«

»

Molar um málfar LXV

„Þingmenn læra góða siði“, segir í fyrirsögn (13.05.09.) í Vefmogga. Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að hún fjallar að meginefni um það að nú hefur verið ákveðið að þingmenn þurfi ekki lengur að vera með hálsbindi á þingfundum. Persónulega finnst mér gott að halda í gamlar hefðir. Er líklega íhaldsmaður í eðli mínu. Mér finnst það ekkert hafa með góða siði að gera að menn hætti að vera með hálsbindi á þingfundum. Þingmenn eiga að sýna sínum virðulega vinnustað þá virðingu sem hann verðskuldar. Menn mega kalla þessa skoðun mína íhaldsssemi, eða hvað sem þeir vilja. Ég hef aldrei talið nokkrum manni það til gildis að vera ekki snyrtilega klæddur. Víst skal játað að hægt er að vera snyrtilega klæddur án hálsbindis. Ég óttast hinsvegar að þetta sé upphaf þess, að menn verði til dæmis í stuttermabolum í þingsal eins og sjá má í danska þinginu. Það finnst mér lágkúra í klæðaburði og óvirðing við þingið. Svo fær fréttastofa RÚV skömm í hattinn fyrir að nota orðið „þingkarlar“.

Margir fyrrrum fréttamenn láta sér annt um móðurmálið og senda Molahöfundi ábendingar. Bjarni Sigtryggsson , sem lengi starfaði á Alþýðublaðinu og seinna hjá RÚV, sendi eftirfarandi: „Þessa dagana er tíðrætt í fréttum um hungurverkföll. Ekki veit ég
hvaða verk þeir fella niður, sem þannig mótmæla, en á mínum
fréttamannsárum var það kallað mótmælasvelti ef menn hættu að nærast
til að leggja áherslu á kröfur sínar.“ Undir þetta tek ég.

Eignarfall orðsins drykkur er drykkjar , ekki „drykks“ eins og fréttamaður Stöðvar tvö sagði í fréttum (11.05.09.), – „gosdrykksins“, sagði hann nánar tiltekið. Fréttin var um að gosdrykkurinn Fanta Lemon eða Lemon Fanta yrði nú fáanlegur að nýju vegna þess að tveir aðdáendur drykkjarins hefðu háð harða baráttu fyrir því að byrjað yrði að framleiða hann að nýju. Þetta var ekki frétt. Þetta var auglýsing í fréttatíma. Þótt mörg hver séum við kannski vitlaus, hvernig í ósköpunum er ætlast til að við trúum því að vara sé sett á markað að nýju eftir nokkurra ára hlé vegna þess að tveir menn biðja stórfyrirtækið Vífilfell (sem ætti að heita Vífilsfell) um að hefja framleiðsluna að nýju ?

Við  erum vitlaus ,en ekki jafn vitlaus   og  Stöð tvö og  gosfyrirtækið virðast halda. Þetta var auglýsing,- ekki frétt.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. doddý skrifar:

    þá erum við sammála um það. ég kem þessu til átröskunarteymis lsh. kv d

  2. Eiður skrifar:

     Átfall er  hið  ágætasta orð. Nú er bara að breiða út  boðskapinn!

  3. doddý skrifar:

    .. geta anorexiusjúklingar orðið átfallssjúklingar? hljómar ekkert illa. kv d

  4. Kristinn R. Ólafsson skrifar:

    Að fara í átfall…

    Sælt veri fólkið!

    Ég hygg að á ruv.is hafi menn þó aðallega notað orðið mótmælasvelti en ekki hungurverkfall í fréttum um Alsíringinn sem nú sveltir sig. En ég er sammála Bjarna Sigtryggssyni um að hungurverkfall er ótækt orð. Jafnmikil aulaþýðing úr ensku og t.a.m. ferðamannaiðnaður. Mér líkar ekki heldur orðskrípið greiðsluverkfall. Einu sinni bjó undirritaður klambrari reyndar til orðið átfall“ og hafði til hliðsjónar verkfall eða jafnvel orðfall… (sé í mínum kokkabókum að ég hef leyft mér þá tilgerð að fyrst í pistli árið 1990 og hef þá líka notað orðið átfallsmenn… ). Ekki veit ég hvort átfallið nær nokkurntíma málfestu úr þessu en það má reyna. Það er a.m.k. laglegra og liðugra en mótmælasvelti. Mér þykir t.d. þessi setning nokkuð gagnsæ: Hún fór í átfall til að krefjast þess að…

    Kveðjur og þakkir fyrir málfarsspjallið,

    Kristinn R. Ólafsson í Madríd

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>