Tvö dæmi úr fréttum (24.05.09.) Stöðvar tvö: Tveir Íslendingar til viðbótar eru nú grunaðir um að hafa smitast af svínainnflúensu. Þetta orðalag ber vott um skort á máltilfinningu. Það er eins og mennirnir séu grunaðir um refsivert athæfi. Eðlilegra hefði verið að segja: Grunur leikur á að tveir Íslendingar til viðbótar hafi smitast … Þannig var tekið til orða í sjónvarpsfréttum RÚV, en í yfirliti um helstu fréttir þar var sagt , að grunur væri uppi um að fleiri hefðu smitast. Það orðalag finnst mér heldur ekki gott. Hitt atriðið í fréttum Stöðvar tvö var þetta orðalag: Þau mál sem eftir eru verður lokið með öðrum hætti. Enn eitt dæmið um flaustursleg vinnubrögð.
Skrifað var á Vefvísi (24.05.09.) : Hann vill lítið gefa upp um næstu skref sem hann segir geta skaðað rannsóknina. Það var og , – næstu skref geta skaðað rannsóknina. Snjallir menn, Vísismenn. Og hér kemur meira frá þeim sömu (25.05.09.): … en félagsmenn Fisfélagsins telja 160 meðlimi. Eðilegra og einfaldara hefði verið að að segja: Í Fisfélaginu eru 160 manns. Í sömu frétt er ítrekað talað um faratæki þegar átt er við farartæki
Ég vildi óska þess þjóðkirkjunni hefði borið gæfa til að veita Sigrúnu Pálínu uppreisn æru … þannig tekur Kolbrún Baldursdóttir bloggari (24.05.09.) til orða á síðu sinni. Þetta er röng notkun orðatiltækisins sem maður sér býsna oft. Einhver ber gæfu til… EKKI einhverjum beri gæfa eða gæfu til. Sami bloggari kann heldur ekki muninn á orðunum eftirmáli og eftirmál, sem oftlega hefur verið vikið að hér í Molum.
7 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Kristján P. Gudmundsson skrifar:
28/05/2009 at 18:19 (UTC 0)
Ágæti Eiður, við verðum svo sannarlega að vona, að þeir, sem eiga inneign fyrir skeytum þínum o.fl. aðilja, lesi þessar athugasemdir og reyni í framhaldinu að bæta úr eða sýni einhverja viðleitni í þá veru. Ég vil þakka þér ágætt frumkvæði í málfarsrýni gagnvart fjölmiðlum. Ekki veitir af og svo hafa margir aðrir gott af ap lesa pistla þína.
Með kveðju, KPG.
Eiður skrifar:
28/05/2009 at 17:29 (UTC 0)
Kærar þakkir fyrir uppörvun og góðar undirtektir. Ben.Ax. , ekki getum við Ómar svarað þessu , – þú verður að spyrja þá sem réðu okkur á sínum tíma !!!
Bjarni Kjartansson skrifar:
28/05/2009 at 13:45 (UTC 0)
Þakka enn spakviturleg ummæli og föðurlegar umvandanir um málfar.
Var að hlusta á morgunfréttir í gærmorgun. Man ekki í svipin hvort það var Bylgjan eða rás2.
Þar fjallaði fréttamaður um stöðu einhers fyrirtækis sem á í greiðsluerfiðleikum. Hún sagði að framtíð þess væri í höndum ,,skuldunauta“ þess.
Svo getur auðvitað verið, að slík staða gæti komið til ef allir skuldunautar kæmu sér saman um, að greiða ekki skuldir sínar. Ef marka mátti af framhaldi fréttarinnar, var ekki um að villast, að það voru auðvitað Lánadrottnar fyrirtækisins, sem slík völd höfðu.
Þetta er dæmi um, að menn ættu að forðast of hátíðlegt mál, sem þeir ekki ráða við eða er þeim á hraðbergi.
Flyt enn þakkir.
Miðbæjaríhaldið
Þóra Guðmundsdóttir skrifar:
27/05/2009 at 22:33 (UTC 0)
„Mennirnir eru Íslenskir að þjóðerni……. annar var sólbrúnn á hörund“. Bylgjufréttir í gær af Seltjarnarnesráninu. Ég hlusta oft á fréttir á Bylgjunni yfir daginn og það er hending ef heill fréttatími er í lagi.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:
27/05/2009 at 21:09 (UTC 0)
Þið Ómar eruð báðir gamlir fréttamenn. Hvort voruð þið ráðnir á sínum tíma til ríkisútvarpsins sökum þess að þið voruð góðir í íslensku eða hins að þið voruð fljótir að hlaupa?
Ómar Ragnarsson skrifar:
27/05/2009 at 20:49 (UTC 0)
Áfram, Eiður, gamli vinur! Nú er Pétur Pétursson allur og þá verður einhver að halda uppi merkinu!
Mér sýnist málkennd fjölmiðlamanna hraka ískyggilega um þessar mundir.
Sigurður Grétar Guðmundsson skrifar:
27/05/2009 at 20:31 (UTC 0)
Mæltu manna heilastur. Mér datt það í hug þegar ég heyrði þá frétt að tveir menn til viðbótar væru grunaðir um að hafa smitast af svínainflúensu hvort þeir væru góðkunningjar lögreglunnar.