«

»

Molar um málfar og miðla 1058

Þeim vantar græna orku, sagði sveitarstjóri fyrir norðan , sem vill fá gagnaver í sína sveit. Ummælin féllu í viðtali í hádegisfréttum Ríkisútvarps (10.11.12) Er orrustan töpuð?
– þá hefur verið mjög rík krafa í samfélaginu undanfarin ár um beinara lýðræði og persónukjör, skrifar bloggari. (10.11.12) Hann á við beinna lýðræði. Ekki beinara.
Lögreglu höfuðborgarsvæðisins var á þriðja tímanum í nótt tilkynnt um mann sem ætlaði að henda sér í sjóinn af Reykjavíkurhöfn. (mbl.is 11.1..2012) Hvernig henda menn sér í sjóinn af Reykjavíkurhöfn?
Alla vörur í búðinni , auglýsir Dressmann í sjónvarpinu. Hvar var prófarkalesarinn? Sá enginn þetta á auglýsingastofunni eða auglýsingadeild Ríkissjónvarpsins? Það var verið að fjalla um allar vörur í búðinni. Í skjátilkynningu skiptir Ríkissjónvarpið orðinu björgunarsveitirnar svona milli lína: Björgunarsv eitirnar. Hvar var prófarkalesarinn er enn spurt ?
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (11.11.2012) spurði íþróttafréttamaður viðmælanda sinn hvort tiltekið atriði mundi nýtast þeim reynslulega séð ! Allt er nú orðið óskaplega – lega. Og svo var að venju talað um þá sem taka þátt á mótinu. Íslensk málvenja er að taka þátt í móti. Keppa á móti. Taka þátt í móti.
Alþjóðabadmintonmótið Iceland International lauk í dag, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (11.11.2012). Mótið lauk ekki. Mótinu lauk. Það ætti ekki að vera mönnum ofviða að hafa þetta einfalda atriði rétt.
Í fréttum Stöðvar tvö (11.11.2012) talaði alþingismaður um ungt fólk af báðum kynum. Átti að vera af báðum kynjum.
Lesandi benti Molaskrifara á eftirfarandi: ,,Húsgagnahönnuður endar auglýsingar sínar á orðunum: Eitt landsins mesta úrval. Hvað segirðu við þessu?” Þetta hefði mátt orða betur og segja bara: Landsins mesta úrval. Orðinu eitt er ofaukið.
Orðið pírati er ekki nýyrði yfir sjóræningja eins og fréttamaður Stöðvar tvö sagði (11.11.2012) Það er enskusletta. Sjóræningi á ensku er pirate. Pírati er ekki nýyrði.
Þið takið áskoranir , sagði dómari í þættinum Dans,dans, dans í Ríkissjónvarpinu (10.11.12). Molaskrifari játar að hann skilur ekki alveg við hvað er átt með þessu orðalagi. Kynnirinn í þættinum sagði okkur frá danshópi sem væri nýkominn heim frá ellei. Hversvegna ekki tala íslensku við okkur? Ellei er ensk skammstöfun, enskt slangur um heiti borgarinnar Los Angeles í Kaliforníu.. En þetta eru líklega bara smáangar af menningarstefnu Ríkissjónvarpsins sem kristallast í því innræta ungu fólki að fátt skipti meira máli í lífinu en dans og popptónlist. Það skortir aldrei fé til dagskrárgerðar þegar um slíkt efni er að ræða. Forgangsröðunin er skýr.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

10 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Valur skrifar:

    Ég skil allveg leiðréttinguna Gunnar. En einsog Eiður segir þá er orðinu „eitt“ ofaukið, hann talar aldrei um orðaröðunina. það sem ég var að benda á er hversvegna því sé ofaukið. Ég sagði aldrei að orðaröðin sem notuð er sé rétt eða góð.

  2. Gunnar skrifar:

    Valur skilur greinilega ekki leiðréttinguna. Orðaröðin er röng. Húsgagnaframleiðandinn, sem er svona lélegur í íslensku, gæti e.t.v. auglýst: „Eitt mesta úrval landsins“ en það er beinlínis bull að auglýsa „Eitt landsins mesta úrval“ og ætti hvorki að sjást né heyrast í fjölmiðlum ef menn vilja láta taka sig alvarlega.

  3. Eiður skrifar:

    Rétt. Þetta snýst um að kunna.

  4. Pétur skrifar:

    Mér finnst málfar íþróttafréttamanna oft á tíðum slæmt, íslenskan þeirra er ekki góð: Heilt yfir, segja þeir í tíma og ótíma, í stað þess að segja t.d. á heildina litið. Þeir sýndu mikinn karakter að gefast ekki upp í stað þess að segja t.d. þeir sýndu mikinn styrk í að gefast ekki upp við mótlætið. Íslenskir íþróttafréttamenn ættu að hlusta á gamlar upptökur af íþróttalýsingum Hermanns Gunnarssonar og reyna að taka hann sér til fyrirmyndar. Hermann talaði ávallt gott mál af mikilli lipurð.

  5. Eiður skrifar:

    Jú, líkast til þarf eitthvað af því tagi til að koma. Aðhald er ekkert innan stofnunarinnar. Ekkert eftirlit. Engin stjórnun. Því miður.

  6. Valur skrifar:

    Jú rétt er það, er það ekki þá helst ef einhver samkeppnisaðili leggi fram kvörtun, ekki er eftirlit með reglunum hjá stofnuninni sjálfri.

  7. Eiður skrifar:

    Ég held, Valur, að þetta bann sem einu sinni var, sé ekki lengur. Ayuglýsingadeild Ríkisútvarpsins virðist horfa framhjá öllum reglum þegar mönnum svo sýnist. Dagskrárgerðarmenn koma fram í auglýsingum, áfengisáuglýsingar vaða uppi, og svo framvegis. Það er eins og reglurnar séu á stundum bara til að að sýnast.

  8. Valur skrifar:

    „Eitt landsins mesta úrval“ Er þetta ekki sagt svona til að komast fram hjá reglum sem banna notkun á efsta stigi lýsingarorða í auglýsingum.

  9. Eiður skrifar:

    Rétt er það, Magnús. Ungt fólk er af báðum kynjum. Það er þó líklega nokkuð fast í málinu að tala um fólk af báðum kynjum

  10. Magnús Guðlaugsson skrifar:

    „Í fréttum Stöðvar tvö (11.11.2012) talaði alþingismaður um ungt fólk af báðum kynum. Átti að vera af báðum kynjum“ Er ekki af báðum kynjum ofaukið? Annars væri um unga menn eða ungar konur að ræða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>