«

»

Molar um málfar LXXV

 Meira um  auglýsingar. Makalaus  heilsíðuauglýsing frá  fyrirtækinu  Andersen & Lauth birtist í  Fréttablaðinu 23.05.09.  Undir  nafni  fyrirtækisins stendur á  ensku: Outlet, Vintage & One off. Hversvegna    enska ? Er ekki verið að höfða  til  Íslendinga ?

Efst í auglýsingunni er orðið  verslun  skrifað með  z . Það er  einnig gert í  fyrstu línu meginmáls  auglýsingatextans.   Neðar í textanum er talað um  kvenverslun með  s og herraverslun með z. Hvílíkt endemisrugl !!  Hvað er  annars kvenverslun ?  Í auglýsingatextanum er einnig  sletturnar (innan  gæsalappa, –  engin  afsökun)    one off  flíkur og  vintage flíkur. Þar  er og  orðið  fjársjóðskista,-  sem ég kann ekki að meta. Venjulegra  er að tala um  fjársjóðakistu.

Ég held  næstum því  að þessi  auglýsing  sé  nýtt met í subbuskap.  Auglýsingastofan sem  ber ábyrgð á þessari  auglýsingu er  svo metnaðarlaus  sem  mest má  verða og  veit ekki hvað  vönduð vinnubrögð  eru.

Það er engu líkara en eigendur  sumra  verslana og veitingastaða  leggi metnað sinn í að  finna  ensk nöfn á  fyrirtæki  sín. Dæmi um þetta er  veitingastaður, sem  opnaður var ekki alls  fyrir   löngu í Reykjavík og heitir  Just  Food  –  to  go. 

Að öðru: Í  Vefvísi (25.05.09.) stendur: Innbrotstilfelli voru 22 um helgina hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Innbrotstilfelli er líklega  það  sama og innbrot. Þá er   þessi  setning  þannig orðuð að allt eins  mætti ætla  að  brotist hefði verið   tuttugu og tvisvar sinnum inn hjá  lögreglunni  á höfuðborgarsvæðinu. Svo var þó líklega ekki.

Í  sínum sérkennilega  sjónvarpsþætti   Hrafnaþingi  á ÍNN bölsótast  stjórnandinn Ingvi Hrafn  Jónsson út í allt og  alla, hermir eftir  fólki  og uppnefnir  fólk  eins og  honum  sýnist.  Þegar hann  nýlega  var að tala um Jöhönnu Sigurðardóttur  forsætisráðherra hét  hún í hans munni Jóhanna gamla. Ingvi Hrafn er  fæddur  27. júlí  1942. Jóhanna  Sigurðardóttir  er  fædd  4. október 1942.

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Steini Briem skrifar:

    Vintage“ er „fínt“ orð yfir notuð eða gömul föt, rétt eins og „outlet“ er „fínt“ orð yfir lagersölu.

    „The word vintage is copied from its use in wine terminology, as a more elegant-seeming euphemism for „old“ clothes.“

    Sumir íslenskir verslunarmenn telja sig geta selt meira en ella með því að nota orðin „vintage“ og „outlet“ og því munu þeir ekki hætta að nota þessi orð, ef þeim er ekki bent á íslensk orð sem gætu komið í staðinn fyrir þessi ensku orð og þeir myndu sætta sig við að nota. Þau væru sem sagt jafn söluvænleg í þeirra augum og „vintage“ og „outlet“.

    Ríkisútvarpið
    má hins vegar samkvæmt eigin reglum ekki nota ensku orðin „outlet“ og „vintage“ í auglýsingum, nema orðið „outlet“ komi fyrir í nafni viðkomandi fyrirtækis.

  2. Eiður skrifar:

     Þetta er rétt athugað, Gústaf Hannibal,  – ég er enginn Hæstiréttur, —  og  sérvitur úr  hófi !

  3. Gústaf Hannibal skrifar:

    Ég er sammála þér um allt, nema það að það sé eðlilegra að segja fjársjóðakista en ekki fjársjóðskista. Samkvæmt leitarvél Google kemur orðið fjársjóðskista fram tæplega 2000 sinnum á Internetinu, en fjársjóðakista 8 sinnum.

    Er það ekki eðlilegra? Hver kista hlýtur að geyma einn fjársjóð en ekki marga.

  4. Sverrir Friðþjófsson skrifar:

    Takk fyrir frábæra pistla – þessar enskuslettur eru óþolandi – líttu á tnt.is

  5. Sigurður Hreiðar skrifar:

    Er þetta þá ekki Ingvi Hrafn hinn eldgamli? Jóhanna má þola margt þessa dagana. Hjá Sverrir Stormsker sem oft er naskur á skoplegan útúrsnúning orða og orðatiltækja var hún nefnd forsætisráðherfa um daginn. Ljótt og óþarf, en ég er ekki betur innrættur en svo að ég hló við.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>