«

»

Molar um málfar og miðla 1312

Molalesandi skrifar, þakkar Molaskrifin (25.09.2013) og segir: ,,Hér sendi ég þér afrit af bréfi sem skrifað er af yfirmanni skóla í Reykjavík og skólastjóri Vesturbæjarskóla sendir nokkur hundruð forráðamönnum barna í skólanum.  Það hljótum við að geta kallað fjölmiðlun.

Í fyrstu efnisgrein væri rétt að rita „Að gefnu tilefni“ en ekki „Af gefnu tilefni“, „undirritaðan“ en ekki „undirritaðann“, „færi“ en ekki „fari“, „ásökunum“ en ekki „meintum ásökunum“ og „að gerð yrði“ en ekki „að gerð verði“.

Mér brást kjarkur til að lesa lengra. Ég hef oft áður fengið vonda texta frá skólafólki, marga verri en þetta. Hér er hinsvegar sú sérstaða að textinn fer um hendur tveggja æðstu embættismanna kerfisins, manna sem ættu að hlífa en ekki höggva.  Margar spurningar vakna við lesturinn:

Kunna mennirnir ekki að skrifa réttari og betri texta? Ef svo er, hvers vegna læra þeir það ekki? Ef þeir vilja ekki læra það sjálfir, sjá þeir þá nokkurn tilgang í að halda gangandi skólakerfi sem hefur einmitt að meginmarkmiði að kenna íslensku?  Velta þeir því þá nokkuð fyrir sér hvort fólkið sem þeir ráða til að kenna íslensku sé sæmilega að sér í málinu? Er þarna komin skýring á öllum ambögunum og villunum sem eru í bréfum frá skólum og margir foreldrar kannast allt of vel við?

Áleitnasta spurningin er svo hvers vegna menn gera það að starfi sínu að stjórna kerfi sem á að kenna börnum það sem menn ekki kunna sjálfir.  Hvarflar að nokkrum sem aldrei hittir á naglann að gerast smiður? “

Þetta er bréfið,sem hér um rætt:
Til foreldra barna í Vesturbæjarskóla
,,Af gefnu tilefni vil ég upplýsa ykkur um að 14. sept. sl. óskaði Hildur Hafstað skólastjóri Vesturbæjarskóla, skriflega eftir því við undirritaðann að óháð rannsókn fari fram á meintum ásökunum um einelti kennara í garð nemanda í Vesturbæjarskóla, jafnframt því að gerð verði úttekt á vinnulagi skólans í málinu.
Í bréfinu er sérstaklega óskað eftir að skoðuð verði sú fullyrðing sem sett hefur verið fram af hálfu foreldris við skólann að skólastjóri Vesturbæjarskóla hafi ekki aðhafst neitt í málinu og ekki hafi verið tekið á málinu í eitt og hálft ár.
Á grundvelli bréfs skólastjóra Vestubæjarskóla og alvarlegra staðhæfinga sem settar hafa verið fram í málinu hefur undirritaður ákveðið að fá óháða aðila til að rannsaka málið. Vonast er til að rannsókninni ljúki um miðjan nóvember og á meðan rannsókn stendur mun umræddur kennari verða í leyfi frá störfum.
Ragnar Þorsteinsson
sviðsstjóri,
skóla- og frístundasviðs”

Molaskrifari þakkar sendinguna og lætur lesendum eftir að dæma og draga ályktanir af því sem hér að ofan stendur. Leyfir sér reyndað að segja í lokin: Þetta er hreint með ólíkindum.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þetta er hárrétt, Egill. Það er mikið að í skólakerfinu. Einhvern tíma á þingárum mínum fór menntamálanefnd efri deildar í heimsókn í Menntaskólann við Sund, sennilega um 1980 . Við komum inn í bekk þar sem enskukennari hafði skrifað stíl á töflu. Tvær stafsetningarvillur stungu strax í augu. Mér varð hugsað til þess að aldrei hefði þetta gerst hjá þeim fjórum öndvegiskennurum sem kenndu mér ensku í MR, – það voru Bodil Sahn, Ottó Jónsson, Guðni Guðmundsson og Gunnar Norland. Frábærir kennarar , hver á sína vísu.

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Svona bréf eru ekkert einsdæmi. Á mínu heimili voru tveir unglingar í Háteigsskóla, Það kom fyrir að þeir kæmu með bréf heim varðandi skólastarfið og ekki gátu bréfritarar komið þeim skammlaust frá sér. Það sem mér þótti verra var að sjá yfirferð kennara á verkefnum í íslensku og t.d í ensku.. Þar var oft mikið að. Ég veit ekki hvort um er að kenna vaxandi sjóndepru kennara eða vanþekkingu. Það er eitthvað mikið að í skólakerfinu Eiður. Yngri unglingurinn, í áttunda bekk, kom eitt sinn með yfirfarinn stíl í ensku heim. Þar var strikað með rauðu undir fjórar stafsetninga og málfræðivillur og átta var gefið í einkunn. Ég gat bætt við á augabragði átta rauðum strikum í viðbót þar sem um var að ræða hreinar stafsetninga og málfræðivillur. Ég sé mikið eftir því að hafa ekki farið til skólastjóra eftir þessa hörmung og tekið með mér nokkur dæmi úr heimavinnu unglinganna máli mínu til stuðnings. Einnig vantar mikið upp á að kennarar leiðrétti nemendur ef þeir fara vitlaust með sögulegar eða aðrar staðreyndir ( það er varla gert ). Þú minnist stundum á fréttabörn Eiður, ekki að ástæðulausu. Ástand í grunnskólum og vanþekking kennara er með ólíkindum og hef ég haldið töluvert eftir af skólaverkefnum því til sönnunar.
    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>