Í tíufréttum RÚV sjónvarps (28.05.09.) var þannig tekið til orða að hross hefðu drepist vegna vanfóðrunar. Eðlilegra hefði verið að segja að hrossin hefðu drepist af því þau voru í svelti.
Í fréttum Stöðövar tvö (29.05.09.) var sagt, að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefði neitað viðtali í dag. Ekki finnst mér það gott orðalag. Betra og skýrara hefði verið að segja að Ö.S. utanríkisráðherra hefði ekki viljað koma í viðtal í dag. Í sama fréttatíma er fjallað var um Suðurlandsskjálftann, sem varð fyrir ári, sagði fréttamaður á Hveragerði. Það er ekki rík máltilfinning til staðar hjá þeim sem notar forsetninguna á með Hveragerði. Auðvitað er sagt í Hveragerði.
Gömlum fréttamanni finnst það fáránlegt, þegar Vefdv (29.05.09.) skrifar að fréttamaður Stöðvar tvö hafi brotið blað í íslenskri fréttamennsku, þegar hann lét tæknimann sprauta vatni upp í afturendann á sér á stólpípuhóteli Jónínu Benediktsdóttur á Miðnesheiði. Sjálfur líkir fréttamaðurinn sér við blaðamann í bandaríska sjónvarpsþættinum 60 Minutes sem hafi farið í ristilspeglun og það verið sýnt í sjónvarpi. Hér er ólíku saman að jafna. Ristilskolun á Miðnesheiði er framkvæmd af manni sem ekki er læknir. Þetta er skottulækning sem er í besta falli skaðlaus fyrir annað en pyngju þess sem er skolaður. Ristilspeglun framkvæmir læknir annað hvort á sjúkrahúsi eða í læknastöð. Ristilspeglun er læknisfræðileg leit að meini í ristli í þeim tilgangi að finna illkynja mein á frumstigi áður en það dreifir sér. Að líkja þessu tvennu saman er gjörsamlega út í hött og er annaðhvort gert vegna fáfræði eða þetta er vísvitandi blekking.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
31/05/2009 at 22:56 (UTC 0)
Rétt, Lana Kolbrún. Þetta hefði hefði verið besta orðalagið.
Þakka þér orðin, Björn. Þetta er ekki hugrekki, heldur þörf fyrir að benda á þegar verið er að hafa fé af fólki með prettum á borð við þetta.
Lana Kolbrún Eddudóttir skrifar:
31/05/2009 at 02:12 (UTC 0)
Hrossin drápust úr hor. Það er góð og gild íslenska.
Ingi skrifar:
31/05/2009 at 00:43 (UTC 0)
Best væri; þau voru svelt. Mér að meinalaus ef fólk vill láta spúla á sér görnina,mæli samt með garðslöngu.Mun ódýrara.