«

»

Molar um málfar LXXXI

Í fréttum  RÚV  (kl. 1800 31.05.09.)  var  sagt:  Tilraunir til að koma á  lýðræðisumbótum í Zimbabwe hafa brugðist.  Tilraunir bregðast  ekki , þær  mistakast eða fara út um þúfur. 

Einkennilega fannst mér   til orða  tekið í hádegisfréttum RÚV (01.06.09.) þegar sagt  var: … ef  svo óheppilega vill  til að  flugvél hverfur  af ratsjá…

Silja,sem er áhugamaður um íslenskt mál, sendi mér eftirfarandi línur: „….ég rak augun í leiðinlega villu í viðtali við fjallgöngumann í blaði sem fylgdi með Morgunblaðinu, á helginni held ég.
Þar var eitthvað ,,að sögn Haraldar Örn Ólafssonar“. Ég efast um að
maðurinn heiti Örn að ættarnafni og mér finnst mjög lélegt af blaðinu að
geta ekki beygt nafnið!“  Beygingaleti  eða  beygingafælni er  vaxandi  vandamál í fjölmiðlum.  Morgunblaðið ætti að sjá  sóma  sinn í að gera betur en þetta.  Takk  fyrir ábendinguna, Silja.

Annað  dæmi um  beygingafælni  af Vefvísi (01.06.09.) :Vélin var á leið frá Rio de Janeiro í Brasilíu og var á leið til París. Á íslensku ætti að segja : Vélin var  á  leið frá  Rio de Janeiro  til Parísar.  Sá  sem  skrifar svona er  kannski  bara enn á því  málþroskastigi að hann ætti að vera úti á  götu að hoppa  parís  eins og  sagt var í gamla  daga !

Í heilsíðuauglýsingu um ferðir með  ferjunni  Norænu (Morgunblaðið, 31.05.09.) eru  villur. Líklega  eiga íslenskar  auglýsingastofur met í málfarslegum subbuskap. Í auglýsingunni stendur  stórum  stöfum: Brottfarir  til  Færeyja er alla miðvikudaga í allt  sumar. Fyrst er  til að  taka að orðið  brottför  er  venjulegast notað í eintölu , þótt flugfélög og ferðaskrifstofur geri  sitt besta til að  festa fleirtöluna í málinu.  Noti  menn fleirtöluna, ætti     sögnin að  fylgja  fleirtölunni og   vera   eru  en ekki er alla  miðvikudaga. Það  væri  alveg   prýðilegt að segja  í þessari  auglýsingu:  Brottför  til Færeyja er á miðvikudögum í  allt  sumar. Varla  eru  margar  brottfarir á hverjum  miðvikudegi, –  eða hvað ?

Einnig  er í auglýsingunni  stórletruð  fyrirsögn á  færeysku:  Mær dámar so væl at sigla  vi Norrönu. Þótt ekki sé  ég    færeyskufræðingur  sé  ég ekki  betur  en í þessari setningu  sé   villa. Þarna ætti að  standa: Mær   dámar so væl  at sigla  við Norrönu. – Mér líkar svo  vel að sigla með Norrænu. Í  færeysku er  ekki til neitt  vi   en  færeyska orðabókin gefur  dæmið: Hann  sigldi  við norðmonnum (við norskum skipum).  Mikil hroðvirkni og aðstandendum ekki til  sóma.

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Gústaf Hanniba skrifar:

    „Þegar Twilight parið kysstist á sviðinu, eins og myndirnar sýna, en slúðurheimurinn vestan hafs heldur því fram að þau eru par í raunveruleikanum“ -vefvísir.

  2. Birta skrifar:

    Sæll og blessaður Eiður. Ábending Silju minnir mig á fyrirsögnina „Buxnaskjónar vann“ sem birtist í Fréttablaðinu fyrir skömmu. Þarna er verið að vísa til þess að hljómsveitin Buxnaskjónar sigraði í hljómsveitarkeppni sem haldin var á Akureyri.

    Fólk sem skrifar svona fyrirsagnir ætti að skammast sín.

  3. Raggi skrifar:

    Alveg er ég sammála þér, þetta getur verið alveg óþolandi hvernig farið er með rangt mál stundum. Eitt sem ég tek oft eftir (núna síðast í gær í bók sem ég er að lesa) er að oft er talað um „úrdrátt“ þegar átt er við „útdrátt“. Úrdráttur er að draga úr einhverju, gera lítið úr en útdráttur er draga eitthvað út, draga sama.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>