«

»

Molar um málfar og miðla 1061

Til hamingju með dag íslenskrar tungu,16. nóvember, ágætu Molalesendur, en höfum jafnan hugfast að allir dagar eru dagar íslenskrar tungu.

Björn Gunnlaugsson vísar á þennan tengil í tilefni dagsins: http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/forsidugreinar/nr/7226
Og segir: ,,Sæll Eiður, mig langar að vekja athygli þína á hlekk sem finna á á vef menntamálaráðuneytisins, þar sem sagt er frá ýmiskonar dagskrá í tilefni af degi íslenskrar tungu. Það er nefnilega hægt að smella á hlekkinn til að fræðast nánar um „dagskránna“.
Mér er spurn hvort íslensk málnefnd sé svo önnum kafin við dómsdagsspár um að tölvutækni muni útrýma íslensku, að hún geti ekki fylgst með því að ráðuneytisstarfsmenn kunni helstu stafsetningarreglur?”

Sigmundi Erni vantaði 18 atkvæði, segir í fyrirsögn á pressan.is (13.11.2012). Honum vantaði sem sé atkvæði að sögn pressunnar! Þágufallssýkin er öll að færast í aukana. Vísað er í frétt á Vikudegi sama dag, en þar er þetta hinsvegar rétt. Pressuskrifara tókst að búa til villu með því að vitna rangt í það sem var rétt.

Halldór Skúlason sendi þessar línur (13.11.2012): ,,Sæll Eiður og hafðu bestu þakkir fyrir pistlana þína. Fjölmiðlar standa í þakkarskuld við þig fyrir þá málfarshjálp í viðlögum sem þú veitir þeim á hverjum degi. Þó grunar mig að fáir þeirra geri sér grein fyrir skuldinni og enn færri hirði um að greiða hana. Erindið var annars að gera örlitla athugasemd við pistil dagsins, þann eitt þúsund fimmtugasta og áttunda. Þar er gerð athugasemd við orðalagið „Eitt landsins mesta úrval“ í auglýsingu húsgagnahönnuðar og þú bendir á að betur færi á að segja „Landsins mesta úrval“, án fyrirvarans. Því er ég sammála. Þarna eru það þó að öllum líkindum 6. og 7. grein laga nr.57/2005 sem knýja húsgagnahönnuðinn til að setja fyrirvarann. Samkvæmt þeim er óheimilt: „að nota í auglýsingum lýsingarorð í efsta stigi nema unnt sé á einfaldan hátt að færa sönnur á fullyrðinguna“. Það er líkast til ekki hlaupið að því að færa, með einföldum hætti, sönnur á svona fullyrðingu. Sem dæmi um það má nefna stjórnmálaflokk sem í síðustu bæjarstjórnakosningum auðkenndi sig með efsta stigi lýsingarorðsins góður. Nú, rúmum tveimur árum síðar, hefur fulltrúum þess flokks enn ekki auðnast að færa sönnur á fullyrðinguna. Í það minnsta ekki með einföldum hætti. Kannski skjóta þau orðinu „Einn“ fyrir framan nafnið sitt í næstu kosningum. Það væri hressileg hreinskilni þó slagkraftur nafnsins yrði óneitanlega minni.” Molaskrifari þakkar Halldóri bréfið.

Feikaðu heimsborgarann í þér, segir í fyrirsögn Séð og heyrt deildar Morgunblaðsins, Smartlandi (14.11.2012). Ekki að spyrja að því. Alltaf til einstakrar fyrirmyndar um málfar. Svo benti Sigurjón á eftirfarandi (14.11.2012) úr þessum sama Séð og heyrt dálki Morgunblaðsins: ,,Getur verið að fjölmiðlafólk sé almennt farið að ruglast á merkingu orðanna „hús“ og „heimili“?
Sá á mbl.is fyrirsögina: „Gamla heimili Steinunnar Ólínu fæst á 89 milljónir“. Fjölmörg dæmi eru um þessa sömu villu síðustu vikur.
Heimili voru áður leyst upp og þótti ægilegt. En heimili eru ekki seld, heldur hús. Sala á heilu heimili gæti bent til þrælahalds.
Í amerísku er húsum og heimilum hins vegar oft slegið saman og talað um „home“ um bæði hús og heimili” Sjá: http://www.mbl.is/smartland/heimili/2012/11/14/gamla_heimili_steinunnar_linu_faest_a_89_milljonir/ Allt er þetta rétt, Sigurjón, og hefur raunar verið drepið á þetta áður í Molum.
Molavin segir um þetta sama mál: Enn eru heimili til sölu á Smartlandi Moggans. http://www.mbl.is/smartland/heimili/2012/11/14/gamla_heimili_steinunnar_linu_faest_a_89_milljonir/
Þótt húsið sé selt hlýtur að vera sárt að láta af hendi alla sína persónulegu muni; það sem skapar heimili fólks”. Molaskrifari þakkar þarfar ábendingar.

Góður smekkur og góð dómgreind voru í öndvegi í upphafi dags íslenskrar tungu (16.11.2012) á Rás tvö í Ríkisútvarpinu. Þar hófst dagurinn með vikuskammtinum frá slúðurfréttaritara (nafngiftin er frá Rás tvö komin) Ríkisútvarpsins á Kyrrhafsströnd Bandaríkjanna. Þar var okkur sagt aðíslenska orðið orðræða, væri orðskrípi, Repúblikanar væru vondir taparar, (e. bad losers), tapsárir, Petraeus væri hershöfðingi sem væri meira en að vera aðmíráll! Aðmírálar eru í flotanum en hershöfðingjar í landher og flugher og að Petraeus þyrfti ekki að mæta og bera vitni fyrir Alþingi! Síðast þegar vitað var , var Alþingi enn að störfum við Austurvöll og ekki búið að flytja það vestur um haf. Ekki er vitað til að ætlunin hafi verið að kalla herforingjann fyrir íslenska þingnefnd. Í veröldinni er aðeins eitt Alþingi og það er þjóðþing okkar Íslendinga. Hvenær ætlar Ríkisútvarpið að sýna okkur að það hafi þá dómgreind og smekkvísi til að bera til að hætta að útvarpa þessu endemisrugli?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>