«

»

Molar um málfar og miðla 1332

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (20.10.2013) var talað um að kjósa með tillögu. Rétt hefði verið að tala um að greiða atkvæði með tillögu. Áður hefur verið vikið að þessu orðalagi hér í Molum.

 

Það bregst ekki fréttamat Moggans, þegar pólitíkin er annarsvegar. Í mánudagsblaðinu (21.10.2013) voru tvær eindálka fréttir á fremur lítt áberandi stað á bls. 6. Fyrirsagnirnar voru: Stjórnarflokkarnir tapa báðir fylgi og Besti flokkurinn stærstur í Reykjavík. Lesendur Moggans geta treyst því að fréttamatið í Hádegismóum er óbrigðult, þegar pólitíkin á í hlut.

 

Úr frétt á mbl.is (21.10.2013): Þeir keyrðu bara hliðina úr húsinu og við það fór ofnakerfi hússins í sundur. Ofnakerfið fór í sundur! Rofnuðu ekki vatnsleiðslur ?

 

Prýðilegur þáttur þeirra Friðþjófs Helgasonar og Haraldar Bjarnasonar, Vafrað um Vesturland, á ÍNN á mánudagskvöld (21.10.2013). Þetta sýnir Ríkissjónvarpinu að hægt er að gera ágæta þætti með litlum tilkostnaði. Sama má raunar segja um það sem Ingvi Hrafn hefur að undanförnu sýnt okkur frá Blönduósi. Ef maður lítur á Hrafnaþingið sem einskonar útibú frá Spaugstofunni þá sitt af hverju sem er ágætlega bitastætt á ÍNN.

Rétt er að nefna til viðbótar fróðlegt viðtal Ingva Hrafns í gærkveldi (21.10.2013) við Einar Benediktsson fyrrverandi sendiherra um evrópumál. Einar er hafsjór af fróðleik um þau mál í ljósi langrar reynslu og hreint ótrúlega minnugur. Enginn þekkir þetta málasvið betur en hann Hljóðgæðin á því sem Ingvi Hrafn sagði voru með lakara móti.

 

Af fréttavef Ríkisútvarpsins í gær (21.10.2013): Hátt í 40 handtökur voru gerðar Gálgahrauni í dag, en dæmi eru um að lögregla hafi handtekið sama fólkið þrisvar eða fjórum sinnum og fært það út af svæðinu. Handtökur voru gerðar !  Það var og. Aukaatriði og pennaglöp að þarna vantar í . En þetta sýnir og sannar enn einu sinni að enginn les yfir áður en fréttir er settar á vefinn. Líklega þarf að ráða fleira fólk á þessa fjölmennustu fréttastofu landsins. Gæðaeftirlitið þar á bæ er ekki í lagi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

4 athugasemdir

1 ping

  1. Eiður skrifar:

    Rétt, Egill. Kærar þakkir.

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Kristján.

  3. Egill Þorfinnson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Furðuleg fyrirsögn varðandi þig á dv.is í dag. Þar stendur „Eiður: Tökum hann, tökum hann“. Það fyrsta sem mér datt í hug þegar að ég sá þetta var er Eiður nú að hvetja til ofbeldis ? Í greininni kemur svo í ljós að þetta var haft eftir lögreglunni, ekki þér. Hér veit fréttaskrifari greinilega ekki hvað tvípunktur merki en með notkun hans hér þýðir þetta í raun að þú sér að hvetja til ofbeldis. Þetta er gott dæmi um villandi fyrirsögn í æsifréttastíl.
    Kv, Egill

  4. Kristján skrifar:

    Nýr íþróttaþáttur RÚV er kl.18:45 á virkum dögum og sá ég þann fyrsta í gær. Umsjónaramaður kynnti efni þáttarins, sem var landsliðið í knattspyrnu og körfubolti kvenna. Eftir u.þ.b. sjö mínútur lauk þættinum skyndilega vegna tæknivandamála, að sögn umsjónarmanns. Fyrst hélt ég að Luca Kostic vildi ekki tjá sig um möguleika Íslands gegn Króatíu. Engin afsökun. Engin körfubolti…..bara búið.

    Við tóku auglýsingar og hvimleiðar dagskrárkynningar fram að fréttum. RÚV kann sér ekki hóf í dagskrárkynningum. Þessu er troðið á milli allra dagskrárliða.

    p.s. Áfram Hraunavinir !

  1. Vantar fleira fólk skrifar:

    […] Eiður Guðnason um vinnubrögð á fréttavef Ríkisútvarpsins. […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>