Það var verðskuldað og viðeigandi að veita Hannesi Péturssyni viðurkenningu á degi íslenskrar tungu, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Sagt var frá verðlaununum í fréttum Ríkissjónvarps, en hvorki í fréttum Stöðvar tvö né í sex fréttum útvarpsins. Hannes er okkar höfuðskáld, einna mestur orðsins snillingur þeirra sem nú eru á dögum. Og þessu til viðbótar skrifar hann svo fínar greinar um forsetann okkar að það verður vart betur gert. Ekki er hinsvegar víst að þessi verðlaunaveiting hafi vakið sérstaka gleði á Bessastöðum. Það er reyndar allsendis óvíst. Til hamingju Hannes Pétursson.
Í fréttum Stöðvar tvö (14.11.2012) var rætt um framkvæmdir á húsnæðinu, sem ekki hafa verið gerðar. Við þetta gerir Molaskrifari tvær athugasemdir. Eðlilegra væri að tala um framkvæmdir við húsnæði eða breytingar á húsnæði. Svo getur það tæplega talist vandað mál að tala um að gera framkvæmdir. Betra væri að tala um að ráðast í framkvæmdir.
Í þessum sama fréttatíma Stöðvar tvö var fjallað um hjúkrunarheimilið Eir sem mjög hefur komið við sögu í fréttum að undanförnu. Þar var sagt: … til að fyrirbyggja að íbúar og aðstandendur þeirra verði ekki fyrir fjárhagstjóni. Hér er orðinu ekki ofaukið,. Hér hefði átt að segja … til að fyrirbyggja að íbúar og aðstandendur þeirra yrðu fyrir fjárhagstjóni.
Hópi sveitarstjórnarmanna var í dag kynnt ný drög … var sagt í fréttum Ríkisjónvarps (14.11.2012). Molaskrifari er á því að hér hefði átt að segja: Hópi sveitarstjórnarmanna voru í dag kynnt ný drög …
Volvo skapar eftirtekt, segir í auglýsingu Brimborgar. Við tölum almennt ekki um að skapa eftirtekt. Við tölum um að vekja eftirtekt. Volvo vekur eftirtekt væri miklu betra slagorð í auglýsingum. Meira um bílaauglýsingar. Í auglýsingu frá Heklu (15.11.2012) er talað um að skreppa vestur á Ólafsvík. Á tilteknu skeiði ævinnar átti Molaskrifari oft erindi vestur í Ólafsvík og minnist þess aldrei að hafa heyrt talað um að fara vestur á Ólafsvík.
Valbjörn Júlíus segist lesa Molana á hverjum degi og oft skemmta sér vel. Hann sendi eftirfarandi (15.11.2012):
,,Nokkrum sinnum á ári, er auglýst miðnæturopnun í Smáralind.
Ef þú lest orðið miðnæturopnun, hvort myndir þú telja að opna ætti á miðnætti eða loka? Hurðum Smáralindar verður nefnilega skellt í lás á miðnætti, sem ég myndi frekar auglýsa sem Miðnæturlokun“. Þetta er réttmæt ábending. Molaskrifari þakkar sendinguna.
Alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Í frétt um Eirarmál á mbl.is (15.11.2012) er notað orðið örlætisgerningur. Það mikið diplómatí eins og þar stendur, að taka svona til orða. ,,Ríkisendurskoðun telur gjafabréf sem Sigurður Helgi Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Eirar, lét Eir greiða vera örlætisgerning”. Var ekki framkvæmdastjórinn að hygla ættmenni sínu?
Skráningum lokar á miðnætti, segir ráðherra í fésbókarfærslu (14.11.2012). Að skaðlausu hefði mátt orða þetta betur: Skráningu lýkur á miðnætti, hefði verið ágætt orðalag.
Og að lokum: enn um sögnina að ónýtast. Sigurjón skrifar (15.11.2012): „Í sumum svæðum heilans þurfa hátt í 20% heilasella að ónýtast áður en einkennin koma fram.“
Þetta er ansi nálægt tungutaki í sjálfri Njálu ef ég man rétt” Sjálfsagt er þetta rétt hjá þér og bréfritari sem gagnrýndi þetta orðalag hefur haft Ólaf Kjaran fyrir rangri sök.
Tilraun Kastljóssins með svokallaðar Hraðfréttir mistókst. Það á ekki að fleygja fé í svona fíflagang. Fyrir utan það að þetta á ekkert erindi í fréttaskýringaþátt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
17/11/2012 at 23:20 (UTC 0)
Svo er margt sinnið sem skinnið. Sjálfhverfan í þáttum Andra Freys var yfirgengileg. Hann var fyrst og fremst að gera þætti um sjálfan sig. Hann gaf Vestur Íslendingum langt nef. Þeir sem þekkja til á þessum slóðum skilja hvað ég á við. Ég er reyndar búinn að vera í sambandi við fólk vestra sem er lítið hrifið að ekki sé sagt. Það bjóst við öðru. Hver var að biðja um samtöl við sendiherra? Það átti bara að tala við venjulegt fólk eins og það gerist best vestra.Það er nóg af því. Hann kynnti ekki einu sinn fjallkonuna sem rætt var við og gekk eiginlega fram hjá Lornu Tergesen sem rekur Tergesen verslunina sem er eiginlega miðpunkturinn í Gimli. Hann vissi eiginlega ekkert hvað hann var að gera. Til þess var hann alltof upptekinn af því að sýna sjálfan sig, – því miður. Þarna var hörmulega að verki staðið, – hefði veri’ð hægt að gera fínt efni úr þessu. Ríki´ssjónvarpið kostaði miklu til og fékk lítið sem ekkert í staðinn. HVað skyldi þetta hafa kostað margar milljónir? – Líklega verður aldrei frá því greint.
Arnar H skrifar:
17/11/2012 at 21:10 (UTC 0)
Sæll
Þú kemst oft vel frá því að leiðrétta lélegt málfar í fjölmiðlum en þegar kemur að því að dæma hvort þættir séu boðlegir eða ekki ertu að mínu mati langt frá því sem mér finnst.
Hraðfréttir eru skemmtilegt sjónarhorn á fréttir og fólk.
Andri á flandri voru alveg meiriháttar vel heppnaðir þar sem hann fann viðmælendur eftir sínu nefi en ekki ekki einhverja fyrirsjáanlega og leiðinlega sendiherra og þ.h.
Láttu aðra um að dæma hvað sé fyndið og skemmtilegt. Þá er ég ekki að segja að allt efni eigi að vera fyrir sjálfhverfu kynslóðina heldur eru foreldrar og tengdaforeldrar mínir á þínum aldri og hafa mjög gaman af þessu sjónvarpsefni.
Kv AH
Eiður skrifar:
17/11/2012 at 19:50 (UTC 0)
Takk fyrir þetta, Bergsteinn.
Bergsteinn Sigurðsson skrifar:
17/11/2012 at 18:43 (UTC 0)
Verðlaunin voru ekki veitt fyrr en klukkan 18, Stöð tvö hefur líklega ekki náð þeim í sinn fréttatíma (hvað þá RÚV í útvarpsfréttir klukkan 18).