Molaskrifara var dálítið brugðið er hann las fyrirsögn í Morgunblaðinu á fimmtudag (24.0.2013) um landeyðingu við Kötlutanga. Fimm dálka fyrirsögn: 100 metrar eyðast á ári. Svo létti Molaskrifara er hann las fréttina, en þar stendur strax í þriðju línu: ,,… að Kötlutangi hefur að meðaltali minnkað um 100 metra á áratug, síðustu 60-70 ár (leturbr. mín). Það sér á að prófarkalestur , og kannski einnig yfirlestur vaktstjóra, fréttastjóra er úr sögunni, eða hefur hér brugðist illilega.
Gunnar benti á eftirfarandi á fréttavefnum visir.is (24.10.2013): http://visir.is/jatadi-a-youtube-ad-hafa-ollid-mannskaedu-bilslysi/article/2013131029465
Hann spyr og ekki að ástæðulausu:
,,Hvað skyldi það vera, að olla bílslysi??
Hver skyldi hafa valdið þessum ósköpum??”
Já, sögnin að valda veldur mörgum fréttaskrifaranum vandræðum.
Af vef Ríkisútvarpsins (23.10.2013) Fyrirsögn: Nýi Vopnafjarðarvegurinn vígður. Hver vígði veginn? Hvernig fór víglslan fram. Þetta hefði ekki þótt boðlegt orðalag á fréttastofunni hér á árum áður. http://www.ruv.is/frett/nyi-vopnafjardarvegurinn-vigdur . Fréttastjórarnir fyrr á árum , Jón Magnússon, Margrét Indriðadóttir og Emil Björnsson hefðu verið fljót að breyta þessu orðalagi. Vegurinn var formlega tekinn í notkun eins og réttilega er sagt í sjálfri fréttinni. Það fór engin vígsla fram.
Óskiljanleg fyrirsögn í Fréttablaðinu (24.10.2013): Nýr turn á Höfðatorgi gerir út um siglingamerki á Stýrimannaskólanum. Þetta er í besta falli merkingarleysa. Bull. Átt er við að nýr risaturn á Höfðatorgi við hlið ófreskjunnar, sem þar er fyrir, geri það að verkum að sæfarendur geti ekki lengur notað vitann í turni Sjómannaskólans sem leiðsögumerki þegar siglt er til hafnar í Reykjavík.
Af mbl.is á fimmtudag (24.10.2013): Vinningsröðin var röð sem eigandi hafði dreymt fyrir um 20 árum. Nú skilaði sá draumur sér skemmtilega mikið til baka. Eigandi hafði ekki dreymt. Eiganda hafði dreymt vinningsröðina.
Það er engin villa eða ambaga í seinni setningunni, en hún er skemmtilega mikið skrítin!
Vífilsstaðaspítali opnar að nýju, segir í fyrirsögn í Garðapóstinum (24.10.2013). Þess er ekki getið hvað það var sem spítalinn opnaði. Spítalinn opnaði hvorki eitt né neitt. Hann var opnaður að nýju.
Á Rás tvö í morgun (25.10.2013) fór bæjarstjórinn í Garðabæ með rangt mál þegar hann gerði mikið úr slysahættu á núverandi Álftanesi. Vitnaði í tölur Vegagerðar. Stólaði á að þáttarstjórnendur væru ekki með tölurnar tiltækar. Hann komst upp með það. Tölur Vegagerðarinnar sýna nefnilega svart á hvítu allt annað en bæjarstjórinn var að segja og gefa í skyn. Og það vita margir. Það þarf talsverðan kjark til að snúa staðreyndum á hvolf eins og bæjarstjórinn gerði. En bæjarstjórnin í Garðabæ lætur staðreyndir ekkert standa í vegi fyrir sér þegar spillt er ómetanlegum náttúruverðmætum i hraunperlunni á hlaðinu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar