Enn einu sinni fengu hlustendur að heyra amböguna: Kjörstöðum lokaði klukkan átján. Þetta var í kvöldfréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (17.11.2012). Það má ekki dragast lengur að Ríkisútvarpið ráði málfarsráðunaut. Kjörstöðum var lokað klukkan átján. Þeim lokaði ekki. – Tveir hlustendur hringdu til Molaskrifara eftir að hafa hlustað á þetta í sjálfu Ríkisútvarpinu.
Hér er gott dæmi um heldur hallærislegan rithátt á fésbókinni (15.11.2012): Það duttu inn tónleikar með litlum fyrirvara á Café Rósenberg núna á fimmtudaginn …. Líklega þýðir þetta að ákveðið hafi verið með stuttum fyrirvara að halda tónleika. Í fréttum Ríkissjónvarps (17.11.2012) var sagt frá úrslitum í prófkjöri sem voru að detta í hús. Smitandi og ekki er svona málfar til fyrirmyndar.
Dálítið undarlegt orðalag á mbl.is (15.11.2012): David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, viðraði í dag áhyggjur sínar vegna átakana á Gaza-svæðinu. Molaskrifari er á því að hér hefði farið betur á segja að breski forsætisráðherrann hefði lýst áhyggjum sínum frekar en viðrað þær.
Hér er vikið að undarlegri fyrirsögn í ábendingu frá Þórði: “http://www.dv.is/frettir/2012/11/15/alvarlegt-slys-vid-heklu-eftir-ad-okumadur-fekk-hjartaafall/
Ansi þykir mér þetta óheppileg fyrirsögn. Nær væri að segja að slysið hefði átt sér stað við Laugaveg.” Rétt ábending. Fékk hjartaáfall við Heklu gefur alranga mynd af því sem gerðist, þótt fyrirsögnin sé í sjálfu sér ekki röng,þá er hún villandi.
Þetta er úr klaufalega skrifaðri frétt á dv.is (16.11.2012):,, Flugvél bandaríska flugfélagsins United Airlines lenti örugglega á flugvelli í Washington, DC, eftir að hafa verið fylgt af herþotum hluta leiðar sinnar frá Denver. Ástæða fylgdarinnar var sú að meðlimur í flugáhöfninni tilkynnti um neyðarástand vegna manns sem byrjaði að biðja á gangi flugvélarinnar.” Lenti örugglega, verið fylgt af herþotum, meðlimur í flugáhöfninni, byrjaði að biðja !
Áhrifamikill og vel gerður þáttur um björgunarsveitirnar í Ríkissjónvarpinu (18.11.2012). Það er meira en að segja að fella svona efni saman í vandaðan þátt. Þeir sem þarna komu að verki eiga hrós skilið, en mesta hrósið eiga auðvitað björgunarsveitarmennirnir.
Molaskrifari skilur ákaflega vel að Norðmenn skuli tala um sitt ríkisútvarp sem NRK. Það heitir Norsk Rikskringkastning og verður seint sagt þjált í munni. En Molaskrifara er algjörlega fyrirmunað að skilja hversvegna útvarpsstjóri hefur bannað starfsfólki Ríkisútvarpsins að nefna stofnunina sem það vinnur hjá sínu rétta nafni sem er Ríkisútvarpið og fyrirskipað að stofnunin skuli heita rúv. Það er ekkert erfitt að segja Ríkisútvarpið. Það er enginn tungubrjótur. Þessvegna er þetta óskiljanlegt. Það er allt í lagi að nota skammstöfunina rúv t.d. í erlendum samskiptum, en að bannfæra orðið Ríkisútvarp er forkastanleg ákvörðun, órökstudd og umfram allt óskynsamleg.
Það eru veilur í gerð skjáskilta þar sem dagskrá Ríkissjónvarpsins er kynnt. Gamla myndin sem endursýnd var á föstudagskvöld (16.11.2012) var sögð heita The Heartbrake Kid. Myndin heitir The Heartbreak Kid, sem þýðir dálitið annað, – hitt er raunar merkingarleysa. Þar fyrir utan var algjör óþarfi að endursýna þessa mynd. Hún stóð ekki undir endursýningu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Valur skrifar:
20/11/2012 at 09:10 (UTC 0)
Jú að sjálfsögðu ætti það að vera augljóst, en ég verð að játa að ég las þetta eins í báðum tilvikum.
Eiður skrifar:
19/11/2012 at 15:40 (UTC 0)
Heartbrake, Heartbreak. Hélt þetta væri augljóst.
Valur skrifar:
19/11/2012 at 14:26 (UTC 0)
Ég verð að játa að ég fatta ekki allveg þessa setningu hjá þér.
„var sögð heita The Heartbrake Kid. Myndin heitir The Heartbreak Kid, sem þýðir dálitið annað, – hitt er raunar merkingarleysa.“