«

»

Molar um málfar og miðla 1309

Í fréttatíma Stöðvar tvö á sunnudagskvöld sagði fréttamaður ,- kjörstaðir opnuðu. . Konan lét þess hinsvegar ógetið hvað kjörstaðir hefðu opnað.

Ingólfur Bjarni var með þetta á hreinu í Ríkissjónvarpinu: Kjörstöðum var lokað. Undarlegt hvað þetta einfalda atriði þvælist fyrir mörgum fréttamönnum, – rétt er að geta þess að nú orðið er hrein undanteking að heyra rangt farið með þetta í Ríkisútvarpi/sjónvarpi. Þetta er búið að nefna svona tíu sinnum á þessum vettvangi.

 

Í fréttum Stöðvar tvö var sagt í neðanmálstexta í fréttum hryðjuverkin í Nairobi, – ástandið var ekki yfirstaðið. Þetta er fremur óhönduglega orðað. Betra hefði verið til dæmis að segja til dæmis: Þessu var ekki lokið. Í sama fréttatíma var sagt í frétt um þýsku kosningarnar, – sækjast eftir samstarfi með Jafnaðarmannaflokknum. Eðlilega hefði verið að tala um samstarf við Jafnaðarmannaflokkinn.

 

Sumt er skrítið í dagskrá Ríkisútvarpsins og á sér engar augljósar skýringar. Til dæmis tímasetning fréttatímanna. Vakt er á þessari fjölmennustu fréttastofu landsins allan sólar hringinn. Hversvegna eru ekki fréttir á klukkutíma fresti eins og í flestum erlendum, alvöru stöðvum allan sólarhringinn? Hversvegna eru ekki fréttir þó að minnsta kosti á sama tíma alla daga? Það gilda aðrar reglur um laugardaga og sunnudaga en virka daga. Hversvegna er gert hlé á fréttaflutningi klukkan tvö að nóttu og byrjað aftur klukkan fimm? Heldur fréttastjórinn að þá sé öll þjóðin í fasta svefni? Svo er reyndar alls ekki. Þúsundir eru að störfum og margir hlusta á útvarp. Kannski er skýringin bara sú að þetta hafi alltaf verið svona.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (23.09.2013) af hryðjuverkunum í Nairobi var sagt: Enn halda 10-15 liðsmenn sómölsku hryðjuverkasamtakanna al-Sjabab nokkrum almennum borgurum sem gíslum í Westgate-verslunarmiðstöðinni í Naíróbí. Þetta er auðvitað ekki rangt en oft er talað um að halda fólki í gíslingu. Í sama fréttatíma var sagt: Starfsfólk fataverksmiðja í Bangladess er meðal lægst launuðu í fataiðnaði í heiminum. Betra hefði til dæmis verið: Starfsfólk í fataverksmiðjum í Bangladess hefur einna lægst laun allra þeirra í heiminum er slík störf stunda.

 

Þótt fréttakvikmyndir segi oft mikla sögu og hafi sterk áhrif, þá voru ljósmyndir ljósmyndara New York Times , Tylers Hicks, í fréttum CNBC í gærkveldi (23.09.2013) úr verslanamiðstöðinni í Nairobi eiginlega áhrifameiri en nokkur kvikmynd.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sæll, Þorgils Hlynur.Hvort tveggja , skrítið og skrýtið er rétt skv. Stafsetningarorðabókinni (2006)

  2. Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:

    Komdu sæll Eiður.

    Þú segir að sumt sé „skrítið“ í dagskrá Ríkisútvarpsins. Þar er ég sammála þér, sérstaklega hvað sjónvarpsdagskrána áhrærir. En er ekki „skrýtið“ skrifað með ý — komið af skreytni eða skraut? Hvort tveggja hefur reyndar sést, en ég held að ý sé réttara, með ofangreindum rökum. Enn og aftur þakka ég fyrir góða pistla og baráttu þína fyrir vönduðu málfari. Kær kveðja, með vinsemd og virðingu, Þorgils Hlynur Þorbergsson.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>