«

»

Molar um málfar og miðla 1338

Molavin skrifaði (27.10.2013): ,,Steingrímsstöð skilar 122 ,,gígavatnsstundum“ segir í helgarútgáfu Fréttablaðsins. Blaðamennska er nú orðið trúlega eina starfsstéttin í landinu þar sem hvorki eru gerðar kröfur um þekkingu né menntun til starfsins. Traust til stéttarinnar fer þverrandi enda lúta afurðir hennar engu gæðaeftirliti. Ekki einu sinni prófarkalestri.” Orð að sönnu. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Á laugardagskvöld (26.10.2013) voru fréttir bæði frá Færeyjum og Grænlandi í fréttum Ríkissjónvarps. Takk fyrir það. Mætti svo sannarlega vera oftar að við fengjum fréttir af þessum góðu grönnum í austri og vestri.

 

Gunnar benti á eftirfarandi (27.10.2013): „Vísindafólk munu því snúa sér að öðru …“ var sagt í fréttum Stöðvar 2 á laugardagskvöldið. Fólkið „mun“ að sjálfsögðu snúa sér að öðru. – Molaskrifari þakkar Gunnari ábendinga.

 

Úr fréttum Stöðvar tvö (26.10.2013): … beinist rannsóknin þó aðalllega að eigendum staðarins og meintrar vændisstarfsemi. Fréttamaður hefði betur sagt: … beinis rannsóknin þó aðallega að eigendum staðarins og meintri vændisstarfsemi. Og: Lögregla staðfesti í samtalið við fréttastofu að aðgerð hefði átt sér stað í morgun. Aðgerð átti sér stað!

 

Á sunnudagsmorgni (27.10.2013) hlustaði Molaskrifari á tvo fína þætti á Rás eitt: Tónlist í straujárni í umsjá Unu Margrétar Jónsdóttur um fyrstu íslensku konurnar sem fengust við tónsmíðar og síðan Spjallið þeirra Ævars Kjartanssonar og Gísla Sigurðssonar við Sverri Jakobsson prófessor við Háskóla Íslands. Vandað efni og fróðlegt. Margt er gott og vel gert í dagskrá Rásar eitt.

 

Í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (28.10.2013) segir: Óveðursástand á Suður Englandi. Var ástand? Var ekki bara óveður? Í fréttinni segir: Veðurfræðingar búast við að úrkoman frá því í gærkvöld verði 2-4 sentimetrar. Dálítið undarlegt orðalag..

 

Í nýja þættinum sínum í Ríkissjónvarpinu verður Gísli Marteinn Baldursson að gæta þess að haga efnistökum þannig, að þátturinn verði ekki kallaður Sunnudagsmorgunn Sjálfstæðisflokksins. Síðasti þáttur var dálítið í námunda við slíka nafngift. Annað til íhugunar: Hversvegna eru Reykjavíkurmyndir notaðar sem rammi og baksvið fyrir þáttinn? Er þetta ekki sjónvarp allra landsmanna? Alls landsins? Ekki bara höfuðborgarsvæðisins, eða hvað? Sjóndeildarhringurinn verður að vera víðari, ná upp fyrir Elliðaár og suður fyrir Straum. – Svo er óþarfi hjá umsjónarmanni að apa það eftir Telmu Tómasson á Stöð að skipa fólki að fara ekki langt, þegar skotið er inn auglýsingum eða öðru efni.  Fremur hvimleitt.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>