«

»

Molar um málfar og miðla 1060

Molavin sendi þetta (12.11.2012): http://www.dv.is/frettir/2012/11/10/greina-alzheimers-med-aratuga-fyrirvara/
Í þessari grein stendur:,,Í sumum svæðum heilans þurfa hátt í 20% heilasella að ónýtast áður en einkennin koma fram.“ Ég hef aldrei heyrt þetta orðasamband áður. Að ónýtast? Ólafur Kjaran virðist hafa misstigið sig þarna. Molaskrifari þykist nú reyndar hafa heyrt þetta áður og er ekki viss um að skrifarinn hafi misstigið sig, – alla vega ekki alvarlega.

Í tölvupósti sem Molaskrifari fékk er auglýsing frá símafyrirtækinu Tali, en þar segir: Ljósnetið er á appelsínugulu verði hjá Tali. Molaskrifari játar að hann er engu nær. Hvað í veröldinni er appelsínugult verð? Þetta er eiginlega bara bull.

Í Morgunblaðinu (13.11.2012) stendur: Suzuki þarf að taka lán fyrir 45 milljónum dala eða 5,75 milljörðum króna vegna greiðslu …. Hér hefði verið betra að segja: Suzuki þarf að taka lán að upphæð 45 milljónir dala eða 5,75 milljarða króna …

Valur spyr (13.11.2012): http://www.mbl.is/folk/frettir/2012/11/12/djupid_verdur_synt_i_bandarikjunum/
“Hefði ekki verið réttara að segja hér: Djúpið verður sýnd í Bandaríkjunum.
þar sem verið er að tala um að kvikmyndin verði sýnd.” Jú, segir Molaskrifari, en sjálfsagt hafa ýmsir aðrar skoðanir á því.

Í morgunþætti Rásar tvö (13.11.2012) sagði einn umsjónarmanna að það væri laumuleg hálka! Félagi hans leiðrétti hann og sagði lúmsk hálka sem er gott og gilt. Það var launhált.

Af mbl.is (14.11.2012): Færeyska-íslenska viðskiptaráðið var stofnað síðasta laugardag í Þórshöfn í Færeyjum. Þarft og gott framtak, – en vonandi var þetta ágæta ráð ekki stofnað síðasta laugardag heldur á laugardaginn var.

Á döfinni eru forystuskipti í Kína, mannflesta ríki veraldar og einu því voldugasta. Þessi skipti fara fram með tíu ára millibili. Hvað hefur Ríkissjónvarpið gert til að fræða okkur um þetta og setja þessa atburði í samhengi við það sem er að gerast í Asíu og í veröldinni? Ég minnist þess ekki að hafa séð neitt um þetta. Kannski hefur það farið framhjá mér. En hafi Ríkissjónvarpið ekkert sinnt þessu, eins og mig grunar, þá er það að bregðast hlutverki sínu. Það hefur meiri skyldur við þjóðina í skjóli einkaréttar til innheimtu nefskatts en að sýna okkur ódýrt amerískt afþreyingarefni daginn út og daginn inn. Eiginlega hefur Fréttablaðið gert betur í þessum efnum, – sjá t.d. ágæta grein Jón Orms Halldórssonar dósents í blaðinu í dag (15.11.2012).
Lögmaður talaði um að vera með kæru yfir höfðinu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (13.11.2012) ! Talað er að eiga eitthvað yfir höfði sér, eiga eitthvað miður gott í vændum. Hafa lesendur annars tekið eftir því að það eru yfirleitt sömu lögmennirnir sem aftur og aftur koma fram í fréttum Ríkisútvarpsins?

Tvær athyglisverðar fréttir úr fjölmiðlum í fyrradag (13.11.2012). Ríkisútvarpið sagði frá uppnámi á stærsta asnamarkaði Afríku ! http://www.ruv.is/frett/uppnam-a-asnamarkadi Séð og heyrt deild mbl.is sagði frá konu sem gerir svokallaðar rassaæfingar reglulega! http://www.mbl.is/smartland/heilsa/2012/11/13/gerir_rassaefingarnar_reglulega/

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þetta er eiginlega alveg óskiljanlegt. Þetta er örugglega ekki dýrt efni. Auðvelt að flétta innlendum umræðumínn í erlenda fréttaskýringaþætti. Það vantar líka heimildamyndir um sögu og pólitíska þróun í heiminum á liðinni öld , að ekki sé nú talað um heimsstyrjaldirnar tvær. Það er til mikið af myndum um þr´æounina í Þýskalandi, nasisma , fasisma og kommúnisma. En við fáum læknaþætti og vídeóleiguefni. Því miður.

  2. Gunnar Hrafn skrifar:

    Ég styð heilshugar hugmyndir þínar um fréttaskýringarþætti á RÚV. Við erum með frábært efni af þeim toga í útvarpi í formi Spegilsins og annarra þátta og það mætti mjög gjarnan bæta við svipuðum þáttum í sjónvarpi. Það hefur oft verið rætt en ég veit satt að segja ekki á hverju strandar

  3. Eiður skrifar:

    Ég er ekki búinn að skipta um viðmið. Ég hef fyrst og fremst verið að tala um fréttaskæýringarþætti, hef marg oft lýst eftir slíku efni. Þannig þættir voru á dagskrá sjónvarpsins fyrstu árin, m.a. Panorama. Með fullri virðingu fyrir ,,fréttaskýranda “ í Peking þá fannst mér amk það sem ég sá ekki bæta miklu við fréttirnar, – þú fyrirgefur. Óbeit stjórnenda yfirmanna á fréttaskýringaþáttum er mér óskiljanleg. Þeir ættu að vera fastir liðir eins til dæmis hjá norrænu stöðvunum. Hversvegna ekki fá þætti fra þeim, eða BBC? En auðvitað hefur Dans, dans, dans og slíkt efni forgang!

  4. Gunnar Hrafn skrifar:

    Með fullri virðingu finnst mér þú vera búinn að skipta um viðmið. Í pistlinum segir að þú minnist þess ekki að hafa séð neitt um þetta, nú segir þú í raun að auðvitað hafi þetta verið í fréttum vikum saman en frekar hefði átt að gera sérstakan þátt um málið. Því get ég mun frekar verið sammála. Mér finnst við hafa fjallað töluvert um þessi mál og meðal annars tekið viðtöl við fréttaskýranda okkar í Pekíng en auðvitað væri frábært ef hægt væri að bæta við sérstökum erlendum fréttaskýringaþætti í sjónvarpið. Ég veit að það eru margir áhugasamir um það og vonandi verður hugmyndin að raunveruleika einn góðan veðurdag

  5. Eiður skrifar:

    Auðvitað hefur verið minnst á þetta fréttum, – ég minnist þess hinasvegar ekki að hafa séð einn einasta fréttaskýringarþátt í sjónvarpinu. Huganlegt er að slíkt hafi farið framhjá mér. Erlendar stöðvar hafa verið óþreytandi að fjalla um þetta. Erlendar fréttaskýringar í sérstökum þáttum virðast hreint eitur í beinum þeirra sem raða upp dagskrá Ríkissjónvarpsins,sem búið er að endurskíra og heitir oftast RÚV. Þetta RÚV bull útvarpsstjórans veldur ruglingi, Stundum er orðið notað um sjónvarpið og báðar útvarpsrásirnar. Stundum eingöngu um sjónvarpið. Það er ekki gott.

  6. Gunnar Hrafn Jónsson skrifar:

    Sæll.

    Það kemur mér á óvart að umfjöllun RÚV um leiðtogaskiptin í Kína hafi farið framhjá þér en þau hafa verið tekin fyrir í útvarpsfréttum, útvarpsþáttum, sjónvarpsfréttum og á vefnum. Síðasta sjónvarpsfrétt um málið held ég að hafi farið í loftið í gær og fjallaði um afstöðu hins almenna borgara til leiðtogaskiptanna. Ég hef sjálfur fjallað mikið um málið í tengslum við Bo Xilai og átök harðlínumanna og umbótasinna í flokknum síðustu vikur og mánuði, aðallega í útvarpi en einnig sjónvarpi. Ég er nokkuð viss um að Spegillinn hafi einnig gert þessu einhver skil. Hér er síðan stórgóð úttekt Guðjóns Helgasonar: http://www.ruv.is/pistlar/gudjon-helgason/vandi-nyrra-valdhafa-i-kina

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>