Molavin skrifaði: ,,Í Morgunblaðsfrétt í dag, 20.11.2013, segir af því er Hannes H. Gissurarson hitti Norman Lamont, lávarð af Leirvík og fyrrum fjármálaráðherra og að í spjalli þeirri ,,hafi komið fram“ að lávarðurinn væri ,,frá Hjaltlandseyjum.“ Við þetta hef ég tvennt að athuga. Annars vegar að við nefnum Shetland Islands að hefð Hjaltland (ekki Hjaltlandseyjar) – og hins vegar að það hafi ekki ,,komið fram“ að Lord Lamont væri Hjaltlendingur. Það var flestum þegar kunnugt, sem fylgst hafa með brezkum stjórnmálum. Ég legg þann skilning í þau orð að eitthvað komi fram, sem hafi annað hvort verið ókunnugt fólki flestu eða ekki fyrirfram vitað. Nú hefur færzt í fréttamálstízku að segja að það hafi komið fram að viðkomandi telji e-ð þegar einfaldast væri að segja að viðkomandi álíti. Hitt er óþörf og villandi málalenging” Molaskrifari þakkar bréfið .
Misjafnt er hve þingmenn hugsa um að vanda mál sitt. Birgittu Jónsdóttur þingmanni Pírata er til dæmis sérstaklega tamt að sletta ensku. Á miðvikudag (20.11.2013) var haft eftir henni í DV ,,mér finnst það bara mjög krípí”. Þetta var svona næstum því á degi íslenskrar tungu!
Það skortir svolítið á skýrleika í þessari frétt á mbl.is http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/11/19/thingmadur_stunginn_og_sonurinn_latinn_2/ Þingmaðurinn sem hér um ræðir á sæti ríkisþinginu í Virginíu, ekki í öldungadeildinni í Washington D.C.
Af mbl.is (20.11.2013): ,,Gefin hefur verið út ákæra á annan manninn vegna á annan tug auðgunarbrota…” Molaskrifari hefði haldið að hér hefði verið betra að segja: ,, … fyrir á annan tug auðgunarbrota”.
Í nýútkominni bók, Fiskarnir hafa enga fætur eftir Jón Kalman Stefánsson, stendur á bls. 38. : ,,Óveðrinu tókst vissulega að drekkja á annan tug sjómanna, en ….” Þetta hljómar svolítið einkennilega í eyrum Molaskrifara en það er sjálfsagt misskilningur.
Molalesandi vísar til þess að í Molum var vitnað var í orð Jórunnar Sigurðardóttur af vef Ríkisútvarpsins. Molalesandi vitnar í það semvísað var tiol þí Molum: ,,Stofnunin sem ég á þessari viðurkenningu að þakka…” Hann spyr: Á þetta ekki að vera: “Stofnunin sem ég á þessa viðurkenningu að þakka…” þ.e. tilvísunarfornafnið er í þgf. og viðurkenningu í þf? Sem sé ,,ég þakka stofnuninni þessa viðurkenningu.” Ég veit ekki hvaðan villan kemur en mér finnst hún áberandi þar sem hún er feitletruð í Molanum þínum.” Molaskrifari þakkar bréfið. Hann hnaut líka um þetta og hefur ekki séð ummælin leiðrétt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
27/11/2013 at 08:17 (UTC 0)
Þap færi nú svolítið eftir samhenginu. En ,,krípi og kríp“ mundi ég ekki nota.
Geir Guðjónsson skrifar:
25/11/2013 at 15:25 (UTC 0)
Sæll Eiður. Hvað myndir þú nota í stað krípí og kríp?