Garðapósturinn, óháð bæjarblað í Garðabæ og Álftanesi, barst mér í pósti fyrir nokkrum dögum. Þar er eftirfarandi að finna: Kópavogspóstinum hafði samband fiskiprinsinn,Eyjólf Júlíus Pálsson, eiganda fiskverslunarinnar Hafið – Fiskiprinsinn sem staðsett er að Hlíðarsmára 8 í Kópavogi. Hafið er sérverslun með fiskafurðir fyrir kröfuhafa grillneytendur á sanngjörnu verði. Prinsinn hvað hann hefur spennandi fram að færa á grillið í sumar? Þetta er með ólíkindum. Í sama blaðið er reyndar ótal margt fleira athugavert , eins og til dæmis: .. unnu út frá þemanu endursköpun og nýsköpun, sem kennarinn hafði sett þær fyrir.
Og ég held að það sé raunar til skammar hvernig hún hagar sér á bjöllunni. Þetta hefur Fréttablaðið (17.06.09.) eftir þingmanni Framsóknarflokks. Ég læt lesendum eftir að dæma þetta orðalag þingmannsins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í umræðu um Icesave-samningana, að þingmenn væru ekki að fara að staðfesta þessa samninga (Vefmoggi 18.06.09.). Eru ekki að fara að staðfesta. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagði svo á Morgunvaktinni ( 19.06.09.): Það er fyrst núna sem við erum að fara að sjá…. Erum að fara að sjá. Einmitt það. Bráðsmitandi. Og þingmenn Framsóknar halda áfram að segja : Mér langar. (Utandagskrár umræða um Icesave 18.06.09.)
Af Vefvísi (18.06.09.): Einn fulltrúi frá hagsmunasamtökunum telur að breska ríkið eigi að standa betur við fæturna á þeim sparifjáreigendum sem töpuðu sparifé sínu á falli Landsbankans. Standa betur við fæturna á ! Þeim bregst ekki bogalistin á Vefvísi. Sá sem þetta skrifar á líklega við að yfirvöld eigi að styðja betur við bakið á sparifjáreigendum. Standa betur við fæturna á einhverjum gæti líklega nálgast það að troða einhverjum um tær.
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eygló skrifar:
20/06/2009 at 23:37 (UTC 0)
„…með fiskafurðir fyrir kröfuhafa grillneytendur“
„…fyrst núna sem við erum að fara að sjá…“
“ … standa betur við fæturna á þeim …“
Þetta er svo víðáttuvitlaust að maður bara hlær (fer yfir „pirr“mörkin)
Steini Briem skrifar:
20/06/2009 at 19:51 (UTC 0)
Ólafur Ragnar Grímsson, nú forseti Íslands:
Eiður skrifar:
20/06/2009 at 18:05 (UTC 0)
Þakka þér orðin,Haukur. Ekki ætla ég mér þá dul að feta í fótspor Helga. Það er bara svo oft að maður getur ekki orða bundist.
Ekki skal ég fjölyrða um gáfur eða menntun þingmanna. Hinsvegar man ég ekki til þess þau fimmtán ár sem ég átti sæti á Alþingi, að notað væri orðbragð eins og þingmenn Framsóknarflokksins telja við hæfi nú um stundir.
Haukur Kristinsson skrifar:
20/06/2009 at 12:38 (UTC 0)
Þakka þér Eiður Svanberg fyrir þína pistla um íslenska tungu. Þú reynir að feta í fótspor Helga Halfdánarsonar, sem er virðingarvert. Helgi sagði að það sýndi menningarstig hverrar þjóðar, hversu annt hún léti sér um að varðveita tungu sína. En menningarstig Íslands hefur að mínu mati aldrei verið lægra en í dag, ein afleiðing gróðærisins. Kæruleysi í málnotkun er með ólíkindum, jafnvel innan veggja Alþingis, enda stór hópur þingmanna með litla menntun og enn minni gáfur.
Steini Briem skrifar:
19/06/2009 at 20:15 (UTC 0)
Það var hrint mér! – Ný setningagerð í íslensku.