«

»

Molar um málfar og miðla 1073

Dyggur lesandi Molanna skrifar eftirfarandi: ,,Ég verð að viðurkenna að ég kann ekki að meta hvernig ritari eftirfarandi texta notar orðið húsnæði. Hér er nefnilega ekki um að ræða klaufavillu eða misritun af neinu tagi, jafnvel ekki aulafyndni, heldur allt annan málskilning og aðra málbeitingu en ég hef vanist frá því ég fyrst fór að tala, sem er nokkuð langt síðan. Þetta er af Pressunni í dag, þriðjudag 27. nóvember 2012:
„Eftir að húsnæði fóru að hækka í verði hafa ný og ódýr húsnæði verið að ryðja sér til rúms víða erlendis. Er þessi tegund orðin nokkuð vinsæl lausn í Bandaríkjunum og á Englandi og aldrei að vita nema að þessi gerð húsa rati hingað til lands. Þessi vinsælu húsnæði eru nefnilega búin til úr gámum. Ekki útiloka það strax. Þessir gámar eru nefnilega ansi rúmgóðir, bjartir og í mörgum tilvikum nokkuð fallegir.
Kíkjum á nokkur húsnæði sem eru búin til með þessum nýstárlega og snjalla hætti.“
Eða getur verið að ritari textans geri ekki greinarmun á húsi og húsnæði? Ætli það sé þá vegna skilningsleysis eða hirðuleysis?” Rétt er það sem fram kemur í línunum hér að ofan að sá sem þetta skrifar er ófær um að greina á milli þess merkingarmunar sem er á orðunum hús og húsnæði. Æ algengara verður að hnjóta um þessa villu.

Dálitið óvenjuleg fréttamynd er í Fréttablaðinu (29.11.2012) á bls. 12. Þar er frétt þar sem minnt á Eyrarrósarverðlaunin og birt mynd af afhendingu verðlaunanna frá í fyrra. Á miðri myndinni er forsetafrúin sem heldur fyrir andlitið. Í baksýn eru verðlaunahafarnir. Ekki er sagt hverjir þeir eru. Aðeins birt mynd af frúnni þar sem hún heldur fyrir andlit sitt.

Lesandi sendi þessa ábendingu (29.11.2012). ,,Á MBL.is í dag las ég þessa frétt:
Víða á landinu er fyrir að fara hálku eða hálkublettum eins og undanfarna daga samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Hringvegurinn er þannig að miklu leyti auður en þar eru hins vegar hálkublettir á köflum”. Svolítið er skrítið að tala um að hálku sé fyrir að fara á þjóðvegum landsins !

Í umræðum á Alþingi talaði þingmaður (29.11.2012) talaði þingmaður um pólitískar væringjar. Hefði átt að vera pólitískar væringar, pólitískar deilur eða kíf. Væringjar voru forðum daga norrænir menn í þjónustu keisarans í Miklagarði svo vitnað sé íslensku orðabókina.

Hér var gagnrýnt að Ríkissjónvarpið hefði sýnt óskiljanleg , ótextuð viðtöl við afrískar konur sem töluðu ensku. Molaskrifari gafst upp á að horfa, en hefur nú verið bent á að textavél var biluð og viðtölin voru seinna sýnd með texta. Leiðréttist þetta hér með.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>