Fréttastjóri Stöðvar tvö lætti að leiða Maríu Lilju Þrastardóttur, fréttamann, í allan sannleika um muninn á sögnunum að kaupa og versla. Karlmönnum er ekki leyft að versla lyfið, sagði hún í fréttum á föstudagskvöld (25.10.20134) Hún átti við að karlmönnum væri ekki leyft að kaupa lyfið.
Og hér er samskonar ambaga af dv.is (26.10.2013): Nemendurnir höfðu verslað pillurnar af kínverskri netverslun og seldu svo á uppsprengdu verði. Ekki bara versla sér eins og stundum heyrist heldur bætist nú við að versla af !!!Skyldi þetta vera kennt í grunnskólum Eða er þetta bara smitandi faraldur meðal fréttaskrifara?
Hvað skyldi Hraðfréttarugl Ríkissjónvarpsins kosta áhorfendur? Sennilega verður fólki frekar sagt upp störfum um mánaðamótin en að Hraðfréttaruglið verði lagt niður í sparnaðarskyni. Fróðlegt væri að vita hvað þetta kostar. Ríkissjónvarpið svarar reyndar aldrei spurningum. Það byggist á þeirri túlkun útvarpsstjóra að stofnunin og starfsemi hennar komi almenningi ekkert við.
Það var ýmislegt sem gera mátti athugasemdir við í hádegisfréttum Bylgjunnar á laugardag (26.10.2013). Hér er setning úr frétt sem birt var á visir.is, en þarna eru sömu fréttirnar gjarnan birtar á víxl: Lögreglan á Suðurnesjum hóf þegar rannsókn málsins og fékk fljótt spurnir af nokkrum ungmennum sem væru að skjóta úr skotvopni á Sandgerðisheiðinni og voru fjórir piltar yfirheyrðir. Að skjóta úr skotvopni. Það var og !
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á laugardag (26.10.2013) var talað um ótrúlegt gjafmildi landsmanna. Gjafmildi er kvenkynsnafnorð. Þessvegna hefði átt að tala um ótrúlega gjafmildi landsmanna. Hún, gjafmildin. Metnaðarleysið ræður um of ríkjum þegar kemur að málfari í fréttum Ríkisútvarps. Það ætti að vera svo sjálfsagt, að ekki ætti að þurfa að nefna það, að einhver með sæmilega tilfinningu fyrir móðurmálinu lesi fréttir yfir, áður en þær eru lesnar fyrir okkur. Metnaðarleysi og kæruleysi.
Margrét skrifaði (26.10.2013):,,Það fer alveg afskaplega í mig að bókmenntaverk fái að hafa svona málfræðilega rangan titil, Við Jóhanna. Ég skil bara ekki hvernig þetta komst í gegn um prófarkalestur og bókaforlagið svona.
Ólafur Ragnar sagði þetta eftirminnilega í nýársávarpi sínu árið 2012. Í áramótaskaupinu sama ár segir ,,hann“ við Dorrit og ég, svona til að undirstrika hvað þetta er kolrangt. – Sjá: http://ruv.is/frett/thradi-ad-segja-%E2%80%9Evid-johanna-forum-i-bio%E2%80%9C
Ekki heyrði Molaskrifari betur en að við upphaf þáttarins Í vikulokin á Rás eitt á laugardaginn 26. október, að Hallgrímur Thorsteinsson stjórnandi segði okkur að í dag væri 24. október og kynnti svo Halldór Halldórsson, sem framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þetta þarf kannski ekki að vera svo nákvæmt, eða hvað? Jú, reyndar. Molaskrifari vissi ekki betur en Halldór væri formaður sambandsins. En hversvegna er þessi svo oft annars ágæti þáttur gerður að sérstökum kynningarþætti fyrir þá sem keppa um oddvitasætið á lista Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningum á næsta ári? Undarleg ráðstöfun.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Jon Grétarsson skrifar:
29/10/2013 at 00:34 (UTC 0)
Pistillinn þinn
Það var og!
Eiður skrifar:
28/10/2013 at 17:25 (UTC 0)
Í fréttum á ekki að tala um löggu. Rétt ábending um gjaldtöku við Geysi, Ólafur Þórir.
Ólafur Þórir Auðunsson skrifar:
28/10/2013 at 16:13 (UTC 0)
Góðan dag.Nú er það barnalegt mál á Rás 2 sem fer í taugar mínar.Síðasta fimmtudag sagði Bogi örugglega 10 sinnum „Lögga“ og Löggan“ og reyndar aðrir líka.
Svo finnst mér fáránlegt að lesa núna á Rúv „Rukkað inn við Geysi“.Ég vil frekar skrifa að að gjald verði tekið.Varla mun „rukkari“ ganga um við Geysi.
Eiður skrifar:
28/10/2013 at 11:30 (UTC 0)
Hlynur Þór og Þorvaldur S. Nú verður Margrét að svara. Ég ákvað að birta bréf hennar , þótt ég sæi ekkert rangt við orðalagið.
Þorvaldur S skrifar:
28/10/2013 at 10:50 (UTC 0)
Hvað er rangt við að segja: „Við Jóhanna…“? Þetta er ævagamalt orðalag og styðst við aldalanga hefð!
Hlynur Þór Magnússon skrifar:
28/10/2013 at 10:10 (UTC 0)
Titillinn Við Jóhanna er ekki málfræðilega rangur á nokkurn hátt. Þetta er gott og gilt íslenskt orðalag.