Dómnefndin í þætti Ríkissjónvarpsins, Dans, dans, dans fær verðskuldaða ádrepu fyrir endalausar enskuslettur frá Orra Páli Ormarssyni í pistli í Morgunblaðinu (20.11.2012).Fyrirsögnin er líklega dæmigerð úr þættinum: Attitjúd í slómósjón. Orri Páll spyr, og ekki að ástæðulausu, hvort ekki hafi verið hægt að fá Íslendinga til dómgæslu í þættinum. Dómgreindarleysið hjá yfirstjórninni í Efstaleiti er smitandi. Það hefur náð til dómnefndarinnar í þættinum sem á að vera helsta skrautfjöður Ríkissjónvarpsins um þessar mundir, enda efni úr þættinum á dagskrá flesta daga vikunnar, með einum eða öðrum hætti eins og sagt er á Álftanesinu. Í liðinni viku var dagur íslenskrar tungu, en það var víst bara einn dagur hjá sumum.
Molalesandi benti á þessa frétt af mbl.is (19.11.2012): ,,Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt um innbrot í geymsluhúsnæði þar sem stolið hafði verið felgum á nýjum vetrardekkjum og allmiklu magni verkfæra. Þar á meðal voru borvél, topplyklasett og verkfæratöskur.” Hann bætir því við að hann hafi oft heyrt talað um dekk á felgum en aldrei felgur á dekkjum. Molaskrifar samsinnir því.
Hér var nýlega vikið að afleitu orðalagi í auglýsingu frá bílasala: Krúsaðu frítt í eitt ár. Estrid skrifar (21.11.2012): ,,Krúsaðu frítt í eitt ár.“ ,,Krúsaðu“ er hræðilegt, en ég skil ekki heldur af hverju má ekki nota gott íslenskt orð eins og,,ókeypis“. Það virðist bara alveg vera að hverfa, allt orðið ,,frítt“. Og verst í karlkyni ,,frír“! Svo mætti bæta við öðru góðu orði sem er að hverfa og það er ,,sælgæti“. Jafnvel fullorðið fólk bæði talar og skrifar,nammi“! Allt er þetta rétt, sem Estrid segir. Fyrirtæki auglýsa ,,nammibari” fullum fetum. Molaskrifari þakkar bréfið.
Tillaga var hafnað var sagt í tíufréttum Ríkisútvarps (20.11.2012). Tillaga var ekki hafnað. Tillögu var hafnað. Hversvegna þurfum við aftur og aftur að hlusta á ambögur af þessu tagi í fréttum Ríkisútvarpsins? Í sama fréttatíma var sagt að forsætisráðherra Egyptalands léki lykilhlutverk í friðarumleitunum milli Ísraels og Palestínu. Eðlilegra hefði verið að segja að forsætisráðherrann gegndi lykilhlutverki, ekki léki lykilhlutverk. Þess sér engin merki að málfarsráðunautur starfi við Ríkisútvarpið. Kannski hefur hann bara gefist upp.
Gaman var að hlýða á þá Kristin Sigmundsson og Björn Thoroddsen í morgunþætti Rásar eitt (22.11.2012). Frábærir listamenn báðir tveir og lítillátir sem er aðal góðra listamanna. Í þessum þáttum er nær ævinlega áhugavert efni.
Ég vill meina, sagði Andri Freyr umsjónarmaður í Virkum dögum Ríkisútvarpsins, Rásar tvö, (21.11.2012). Hann notaði þetta sama orðalag líka daginn áður. Hlustaði Molaskrifari þó ekki nema skamma stund í hvort skipti. Sé málfarsráðunautur starfandi við Ríkisútvarpið ætti hann að leiða manninn í allan sannleika um þetta tiltölulega einfalda mál. Það á ekki að gera minni kröfur um vandað málfar til þeirra sem koma fram á Rás tvö en þeirra sem koma fram í dagskrá á Rás eitt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar