«

»

Molar um málfar og miðla 1068

Fyrrum áhafnameðlimir Óðins sitja og spjalla í Óðinskaffi í Varðskipinu í gær, segir í fésbókarfærslu (22.11.2012) frá Víkinni , sjóminjasafni. Hér er átt við fyrrum skipverja. Stundum er talað um áhafnarmeðlimi, sem er hálfgert orðskrípi, en aldrei er hinsvegar talað um áhafnameðlimi.

… þá er lækkað í masterhitanum, sagði umsjónarmaður Virkra morgna á Rás tvö (22.11.2012). Hann átti víst við að dregið væri úr hitanum í útvarpshúsinu í Efstaleiti. Minni kröfur eru gerðar um vandað málfar í þessum þætti en í öðrum dagskrárliðum Ríkisútvarpsins.

Í frétt í Morgunblaðinu (22.11.2012) er sagt frá sóðalegri umgengni í skóginum á Stálpastöðum. Í fréttinni segir: … mikið rusl eftir sóðaskap. Molaskrifara finnst þetta dálítið einkennilega orðað. Kannski er það sérviska.

Í fréttum Stöðvar tvö (22.11.2012) var fjallað um skotvopn og reglur um skotvopn. http://www.syslumenn.is/utanrvk/leyfi_skirteini/skotvopn/ Þessi frétt var gott dæmi um sjálfhverfu og skjáfíkn sem stundum sést í sjónvarpsfréttum. Fréttin gekk öll út það að fréttamaður Stöðvar, tvö ung stúlka, var að skjóta aftur og aftur úr skammbyssu. Það skýrði ekki fréttina né gaf það henni aukið gildi. Ekkert nema sýndarmennska. Á heimasíðu sýslumanna segir um skotvopn: Enginn má fara með eða nota skotvopn nema hafa til þess fullnægjandi leyfi Nú er spurt: Var fréttamaðurinn með byssuleyfi? Eða var þetta lögbrot hjá Stöð tvö fyrir allra augum. Það skyldi þó ekki hafa verið.

Í frétt Stöðvar tvö (22.11.2012) um Eirar-hneykslið komst fréttamaður svo að orði um niðurstöðu starfshóps, að farsælast væri að víkja fulltrúaráðinu. Þarna hefði að mati Molaskrifari þurft að segja meira. Víkja fulltrúaráðinu frá eða tala um að skipa nýtt fulltrúaráð. Í frétt Ríkissjónvarpsins um sama mál var talað um að fá fulltrúaráðsmenn til að víkja sæti í merkingunni að segja af sér, víkja eða hætta störfum. Molaskrifari hefur alltaf skilið orðtakið að víkja sæti þannig að þá sé um tímabundna ráðstöfun að ræða. Víkja sæti til dæmis meðan tiltekið mál er tekið til umræðu á fundi. Dómari víkur sæti vegna tengsla við málsaðila. Kannski er þetta misskilningur hjá Molaskrifara.

Það er óheiðarlegt af Ríkissjónvarpinu að kynna dagskrárliði en geta þess ekki að um endursýnt efni sé að ræða. Þetta gerist aftur og aftur. Dag eftir dag. Við eigum ekki að líða það að þessi stofnun segi okkur ósatt eða fóðri okkur á hálfsannleika. Það þarf að fara í prentaða dagskrá í blöðunum til að sjá hvort um endursýnt efni er að ræða. Sumar norrænu stöðvarnar sýna í skjátexta úti í horni að um endursýningu sé að ræða. Konuröddin (Hér – hikk – á- rúv) sem kynnir dagskrána lætur þess ævinlega ógetið að um endursýnt efni sé að ræða. Það er greinilega hin opinbera stefna stjórnenda Ríkisútvarpsins að forðast að geta þess að verið sé að endursýna efni. Alveg eins og bannað er að nefna Ríkisútvarpið á nafn , – nú heitir það bara rúv samkvæmt ákvörðun Páls Magnússonar útvarpsstjóra.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Ragnar Böðvarsson skrifar:

    Mikið er hvað mikið er af ………
    Mér er hætt að standa á sama hve mikið er af fólki alls staðar, mikið af húsum, mikið af bílum o.s. frv. Það er svo mikið af öllu að margt fólk kemst hvergi fyrir, ekki heldur, mörg hús eða margir bílar. (Mkv. frá tryggum lesanda)

  2. Kristján skrifar:

    RÚV sjónvarpið er eins og athyglissjúka, sjálfumglaða barnið innan um norrænu stöðvarnar. Þær eru hlédrægari en hafa miklu meira upp á að bjóða þótt þær básúni það ekki með „hér á RÚV“ röddu, daginn út og inn. Kynning á heimildarmyndinni um Monty Python var líklega lengri í heildina en sjálf myndin. Sá þessa mynd fyrir löngu á einni af norrænu stöðvunum. Síendurteknar dagskrárkynningar um Dans dans dans og hallærislega þætti um gömlu þættina hans Hemma Gunn. Ömurlegt.

    Það má þó hrósa RÚV fyrir Downton Abbey. Hér á RÚV konan segir „dántunn“ en ekki „dántonn“. Hún mætti nú alveg lesa þetta með íslenskum hreim. Dæmi: Bolton (við segjum boltonn en ekki bóltunn). London (við segjum Lonndonn en ekki Londun.

    Í gær kynnti Stöðvar 2 röddin (Björgvin) einhvern þátt með orðunum: „Það fækkar óðfluga í hópnum“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>