«

»

Molar um málfar LXXX

Hefur  feðrað 21 barn  segir í fyrirsögn á  Vefvísi (30.05.09.) í frétt um mann  sem  eignast  hefur   21 barn með 11 konum og er ekki orðinn  þrítugur. Á íslensku er það  að feðra barn að  segja  hver  faðir  barns  er, benda  á  föður.  Á ensku  er  sögnin to  father  notuð í merkingunni  að  geta börn  að  eignast  börn. Þessi orðnotkun  á vefvísi  er andstæði íslenskri málvenju. Aulaþýðing úr ensku. Skylt er að geta þess að  fyrirsögninni var seinna  breytt  í: Hefur  gengist við 21 barni, sem er ólíkt  betra.

 Það verður fróðlegt að heyra hvort ríkisstjórnin hafi eitthvað hugsað um hvort koma eigi eitthvað til móts við þessa skuldara.  Þessi meitlaða  setning  er úr  þingskjali, fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar,alþingismanns,  til  viðskiptaráðherra  um það  hvort  ríkisstjórnin ætli að aðstoða þá  sem  tekið hafa  þá áhættu  að  taka  gengistryggt lán  til  bílakaupa.  Eitthvað hugsað  um að gera  eitthvað. Hnitmiðað  orðalag. Þessi  þingmaður á það  reyndar sameiginlegt með nokkrum öðrum þingmönnum að  leyfa lesendum/kjósendum ekki að  gera athugasemdir  á  bloggsíðu sinni.  Það finnst mér bera vott um   hroka.

  Ríkisútvarpið  heldur áfram  að brjóta  sínar eigin reglur. Dag  eftir   dag  heyrum  við auglýsinguna: Reunion – Skíðaskálinn í Hveradölum. Þessi auglýsing er að hálfu á  ensku og hálfu á íslensku. Auglýsingar í  Ríkisútvarpinu eiga að vera á lýtalausri íslensku , segir í auglýsingareglum RÚV. Þar stendur  svart á  hvítu:

3. gr.

Skilyrði fyrir birtingu auglýsingar

Auglýsingar sem ætlaðar eru til flutnings í hljóðvarpi eða sjónvarpi skulu fullnægja eftirtöldum skilyrðum:

  1. 1. Auglýsingar skulu ekki brjóta í bága við almennt velsæmi.
  2. 2. Auglýsingar skulu vera á lýtalausu íslensku máli. Heimilt er þó að erlendir söngtextar séu hluti auglýsingar.

 Til hvers  er að hafa reglur  ef þær  eru þverbrotnar á hverjum einasta degi ?

Ræður útvarpsstjóri ekkert  við  auglýsingadeildina ?  Vill hann  ekki  fara að þeim reglum,sem  stofnunin hefur  sett sér ?  Mér finnst þetta með ólíkindum.

  Í kranaviðtali við  forseta íslands í Mannlífi , segir  forsetinn:  Ef  friðurinn héldi áfram að slitna  í sundur  í átökum…. Þarna er óbeint  verið að  vitna  til  orða Þorgeirs Ljósvetningagoða við  kristnitökuna: Það  mun og verða satt, er vér slítum  í sundur lögin, að  vér munum einnig slíta friðinn.  Að tala um að  ef  friðurinn  héldi áfram að  slitna í sundur er     dæmi  um tilgerðarlega uppskrúfun.

 

 

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sverrir Friðþjófsson skrifar:

    TNT „Pick up“ tímar

    Skilatímar fyrir sendingar sem eiga að fara erlenis samdægurs, eru sem hér segir.

    Mánudagar, fimmtudagar og föstudagar

    · “Pick up” til fyrirtækja lokar kl. 13:30

    Þessi tilkynning barst einnig í pósti og þar voru engar gæsalappir. Er þetta boðlegt? 

  2. Þóra Guðmundsdóttir skrifar:

    Ég rak augun í þessa frétt á vef Vísis. Ég sendi ábendingu á ritstjórn og þetta var leiðrétt um leið. Auglýsingar geta stundum „drepið“ mann. Á Bylgjunni hljómaði í sífellu „Taxfrí af öllum sláttuvélum“.

  3. Jón Óskarsson skrifar:

    Tek undir með Lönu að þú sendir útvarpsstjóra þessa fyrirspurn og afrit af því bréfi til forstöðumanns auglýsingadeildar og svo útvarpsráðs. 

    Hvar er annars Hollvinafélag ríkisútvarpsins? 

    Eða þarf að stofna Hollvinafélag móðurmálsins eða  Félag um bætta málnotkun í fjölmiðlum?

  4. Lana Kolbrún Eddudóttir skrifar:

    Því sendirðu útvarpsstjóra ekki þessa fyrirspurn þína um auglýsingadeildina ?

    Og birtir svar hans hér á síðunni, ef það nær máli ?

  5. Silja skrifar:

    Sæll. Ég hef mikinn áhuga á íslensku máli og mér finnst voða skemmtilegt og fróðlegt að lesa molana þína. 🙂
    Varð hugsað til þeirra þegar ég rak augun í leiðinlega villu í viðtali við fjallgöngumann í blaði sem fylgdi með Morgunblaðinu, á helginni held ég. Þar var eitthvað ,,að sögn Haraldar Örn Ólafssonar“. Ég efast um að maðurinn heiti Örn að ættarnafni og mér finnst mjög lélegt af blaðinu að geta ekki beygt nafnið!

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>