Þegar farið var yfir efni dagblaðanna í morgunútvarpi Rásar eitt (14..05.09.) ,þar sem málfar er yfirleitt til fyrirmyndar, varð umsjónarmanni á að rugla saman orðunum eftirmál og eftirmála. Að þessu hefur verið vikið hér áður. Umsjónarmaður talaði um eftirmála jarðskjálftanna á Suðurlandi í fyrra. Eftirmáli er niðurlagsorð, eða stuttur kafli með þökkum eða skýringum í bókarlok. Eftirmál eru eftirköst eða afleiðingar. Hann átti við eftirmál jarðskjálftanna ekki eftirmála.
Fyrrum fjölmiðlamaður benti höfundi á eftirfarandi á Vefvísi (13.05.09.): „… á einni mynda hans, sést Tina liggja ofan sjávar, þar sem leiðbeinandi reynir að koma henni til bjargar.“ Honum fannst hér undarlega til orða tekið og er ég honum sammála um það.
Beygingalistin bregst ekki á Vefdv (14.05.09) : „Lögreglumönnum í Perú sem halda framhjá mökum sínum geta átt von á því að vera sagt upp störfum. “ Snilldin alltaf söm við sig á þeim bænum.
Að næturlagi (14.05.09.) hlustaði höfundur á endurtekinn þáttinn Færibandið á Rás tvö Rúv. Þar var rætt við nýjan formann VR. Mörg var þar slettan, — hjá báðum. Umsjónarmaður talaði til dæmis um „headphones“ – heyrnartól er prýðilegt orð. Verra var þegar sá hinn sami fór að tala um háar fjárhæðir og talaði um „astrólógískar upphæðir“. Ef menn sletta , þá verða þeir að vita hvað orðin þýða sem þeir sletta. „Astrology“ er það sem kallað er stjörnuspeki,(sem sumir telja reyndar hjáfræði eða gervivísindi) en „astronomy“ er vísindagreinin stjörnufræði. Þegar talað er háar tölur eða eitthvað í þeim dúr er stundum notað orðið „stjarnfræðilegt,“ með öðrum orðum himinhátt. Þarna vissi umsjónarmaður ekki um hvað hann var að tala.
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eygló skrifar:
15/05/2009 at 16:38 (UTC 1)
Alveg sammála þér Ben.Ax. Þar að auki hefur kunnátta í stafsetningu og málnotkun, ekkert með manngildi að gera.
Veit um nokkra sem er skapandi og vita mikið um sinn málaflokk. Þeir hafa þó það vit í kollinum að láta aðra fara yfir málfarið.
Þótt einhver sé góður tungumálamaður er hann ekki þar með sagt líklegur til að skrifa skapandi og fræðandi texta. Vegna þessa vinnum við saman.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:
15/05/2009 at 14:51 (UTC 1)
Því miður er prófarkalestur aflagður að mestu á prentmiðlum og þess vegna rata svona villur á síður blaðanna. Góður fréttamaður þarf ekki endilega að vera góður í stafsetningu.
Eygló skrifar:
15/05/2009 at 00:14 (UTC 1)
Bubbi er nú „slæmur“ (hef samt gaman af þættinum hans), en viðmælandinn var ,eins og þú segir, ekki skárri. Mér var farið að líða illa. Bubbi notar oft orð/mál (ýmist ensku eða íslensku) sem hann þekkir ekki merkingu á. Man ekkert í augnablikinu en beit of fast á jaxlinn.
Jón Óskarsson skrifar:
14/05/2009 at 23:22 (UTC 1)
Það ber allt að sama brunni.
Fjölmiðlamenn virðast hugsa á ensku áður en þeir koma út úr sér vondum þýðingum.
Og á þetta verðum við að hlusta.