna, og fyrir vikið er [nýja græjan] frábær kostur sem lestölva, [og] ekki síður ef mann langar að horfa á vídeó.
Þetta er nú fremur auðlesinn texti .