«

»

Molar um málfar LXXVIII

 Málsubbuauglýsingin frá  fyrirtækinu Andersen & Lauth  birtist aftur óbreytt  í Morgunblaðinu (29.05.09.) Fyrirtækið  og  auglýsingastofan ,sem gert hefur  þessa   auglýsingu, eru  bæði  gersneydd allri  sómatilfinningu. Auglýsingin er  full  af slettum og villum.

 Vikið  var að  ambögunni  að   eitthvað  sé   samkvæmt Sameinuðu þjóðunum  eða  samkvæmt  ráðuneytinu í  síðustu  Molum.  Í Morgunblaðinu (29.05.09.) stendur  í  smáfrétt  samkvæmt  lögreglunni. Finnst  lesendum þetta allt í lagi ?

Þegar sagt er í sjónvarpsfréttum (27.05.09.) RÚV á morgun og  hinn er verið að tala við okkur á  barnamáli. Eðlilegra  hefði verið að segja: Á morgun og   föstudag.  Einhversstaðar var líka  í  fréttum talað um að  bílþjófar hefðu klesst á  vegg. Það er líka barnamál.

Vefdv (27.05.09.): … mun málið hins vegar ekki hafa neina eftirmála samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka. Enn rugla menn saman orðunum  eftirmáli kk. = niðurlagsorð, texti  aftan  við meginmál ( Ísl.orðabók)  og  eftirmál  hk. =  eftirköst, afleiðing, rekistefna vegna  einhvers  atferlis (Islensk orðabók) Það liggur  við að það sé  orðið  daglegt  brauð að  sjá þetta  rugl í netmiðlunum. Um þetta var reyndar fjallað í Molum um málfar LXVI.

Mig langar  til að gera  tvær  athugasemdir  við  Heineken bjórauglýsingu   (27.05.09.)  sem  sýnd var á  Stöð tvö. Í  fyrsta lagi  niðurlægir  auglýsingin  konur, – konur  eru  látnar  æpa og  skrækja  af hrifningu er  þær  sjá  inn í  herbergi   þar sem  eru  býsn  af  fötum og  skóm. Í öðru  lagi er  verið að auglýsa  áfengi, sem  er bannað með  lögum.  Það breytir  engu um  eðli  og efni auglýsingarinnar þótt orðið  léttöl  birtist í   tvær  sekúndur  eða   svo með örsmáu letri   neðst í hægra horni á  skjánum. Það er verið  að  auglýsa áfengi. Bjór er áfengi.

ES –  Ökumenn BMW þeir verstu í umferðinni,  segir í fyrirsögn (29.05.09.) í bílablaði Morgunblaðsins. Á leiðinni    í Garðabæ  síðdegis sá ég í speglinum að  fyrir  aftan mig  var ljóslaus og  númerslaus bíll og  bílstjórinn blaðraði í símann sem mest hann mátti. Hann   fór  fram úr mér og skipti um akrein  án þess að  gefa  stefnuljós.  Hann  gaf mér  hinsvegar  alþjóðlega   dónamerkið þegar  við námum staðar hlið  við  hlið  við umferðarljós og  ég   bar hendina upp   að  eyranu og  hristi höfuðið. Þetta var reyndar  BMW , MP 902 . Auðvitað aka margir  fyrirmyndarökumenn um á  BMW. Mér fannst þetta   svolítið  fyndið, hafandi lesið  fréttina í Mbl.  um morguninn !

Það rifjaðist reyndar upp fyrir mér  gömul vísa af þessu  tilefni.

Hann sem átti ekki föt,

eða  fyrir kaffi,

ekur nú um allar göt-

ur á   bé emm vaffi.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Hjörleifur Stefánsson skrifar:

    Blessaður!

    Þessi vísa er eftir föður minn, Stefán Jónsson fréttamann.
    Hún mun vera ort í tilefni þess að Hjörtur Pálsson eignaðist BMW – bíl.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>