Af mbl.is (29.10.2013): Fjórir bílar sem voru stöðvaðir við eftirlit lögreglu á Seyðisfirði í dag eftir að Norræna lagði í höfn voru brotlegir. Norræna lagði ekki í höfn. Norræna kom í höfn. Norræna lagðist að bryggju. Bílar voru ekki brotlegir. Ökumenn voru brotlegir. Fréttabarn á vaktinni á þriðjudagskvöldi.
Molaskrifari fylgdist í gærkveldi með beinni útsendingu frá verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í óperuhúsinu í Osló. Bæði norska og sænska sjónvarpið voru með beina útsendingu frá athöfninni. Ekki íslenska Ríkissjónvarpið. Enda var þetta ekki fótboltaleikur.
Það var engu til sparað, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps um verðlaunaafhendinguna í sjónvarpsfréttum (30.10.2013). Rétt hefði verið að segja: Það var ekkert til sparað. Hinsvegar er sagt: Það var engu til kostað. Ótrúlegt að reyndir fréttamenn skuli ekki hafa þetta á hreinu. Fleiri hnutu um þessi orð fréttamannsins. Fyrrum blaðamaður skrifaði Molum:,, Í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins nú í kvöld var sagt frá verðlaunahátíð Norðurlandaráðs. Þar sagði fréttamaður, kona, að ,,engu hefði verið til sparað“ svo hátíðin tækist vel. Hér er um að ræða rugling milli orðalagsins,,engu til kostað“ og ,,ekkert til sparað“. Gamlir blaðamenn eins og við vitum, að þetta var eitt af því sem nýgræðingar voru strax vandir af – kennt að orða þetta rétt. Nú, þegar svo er komið eftir 10 ára grunnskólanám, að fjórði hver drengur og tíunda hver stúlka geta ekki lesið íslensku sér til skilnings, eru svona málfarsblóm stöðugt að verða algengari. Er enginn á fréttamiðlunum, sem kennt getur þeim þolanlega íslensku sem ekki hafa getað lært lesa sér til skilnings eftir 10 ára nám? Hefur skólakerfið ekki lengur burði til þess að útskrifa prófarkalesara – eða hafa öflugir fjölmiðlar eins og Ríkisútvarpið ekki lengur áhuga á að ráða slíkt fólk til þess að kenna fréttamönnum það, sem grunnskólakerfið hefur ekki getað kennt þeim – eða þeir ekki getað lært?” Molaskrifari þakkar línurnar og bætir við: Það er engin von til að ástandið batni þegar vilja og metnað til gera vel skortir.
Fyrrum fréttamaður benti á eftirfarandi (30.10.2013): Konan var 31 árs gömul þegar hún féll úr 28 metra hæð og lést, en hún var starfsmaður Cirque Du Soleil sirkussins. Einkennilegt orðalag á mbl.is í dag. Það er eins og menn skrifi áður en þeir hugsa.- Það gerist því miður ærið oft!
Magnús skrifaði (30.10.2013): ,,Æði oft má heyra og sjá röng föll nafnorða í fjölmiðlum, t.d. ,,vegna breytingu“ eða ,,vegna skipulagningu“.
Í þessari frétt um ákvörðun Jóns Gnarrs um að bjóða sig ekki fram í kosningunum í vor má heyra fréttamanninn segja þetta: ,,… en ákvörðuninni hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu“. Makalaust.”
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/10/30/jon_i_sjonvarpsefni_um_politik/.
Já, satt segirðu, Magnús. Hreint makalaust. Þakka ábendinguna.
Úr Viðskiptablaðinu (30.10.2013): Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt lögfræðinginn Robert Barber sem næsti sendiherra hér á landi. Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefur tilnefnt lögfræðinginnRobert Barber sem næsta sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
31/10/2013 at 21:37 (UTC 0)
Nú skil ég ekki alveg, Þórbergur!
Þórbergur Torfason skrifar:
31/10/2013 at 18:17 (UTC 0)
Sæll Eiður.
Mig minnir að segja megi að „í engu hafi verið tila sparað“ (í engu var til sparað) varðandi fyrstu málsgrein.
Hins vegar hnaut ég um fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins 31.10. þar sem segir,
Mannbjörg varð „úr“ alelda flutningaskipi.
Er ekki rétt að segja þarna að mannbjörg varð „úr“ alelda flutningaskipi.
Þetta er frekar leiðinleg málfarsvenja þykir mér.