Gunnar benti á frétt á mbl. is þar sem fyrirsögnin er: Varar við hvössum vindstengjum. Fréttin hefst svona: Viðurstofan varar við hvössum vindstengjum á sunnanverðum Austfjöðrum og undir Vatnajökli síðdegis á morgun. Fréttin var skrifuð kl. 22:55 27.10.2013. Daginn eftir klukkan 17:15 var hún óbreytt, óleiðrétt. Um klukkan 10:00 á þriðjudegi var búið að breyta Viðurstofan í Veðurstofan. Vindstengjum er ekki innsláttarvilla bæði í fyrirsögn og texta. Aðrar villur fengu að halda sér. Þeir sem stjórna mbl.is lesa greinilega mbl. is. ekki mjög vandlega. Upphaflega voru fjórar villur í fyrstu setningunni. Fyrr má nú vera ! Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/10/27/varar_vid_hvossum_vindstengjum/
Molaskrifari þakkar Gunnari ábendinguna.
Molalesandi skrifaði: ,,Hann var hvass á Englandi í gær, mannskaða veður. Í hádegisfréttum Bylgjunnar (28.10) var sagt að vindstyrkurinn hafi farið upp í 160 km á klukkustund. Fréttamaður hefði að skaðlausu mátt yfirfæra vindstyrkinn í þá mælieiningu sem notuð er um vindstyrk hérlendis, eins og fréttamaður RÚV gerði 20 mínútum síðar. Þá var vindhraðinn sagður í metrum á sekúndu.”. Réttmæt athugasemd. Kærar þakkir.
Í fréttum Stöðvar tvö (28.10.2013) talaði fréttaþulur um að myndband hefði verið til nefnt til tveggja verðlauna. Við tölum ekki um tvö verðlaun, heldur tvenn verðlaun. Í sama fréttatíma var talað um að spá fyrir um. Molaskrifari kann ekki að meta það orðalag. Hefur raunar verið nefnt hér áður.
Snilldarfyrirsögn á mbl.is (29.10.2013) Fékk skilnað frá mögulega látnum eiginmanni. Sjá http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/10/29/ekki_heyrt_i_eiginmanni_sinum_i_37_ar/
Nýr framhaldsmyndaflokkur Ríkissjónvarpsins, Fólkið í blokkinni, þar sem ekkert virðist hafa verið til sparað, slær ekki í gegn. Ekki hjá neinum sem Molaskrifari hefur rætt við. Þetta er eiginlega barnaefni og ekki með því besta á því sviði. Það er dapurlagt þegar ekki tekst betur til en raun ber hér vitni. Það virðist liggja langtum betur fyrir Stöð tvö að gera innlendu efni skil í myndaflokkum en sjónvarpi allra landsmanna,
Rafn skrifaði (29.10.2013): ,,Sæll Eiður
Oft furða ég mig á þýðingum starfsfólks fjölmiðla. Hins vegar þykir mér full langt gengið í fréttunum hér á eftir, sem vefblað Mogga birti með rúmlega tveggja tíma millibili um mannslát í Danmörku vegna óveðurs. Í annarri fréttinni fékk hin látni þakstein í höfuðið, en í hinni heilan húsgafl. Í annarri fréttinni virðist hann hafa verið ferðamaður á ferð í Gilleleje, en í hinni ungur kósovskur flóttamaður búsettur þar í bæ.” Takk fyrir ábendinguna, Rafn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar