Fréttamenn flaska stundum á því að skýra ekki orð sem eru torskilin eða margræð og viðmælandi þeirrra notar, en líklegt er að margir áheyrendur skilji ekki. Þetta gerðist í fréttum Rúv sjónvarps (10.05.09.), þegar rætt var við nýjan forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Jóhanna sagði eitthvað á þessa leið: „Við þurfum væntanlega að leggja fram bandorm…..“ Ég er sannfærður um að ekki hafa allir áheyrendur áttað sig á við hvað hún átti. Bandormur er fast orðatiltæki sem notað er á Alþingi um eitt lagafrumvarp,sem felur í sér breytingar á mörgum lagabálkum. Oftast tengjast bandormar efnahagsráðstöfunum. Ég tek ekki undir það sem segir í íslenskri orðabók að þetta sé slanguryrði.
Vefvísr skrifar (09.05.09.) : „Tónleikum Amy Winehouse aflýst vegna rigningu.“ Beygingalistin bregst ekki á þeim bænum fremur en fyrri daginn.
K.K. umsjónarmaður tónlistarþátttar í morgunútvarpi á Rás eitt, tók þannig til orða (11.05.09.) að hann hefði „séð“ tiltekinn tónlistarmann spila í Gautaborg (minnir mig) . Mér finnst þetta vera eins og ég segði að ég hafi horft á Pavarotti syngja.
Í Morgunblaðinu (10.05.09.) eru tvær auglýsingar á ensku. Látum það nú vera. Í annarri er verðlaunum heitið fyrir að finna eða skila kennispjaldi úr flugvél ,sem fórst við Reykjavík 1963. Í þeirri auglýsingu eru fimm villur í sex línum og nefni ég þá ekki orðalag sem kann að orka tvímælis. Hin auglýsingin er frá Háskólanum í Reykjavík og fleiri aðilum um ráðstefnu síðar í þessum mánuði. Hún er langtum lengri. Sú auglýsing er hinsvegar villulaus, að ég best fæ séð og á góðri ensku
EIns og íslenskan á færeyskan í vök að verjast gegn ásókn enskunnar. Ekki get ég hrósað Atlantic Airways, flugfélaginu þeirrra fyrir auglýsinguna sem nú er á heimasíðu félagsins. Þar stendur: „ Far til Reykjavíkar. Býurin er hot. Prísurin er cool.“ Enskan sækir á hjá Færeyingum.
10 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Hlédís skrifar:
16/05/2009 at 07:15 (UTC 1)
Að mínu mati gefur slangur málinu lit og á því rétt á sér – í hófi! „Bandormur“ er skemmtilegt fagorð úr þinginu og fínt að nota það, svo lengi sem ekki er ætlast til að allir utan þings skilji það.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
16/05/2009 at 06:19 (UTC 1)
Hjartanlega sammála,Hlédís. Orðið átti að útskýra í viðtalinu. Það má kalla þetta þingslangur ,ef vill, en ég kann ekkert annað orð yfir lagafrumvarp þessarar gerðar en orðið bandormur. Fréttamaður átti að biðja forsætisráðherra að skýra orðið eða skýra það sjálfur. Það var það sem ég var að gagnrýna að ekki skyldi gert.
Hlédís skrifar:
15/05/2009 at 23:25 (UTC 1)
Eiður! Orðið 'bandormur' er þingslangur sem ekki á að bjóða almenningi óútskýrt í viðtali, sama hvort þú tekur undir það sjónarmið eða ekki.
Magnús Axelsson skrifar:
13/05/2009 at 13:36 (UTC 1)
Tónleikar eru sjónrænn gjörningur ekki síður en … uh .. hlustrænn. Það er því fullkomlega eðlilegt að „sjá“ einhvern spila á tónleikum (að mínu viti), og mér finnst ekkert að því að hafa séð Pavarotti syngja á tónleikum. Ég hef hinsvegar aldrei „horft“ á hljómsveit syngja og leika, þótt ég hafi vissulega barið hana augum.
Bergsteinn Sigurðsson skrifar:
13/05/2009 at 13:07 (UTC 1)
Þeir sem telja í tungutak hag- og viðskiptafræðinga til sérstakrar eftirbreytni eru á villigötum. Það er frekar ljóður á ráði blaðamanna en hitt hversu gjarnir þeir eru á að lepja upp sérhæft orðfæri hagfræðinga; úr þeim ranni koma jú hugtök á borð við „neikvæðan hagvöxt“ – orðskrípi sem misbýður bæði máltilfinningu og rökhugsun en hefur engu að síður náð mikilli útbreiðslu.
Jón Óskarsson skrifar:
12/05/2009 at 22:43 (UTC 1)
Varðandi þetta að sjá tónlistarmenn þá er þetta svona hjá yngri kynslóðum. Ungt fólk talar um hvort þessi eða hinn „hafi séð nýja lagið“ með hinum og þessum flytjandanum.
Og svo líka að fólk er í þann veginn að hætt að heyra tónlist heldur horfir það á hana. Myndbönd eru gerð fyrir lögin og þau síðan sýnd í sjjónvarpi og gefin út á mynddiskum. Sá vinnur sem á best myndbandið.
Eða sú sem er í fallegasta kjólnum.
Það er komið að því að kenna hlustun á tónlist.
Eiður skrifar:
12/05/2009 at 19:40 (UTC 1)
Máltilfinning manna er á ýmsan veg, Vestanvindur. Ég sá snillinginn Gunnar Eyjólfsson leika skipstjórann í leikriti Jökuls Hart í bak“ í Þjóðleikhúsinu. Svo heyrði ég 95 ára gamlan píanósnilling Frank Glazer spila í Salnum í Kópavogi. Svona er nú mín máltilfinning.
Björgvin Þórisson skrifar:
12/05/2009 at 17:03 (UTC 1)
Sæll, Eiður.
Mér finnst fullkomlega eðlilegt að segjast hafa „séð“ einhvern spila á tónleikum. Þegar maður fer á tónleika sér maður fólk spila og syngja auk þess að heyra í því, en ef maður hlustar á einhvern getur maður sem best verið heima í eldhúsi að hlusta á útvarpið.
Eiður skrifar:
12/05/2009 at 16:05 (UTC 1)
Sælir,
Það skiptir réttilega miklu máli að muna eftir Jóa á hjólinu og Siggu á Hringbrautinni. Þau skötuhjú vilja stundum gleymast þegar hámenntaðir fjölmiðlafræðingar“ eru að segja okkur fréttir.
Tek undir allt um prósentustig sem þú segir Björn. Best er auðvitað að segja að vextir hafi lækkað úr 10 í 9% . Það skilja allir.
Haraldur Bjarnason skrifar:
12/05/2009 at 10:20 (UTC 1)
Þetta með bandorminn minnir mig á setningu sem oft var notuð á fréttastofu útvarps í tíð Kára Jónassonar fréttastjóra. Hún var eitthvað á þessa leið: „Augnablik! heldurðu að hún Sigga, sem situr á greiðslusloppnum sínum á Hringbrautinni að hlusta á fréttirnar, skilji þetta?“ – Þarna var auðvitað verið að hvetja fréttamenn til að segja fréttir á góðu, einföldu og skiljanlegu máli.