Kristján skrifaði í athugasemdadálk Molanna (22.10.2013):,,Nýr íþróttaþáttur RÚV er kl.18:45 á virkum dögum og sá ég þann fyrsta í gær. Umsjónarmaður kynnti efni þáttarins, sem var landsliðið í knattspyrnu og körfubolti kvenna. Eftir u.þ.b. sjö mínútur lauk þættinum skyndilega vegna tæknivandamála, að sögn umsjónarmanns. Fyrst hélt ég að Luca Kostic vildi ekki tjá sig um möguleika Íslands gegn Króatíu. Engin afsökun. Engin körfubolti…..bara búið.
Við tóku auglýsingar og hvimleiðar dagskrárkynningar fram að fréttum. RÚV kann sér ekki hóf í dagskrárkynningum. Þessu er troðið á milli allra dagskrárliða. p.s. Áfram Hraunavinir !”
Molaskrifari þakkar hvatningu og tekur undir með Kristjáni. Dagskrárkynningar í Ríkissjónvarpsins eru löngu orðnar gjörsamlega óþolandi, – alltaf sama uppskrúfaða og tilgerðarlega konuröddin. Ef eitthvað ber útaf í útsendingu fallast mönnum hendur. Engar útskýringar. Engar afsakanir. Löngu óboðlegt.
Egill skrifar í sama dálk (22.10.2013): ,,Sæll Eiður,
Furðuleg fyrirsögn varðandi þig á dv.is í dag. Þar stendur „Eiður: Tökum hann, tökum hann“. Það fyrsta sem mér datt í hug þegar að ég sá þetta var er Eiður nú að hvetja til ofbeldis ? Í greininni kemur svo í ljós að þetta var haft eftir lögreglunni, ekki þér. Hér veit fréttaskrifari greinilega ekki hvað tvípunktur merki en með notkun hans hér þýðir þetta í raun að þú sér að hvetja til ofbeldis. Þetta er gott dæmi um villandi fyrirsögn í æsifréttastíl.
Kv, Egill”. Rétt ábending, Egill.
Rafn skrifaði (22.10.2013): ,,Ég stend á rétti mínum og beygi mig fyrir valdinu“
Ofanrituð orð sagði mótmælandi í Garðahrauni og þau hafa víða ratað. Hér eru þau tekin úr fyrirsögn á dv.is. Hins vegar get ég ekki fengið þau til að ganga upp, því ég sé ekki hvernig það að beygja sig fyrir valdinu getur jafngilt því að standa á rétti sínum, eða verið merki um slíka afstöðu.
Ef hins vegar hefði verið breytt einu orði og samtengingin „en“ verið sett í stað samtengingarinnar „og“, þá hefði setningin verið skýr og rökrétt, því vissulega geta menn þurft að beygja sig fyrir valdi, þótt þeir standi á rétti sínum.
Þetta orðalag kom mér á óvart, taldi viðkomandi það vel máli farinn, að svona klaufamistök ættu ekki að henda hann. Einnig hefi ég fulla trú á málstað hans. Ég trúði raunar ekki, að rétt væri eftir haft, fyrr en ég sá og heyrði sjónvarpsupptöku af atburðinum.” Þetta er rétt ábending , Rafn. Í hita leiksins gerist ýmislegt og menn ná kannski ekki að haga orðum sínum eins og þeir helst vildu, – eftir á að hyggja!
Bergur benti á frétt á dv.is þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er kallaður Sigurður! Enginn yfirlestur, engin prófarkalestur. Ekkert gæðaeftirlit. Sjá http://imgur.com/LZqeb7O
Meira um nöfn. Á vef Ríkisútvarpsins er Reynir Ingibjartsson formaður Hraunavina ítrekað kallaður Reynir Ingibertsson. Þetta var sett inn um morguninn og hafði ekki verið leiðrétt eftir hádegið. Enginn les. Ekkert gæðaeftirlit.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
23/10/2013 at 16:06 (UTC 0)
Sæll Guðjón Ingi, allt rétt segir þú segir. Sá Molavinur sem notar nafnið Molavin hefur verið búsettur í Rússlandi. Nafnið er í rússneskum anda! K kv ESG
Guðjón Ingi Guðjónsson skrifar:
23/10/2013 at 15:46 (UTC 0)
Sæll, Eiður. Þú skrifar gjarnan „Molavin skrifaði:“ eða eitthvað slíkt. Mér var eitt sinn sagt að „vin“ væri fornt ávarpsfall í orðasambandinu „kæri vin“ í upphafi bréfs eða í samtali við kæran vin. Nefnifallið væri þá eftir sem áður „vinur“. Svipað er líkast til „Heimski son, hættu þessu væli“ eins og segir í texta lagsins Auður Sif með gleðisveitarinni Ham og eflaust mætti nefna betri dæmi. Samkvæmt þessu væri ekki rétt að segja „Molavin skrifaði“, enda er þar ekki verið að ávarpa viðkomandi vin. Pæling. Kv., Guðjón Ingi.
Þorvaldur S skrifar:
23/10/2013 at 10:56 (UTC 0)
Vitaskuld vitnaði Ómar þarna í Staðarhóls-Pál sem sagði eitthvað á þesa leið: Ég lýt hátigninni, en stend á réttinum.“
Hjá Palla vantaði ekki þetta umrædda „en“.