«

»

Molar um málfar og miðla 1334

Forsetahjónin í fárviðri í Fjarðabyggð, segir í fyrirsögn á DV (23.10.2013). Hvílíkt rugl. Þau lentu í venjulegu íslensku haustveðri fyrir austan. Hvergi var frá því greint í fréttum að fárviðri hefði geisað í Fjarðabyggð. Orð missa merkingu, þegar þau eru misnotuð með þessum hætti.

 

Enn einu sinni urðu fréttirnar hornreka í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi(23.10.2013) . Ótrúlegt hvað fréttastjórinn lætur íþróttadeildina bjóða sér og sínu fólki og síðast en ekki síst okkur sem heima sitjum. Fréttatíminn var styttur vegna íþróttaleiks. Eftir fjölda áhorfenda að dæma var næsta lítill áhugi fyrir þessum leik.,,Ágætasta mæting”, sagði þulur samt! Myndirnar töluðu skýrt. Hversvegna var verið að troða þessum leik inn á flest, ef ekki öll, íslensk heimili? Ekki var sagt frá styttingu fréttatímans eða beðist afsökunar , svo Molaskrifari heyrði. Sagt var að við fengjum nánari veðurfréttir ,,á eftir”. Í seinni fréttum, þremur klukkustundum seinna. Teygjanlegt hugtak ,,á eftir “ eins og ,,strax” hjá Framsókn. Auðvelt hefði verið að hafa fréttatímann lengri og sleppa tilgangslausu tuði og viðtölum Eddu Sifjar Pálsdóttur áður en leikurinn hófst og svo var sama tuðið eftir að leiknum lauk.

 

,,Sérfræðingur” sem fjallaði um ofangreindan handboltaleik í Ríkissjónvarpinu talaði um að sýna þolinmæði varnarlega! Það var og. – Hversvegna ekki: Sýna þolinmæði í vörninni, í varnarleiknum?

 

Nú skulum við heyra þjóðsöng landanna, sagði þulur í íþróttahúsinu á Hlíðarenda á undan handboltaleiknum í gærkveldi (23.10.2013) og átti þar við þjóðsöngva Finnlands og Íslands.

 

Þáttur um fataverslun á Laugavegi í fréttatíma Stöðvar tvö (23.10.2013) var ekki frétt, heldur auglýsing.

 

Sem spúðu á hann lýsi eins og enginn væri morgundagurinn, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (23.10.2013) um fýla sem spúðu lýsi á fálka. Hallærislega óíslenskt orðalag. Hrátt úr ensku.

 

Af pressan.is (15.09.2013): Dacia er rúmenskt merki sem er í eigu Renault/Nissan samstæðunnar og framleiðir jafnt fólksbíla sem jeppa. 

Merkið framleiðir ekki neitt. Darcia bílarnir eru framleiddir í Rúmeníu. Verksmiðjan er í eigu …..

 

Bergur benti á þessa fyrirsögn á visir.is (23.10.2014): Tíu einstaklingar ákærðir fyrir vændiskaup í héraðsdómi og segir: ,,Ég vissi ekki að hægt væri að kaupa vændi í héraðsdómi”, sagði Bergur.
http://visir.is/tiu-einstaklingar-akaerdir-fyrir-vaendiskaup-i-heradsdomi/article/2013131029593

Klaufaleg fyrirsögn.

 

Úr auglýsingu á fésbók (23.10.2013): Nú verður hægt að versla Stacker 4 brennslutöflurnar í netverslun á … Þeir eru ótrúlega margir sem skilja ekki eða vilja ekki skilja muninni á sögnunum að versla og að kaupa.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

9 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Valur skrifar:

    En þá spyr ég þig, verandi svo annt um íslenska tungu, hvers vegna notar þú ekki bara góða og gilda íslenska skammstöfun eða íslenskt orðatak ? Þú ert nú ófeimin við að gagnrýna aðra fyrir að sletta á öðrum tungumálum og eða nota enska orðaröð.

    En það er sem sagt í lagi að víkja frá móðurmálinu ef það er latnesk skammstöfun ?

  2. Eiður skrifar:

    Þú ert duglegur að snúa út úr. Ég sagði alþjóðleg skammstöfun. Ég sagði aldrei að latína væri alþjóðlegt tungumál. Það er smátt sem hundstungan ekki finnur, segir gamalt máltæki. Mikill sannleikur í því.

  3. Valur skrifar:

    Hvernig er það Eiðær, er latína nú orðið alþjóðlegt tungumál ?

  4. Eiður skrifar:

    Já, Valær. Það er nú meira hvað ég slæ um mig með þessari alþjóðlegu og algengu skammstöfun, æ, æ. Slæmt er það.

  5. Valur skrifar:

    Sæll Eiður

    Ég hélt að hér töluðu menn íslensku, en þú slærð um þig með styttingu á latneska orðtakinu „et cetera“. Er íslenska orðtakið „og svo framvegis“ ekki nógu gott fyrir molaskrifara?

    Annars er ég sammála því að ekki eigi að beygja vefslóðir, enda gengur það ekki upp. Þú ferð inná pressan.is og lest á pressan.is en ekki pressunni.is. En það er annað að tala um að hafa lesið eithvað inná pressunni, og sleppa .is endingunni.

  6. Eiður skrifar:

    Sæll Sveinn. Já ég hef valið þá leið að beygja ekki heiti vefslóða. Það er auðvitað umdeilanlegt og orkar tvímælis að ýmissa mati. Það mætti fara í kringum þetta +í lengra máli , – á fréttavefnum pressan.is, á pressunni, á fréttavef Vísis etc. etc. K kv Eiður

  7. Sveinn Haraldsson skrifar:

    Sæll Eiður,

    velti einu fyrir mér og það er beyging vefslóða. Ég tek eftir að þú skrifar: Af pressan.is. Sjálfum finnst mér eðlilegra að beygja vefslóðir og segja: Af pressunni.is. En þá auðvitað er slóðin kolröng.

    Má áætla að skoðun þín sé sú að beygja ekki vefslóðir?

    mbk,
    Sveinn

  8. Eiður skrifar:

    Að sjálfsögðu, Kristján. Þetta átti ekkert erindi í aðaldagskrána. Íþróttadeildin virðist ráða öllu sem hún vill ráða í Efstaleitinu. Og það er ansi margt.

  9. Kristján skrifar:

    Það víkur allt fyrir handboltanum á RÚV. Furðuleg þráhyggja. Þennan leik hefði átt að sýna á aukarásinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>