«

»

Ekki góð byrjun hjá Gísla Marteini

Ekki þótti mér það góð byrjun  á  sunnudagsþætti  Gísla Marteins Baldurssonar í Ríkissjónvarpinu að hefja  fyrsta þáttinn á því að gera lítið úr málstað náttúrverndarfólks í umræðunni um vegagerð í Garðahrauni/Gálgahrauni.

Byrjað var á því að ræða  um það sem kalla mætti keisarans skegg, hvort þetta héti Gálgahraun eða Garðahraun. Það er íslenskur  siður að drepa umræðu á dreif  með því að ræða aukaatriði. Ljóst er að nöfnin Gálgahraun og Garðahraun hafa verið notuð jöfnum höndum  sjá  t.d. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/10/27/galgahraun_eda_gardahraun/

Nú hefur raunar þriðja nafnið Klettahraun bæst í umræðuna

Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins taldi öll leyfi í lagi. Það hefur farið framhjá honum að framkvæmdaleyfið er löngu fallið úr gildi og umhverfismatið er senn tólf ára gamalt og er  mat á annarri framkvæmd en þeirri sem nú er hafin.

Sagt var að lögreglan hefði verið í fullum rétti. Vissulega gat  hún vísað fólki burt af því sem kallað var vinnusvæði og  vissulega gat hún fjarlægt fólk af svæðinu. En og aftur  en , –  var nauðsynlegt að beita eldra fólk fantatökum, handtaka fólk og handjárna, heyra það til Reykjavíkur og láta suma  dúsa  4-5 klukkutíma í klefa á lögreglustöðinni?  Fólkið hafði það eitt til saka unnið að vera á röngum stað á röngum tíma og færast undan því að fara þaðan. Þetta finnst ritstjóra Fréttablaðsins greinilega vera í fínu lagi. Það finnst mér hinsvegar ekki.

Þarna fór lögreglan offari. En góðum Sjálfstæðismönnum  finnst það  sjálfsagt vera í góðu lagi, – gagnvart ,,þessu fólki”, fólkinu sem kunnur öldrunarlæknir og mikill  stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins hefur á   fésbókinni kallað ,,athyglissjúka gamlingja”!

Ritstjóri Fréttablaðsins  fær hinsvegar plús  og mikið  hrós fyrir  fimm aura brandarann um þann sem þetta skrifar. Gott ef einhver  getur haft gaman að Eiði Svanbergi Guðnasyni! Það er alveg meinalaust af minni hálfu.

Þótt þetta byrjaði  svona hjá Gísla Marteini er of snemmt að kveða upp einhvern  dóm yfir þessum þáttum hans.   Kannski á Eyjólfur eftir að hressast. Vonandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>