Myndirnar sem fylgja þessari færslu eru ekki teknar í útlöndum. Þær voru teknar í Kringlunni í Reykjavík þriðjudaginn 26. maí. Þar erum við ávörpuð á ensku þegar við komum þangað í verslunarerindum eða til að fá okkur kaffisopa.
Spaugileg fyrirsögn um alvarlegt atvik var á forsíðu Fréttablaðsins (26.05.09.) Fyrirsögnin er svona: Bankaræningi í hjartastoppi:Sparkaði sér leið inn í banka. Þarna hefur sannarllega ekki verið neinn aukvisi á ferð.
Það gerist æ oftar að málglöggir menn víkja sér að mér á förnum vegi og benda á ýmislegt sem betur mætti fara í málfari í fjölmiðlum. Þannig var athygli mín nýlega vakin á þeim ósið fjölmiðla að segja, samkvæmt utanríkisráðuneytinu, samkvæmt Landsbankanum og svo framvegis. Ég verð að viðurkenna að þetta hafði farið framhjá mér. En ekki leið á löngu þar til ég heyrði í Ríkisútvarpinu samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Ég tek undir að þetta er ekki boðlegt orðalag. Í fréttum RÚV sjónvarps (27.05.09.) var sagt: Samkvæmt lögreglunni. Þetta er greinilega smitandi pest.
Nú er það svart. ….hafa gert alvarlegar athugasemdir við aðbúnað hrossa á tveimur bæjum á Mýrum í Borgarnesi. Vefvísir 27.05.09. Mýrarnar allt í einu komnar niður í Borgarnes !!! Ekki er ég viss um að Mýramenn fallist á þetta. Eitthvað er landafræðikunnáttunni áfátt hjá þeim Vísismönnum.
Í fréttum Stöðvar tvö (27.05.09.) um taumlaust óhóf í veisluhöldum bankanna forðum daga þar sem menn hámuðu í sig gullflögur, var sagt: … var þá engu til sparað. Þetta stríðir gegn minni máltilfinningu. Mér finnst eðlilegt að segja: var þá ekkert til sparað, til að kæta sérstaka vildarvini bankastjóranna, – en hinsvegar, það var engu til kostað, – þegar almennir viðskiptavinir bankanna áttu í hlut.
Í fréttum annarrar hvorrar sjónvarpsstöðvarinnar (26.05.09.) var sagt:… í þessum vörubíl … og samtímis sýnd mynd af þeirri gerð bíla,sem við köllum venjulega sendibíl eða sendiferðabíl en heitir varebil á norsku og líklega dönsku líka. Vörubíll á íslensku hefur til þessa verið pallbíl ætlaður til vöruflutninga. En allt er þetta að breytast. Nú eru bílarnir sem á ensku eru kallaðir pick-up trucks eða pickups ( í Suður Afríku heita slíkir bílar : backie) kallaðir pallbílar ,oft litlir pallbílar, en hinir gömlu vörubílar, pallbílar , eru nánast horfnir. Í stað þeirra eru komnir malar- eða efnisflutningabílar oft átján hjóla með festivagni, eða tólf hjóla með tveimur framöxlum. Svona breytast hlutirnir.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:
29/05/2009 at 17:59 (UTC 0)
Sæll. Íslenska og stafsetning er tvennt ólíkt. Leiti og leyti skiptir ekki máli en um það er þó einföld regla. Á næsta leiti er með einföldu en öll önnur leyti með tvöföldu. Þegar ég flutti suður kunni ég ekki útlensku og þegar keyrt var fram hjá HBiering las ég herbergi og mér datt ekki annað í hug en að Liverpool væri íslenska. Í alþjóðlegu samfélagi er spurning um hvað á að ganga langt í hreintungustefnunni. Mér finnst að við eigum með öllum mögulegum ráðum að halda í móðurmálið.
TJ skrifar:
29/05/2009 at 13:06 (UTC 0)
Ég heyrði í útvarpi um daginn að það hefði orðið „aukning á fjölgun“… Hvorki man ég á hvaða stöð þetta var né um hvað var rætt, enda aukaatriði.
Á fréttavef (líklega Vefvísi) var nýlega lítil grein um tillögu að breyttum hámarkshraða á Bústaðavegi og víðar þar í kring, m.a. á Háaleitisbraut. Ítrekað stóð í fréttinni Háaleytisbraut, þótt í tillögunni sem birt var í heild sinni fyrir neðan stæði Háaleitisbraut.
Það virðist nokkuð algengt nú orðið að krakkar segi: „Það var hrint/sagt mér.“ Þetta þykir mér hljóma illa en geng samt ekki svo langt að segja þetta rangt mál. Kannski telst þetta einfaldlega til eðlilegrar þróunar tungumálsins, enda notað í nýlegum og vinsælum dægurlagatexta. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.
Að lokum er hér orðaleikur sem Davíð Þór Jónsson (að mig minnir) kom með í þættinum „Orð skulu standa“ (sem illu heilli er víst ekki lengur á dagskrá, a.m.k. í bili): „Hvernig fallbeygir maður nafnorðið gangur?“ Svarið er:
Hér er gangur
Umgangur
Frágangur
Tilgangur
🙂
Uxaskalli skrifar:
29/05/2009 at 08:54 (UTC 0)
Manni skilst að þetta stafi allt af því að tungumálið sé að þróast. Ekkert sé til, sem heitir „rétt mál“. Hvað um það, nú segir hver snillingurinn á fætur öðrum að hann sé að „leita af einhverju“. Það er reyndar ekki eina dæmið um að fólk rugli saman hvenær á að nota „að“ og hvenær „af“. Annað, sem ég veiti athygli er, að fólk skilur ekki muninn á „leyti“ og „leiti“. Það síðara er samkvæmt minni máltilfinningu að finna í landslagi, „það ber leiti á milli“ en hinsvegar er að „að flestu leyti“ eðlilegt að nota „y“ í svona tilvikum. Nóg um það að sinni.