«

»

Molar um málfar LXXIV

 Oft er firnagott  efni að finna í  dagskrá RÚV. Gott  dæmi um það er þáttur Jónasar Jónassonar Sumarraddir. Að þættinum loknum (24.05.09.) voru flutt  tvö  dönsk  sönglög ,sem  var  viðeigandi, meðal annars vegna þess að í þætti Jónasar var sögulegt viðtal  við  tengdason Íslands  leikarann Poul Reumert.  Að þessu loknu komu stuttar  auglýsingar. Þar var  þessi  auglýsing: Reunion – Skíðaskálinn í Hveradölum.  Þessi auglýsing  er atlaga að  íslenskri  tungu . Hún er  að hálfu á  ensku. Eiga ekki auglýsingar í íslensku útvarpi að vera á íslensku ?  Það er  greinilegt að  tekið er  við  hverju sem er  gagnrýnilaust hjá  auglýsingadeild  RÚV. Þar  virðist lítið hugsað, – allavega ekki um málvernd.

Einu sinni var í gildi  reglugerð um auglýsingar og kostun dagskrárefnis í Ríkisútvarpinu,  gefin út í menntamálaráðherratíð Svavars Gestssonar. Þar  sagði  í  3. gr.  tölulið 2 : Auglýsingar  skulu vera á lýtalausu íslensku máli. Sé þessi  reglugerð enn í   gildi er ljóst að  RÚV  hefur þverbrotið hana  með  ofangreindri auglýsingu.  Enska orðið  reunion er ekki lýtalaus íslenska.Það er lýtalaus enska.    Orðið endurfundir, sem  samsvarar enska orðinu  reunion, er  hinsvegar lýtalaus íslenska.Kannski er  búið að  fella þessa  reglugerð úr gildi. Kannski hefur það gerst með OHF-væðingu RÚV .

Dæmi um aðrar enskuslettur í  auglýsingum  RÚV  eru  Brunch á  sunnudögum – Hótel Loftleiðir  og   Tax-free  á  öllum  garðhúsgögnum – Húsasmiðjan.  Seinni auglýsingin  er  reyndar efnislega  röng.  Húsasmíðjan hefur ekki  frekar en önnur fyrirtæki rétt  til að  fella niður  virðisaukaskatt af  seldum  vörum.  Þótt veittur sé  afsláttur  sem  nemur  virðisaukaskattinum   hefur það  ekkert  með  skattleysi  að  gera.

Það er að bera í bakkafullan lækinn að tala  enn einu sinni um enskuslettuna Outlet  sem  nokkrir íslenskir  kaupahéðnar hafa tekið  sérstöku ástfóstri við. Í Fréttablaðinu (23.05.09.) er  stór  auglýsing þar sem  lesa má um Merkjaoutlet sem  sé  stærsta  outlet landsins.  Þeir  sem  svona  auglýsa og þeir sem   semja  svona  auglýsingar eru  íslensku máli miklir óþurftarmenn.

Eitt orð enn um  enskuslettur. Í Fréttablaðinu er fyrirsögn (23.05.09.) Eighties mætir átjándu öld.  Í textanum undir þessari  fyrirsögn (get ómögulega kallað það frétt) er raunar ekkert sem  skýrir fyrirsögnina.  Svona  skrifa  bara málsóðar.

Á forsíðu Morgunblaðsins (25.05.09.)  er mynd  frá löndun á   Arnarstapa. Þar er  talað um veiðitúr. Það er  andstætt málvenju að segja  að bátar af þeirri  stærð sem myndin sýnir  fari í veiðitúr. Þeir  fara í  róður.  Þegar um er að  ræða stærri  skip, sem  eru lengur á  sjó, er stundum  talað um túra. Til dæmis  heyrist sagt um  vel heppnaða  veiðiferð togara: Við gerðum góðan túr.

ES Þegar ég fjallaði um að  Morgunblaðið  væri  hætt  að  birta   reglulega  þætti um íslenskt mál hefði ég átt að geta þess að  Gísli Jónsson menntaskólakennari á  Akureyri  skrifaði árum  saman  vinsæla þætti um íslenskt  mál í Morgunblaðið. Mér  finnst óskiljanlegt að   þetta  aldna og  virðulega blað  skuli  ekki sýna móðurmálinu meiri  virðingu en  raun ber  vitni.

 

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

     Tek undir það, að lagersala  er  fínt orð. –  Hjördís, ég hef  ekki skrifað um þetta,  en orðið  lágvöruverslun er  auðvitað bara  bull. Lágvörur  eru ekki  til.  Held hinsvegar að ég hafi  heyrt  talað um  lágvöruverðsverslanir, –  en það er  nú hálfgert klúður.

  2. Hjördís skrifar:

    Nú veit ég ekki hvort þú hefur skrifað um þetta – en mikið óskaplega fer í mig þegar talað er um lágvöruverslanir. Hvað er lágvara?

  3. Steini Briem skrifar:

    Lagersala er ekki nógu fínt orð fyrir þá sem kalla verslanir sínar Outlet.

    Það virðist vera vandamálið en ekki það að verslunarfólk þekki ekki orðið lagersala.

  4. Heimir Tómasson skrifar:

    Hárrétt hjá þér Oddur…. einhvernveginn hafði orðið lagersala alveg dottið út hjá mér.

  5. Oddur skrifar:

    Outlet er venjulega kallað lagersala … eða var það að minnsta kosti um tíma.

  6. Steini Briem skrifar:

    Á vef Ríkisútvarpsins:

    Auglýsingar skulu vera á lýtalausu íslensku máli. Heimilt er þó að erlendir söngtextar séu hluti auglýsingar.“

    „Reglur þessar voru samþykktar á stjórnarfundi RÚV ohf. þann 24. mars 2009 og taka þær þegar gildi.“

    Reglur um auglýsingar í Ríkisútvarpinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>