«

»

Molar um málfar og miðla 1064

Í fréttum Stöðvar tvö (16.11.2012) var sagt frá manni sem hafði verið handtekinn á Leifsstöð, – flugstöðinni í Keflavík. Molaskrifari er á því að fremur hefði átt að segja að maðurinn hefði verið handtekinn í Leifsstöð.

Kristján Sigurjónsson á fréttastofu Ríkisútvarpsins fær hrós fyrir að tala um fern samtök og tvenn samtök í morgunfréttum útvarpsins (10.11.2012). Of oft er því miður í fjölmiðlum ranglega talað um tvö samtök eða þrjú samtök.

Hversvegna þurfa bílaumboðin umfram aðra að því er virðist að nota slettur í auglýsingum? Bílabúð Benna auglýsir (17.11.2012): Krúsaðu frítt í eitt ár. Viðskiptavinur sem kaupir bíltegundina sem verið er að auglýsa fær ,,frítt” bensín sem gæti dugað til aksturs í eitt ár. Lengi auglýsti Toyota bílaumboðið að við ættum að smæla. Þessar auglýsingar eru ekki til fyrirmyndar.

Ríkissjónvarpið blandar saman dagskrárkynningum og auglýsingum með afar vafasömum hætti. Auglýst er svo kallað ,,fæðubótarefni” og keppni og látið líta út fyrir að um dagskrárkynningu sé að ræða. Hvað segir fjölmiðlanefnd? Eiga áhorendur ekki heimtingu á að fá að vita hvað eru auglýsingar og hvað er kynning á dagskrá. Þarna eiga að vera skýr mörk á milli. Það sýnir reyndar líka vinnubrögð á auglýsingadeild Ríkisútvarpsins að þetta sama kvöld (16.11.2012) var áhorfendum tilkynnt rétt fyrir klukkan 22 00 að nú væru síðustu forvöð að versla á tilteknum markaði því honum yrði lokað klukkan 18 00!

Eitt virðist fjölmiðlum hafa tekist og það er að festa í málinu orðatiltækið að taka þátt. Ekki að taka þátt í einhverju. Heldur bara að taka þátt. Þetta byrjaði í íþróttafréttum, að ég held, en hefur svo breiðst ört út. Molaskrifara finnst þetta orðalag ekki vera til bóta.

Gunnar sendi eftirfarandi (17.11.2012): ,,Á visir.is stendur í dag, laugardag: „Nota þurfti tækjabíl slökkviliðs til að klippa ökumann úr einni bifreiðinni.“ Aumingja maðurinn. Skyldu þeir hafa þurft að klippa hann í marga hluta? Þarna er auðvitað átt við að klippa hafi þurft bifreiðina eða að beita hafi þurft klippum til að losa manninn úr bifreiðinni. Klaufalega orðað.

Enn er útvarpsfólk að klæmast á Landsbjörg. Um daginn talaði Linda Blöndal á Rás 2 t.d. margoft um aðila hjá Landsbjörgu. Þetta er ekki rétt, fólkið er í Landsbjörg. Þarna er ekki um að ræða kvenmannsnafnið Björg, sem er Björgu í þágufalli, heldur kvenkynsnafnorð. Til samanburðar er t.d. ekki talað um að draga björgu í bú, heldur björg í bú. Þetta sést skýrt hjá Árnastofnun: „http://bin.arnastofnun.is/leit.php?q=Landsbj%C3%B6rg“
Molaskrifari þakkari Gunnari sendinguna.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>