«

»

Molar um málfar XCI

Morgunblaðið  sagði frá  hlut sem féll  af himnum ofan: Hafði hann rekist í þakskeggið og er þar nú ágætis dæld. 19.06.09.).  Það skorti bara á að  blaðið birti mynd  af þessari ágætu  dæld,sem ég  efast  raunar um að  húseigandinn sé  mjög ánægður með.

 Fréttamaður á  fréttastofu RÚV  ræddi  við  starfsbróður sinn (19.06.09.), sem var staddur á  sjálfu hvalskurðarplaninu. Þetta minnir  svolítið á þegar   sumir  Alþingismenn segja: Ég  flutti frumvarpið sjálfur.

 Í  Morgunblaðinu (19.06.09.) er sagt um þann mikla völund og listamann Jens  Guðjónsson, gullsmið: Hann nam  fjögurra ára gullsmíðanám hjá…  Þetta er tuggustíll:  Menn   nema ekki nám.  Betra hefði verið: Hann stundaði gullsmíðanám í  fjögur ár hjá…. , eða: Hann nam gullsmíði í fjögur  ár hjá ….

 

  Oftar en ekki er  fréttamat fréttastofu Ríkisútvarpsins sérkennilegt, að ekki sé meira  sagt.  Þegar lögmenn, sem  virðast frekar vera í pólitík, en  fræðunum,  segja  að   við  gætum misst   Alþingishúsið  í hendur útlendinga  er það  fyrsta  frétt. En þegar rætt  er  við  formann íslensku  samninganefndarinnar  til að leiðrétta   þetta   endemis rugl  (19.06.09.)  er þeirri  frétt  holað niður undir lok hádegisfréttatímans. Það er  hægt að  tjá  hug sinn  til þjóðmála  með ýmsu móti .

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eygló skrifar:

    Ég fæ líka alltaf sting þegar talað er við slökkviliðsmenn og þeir lýsa aðkomunni, slökkvistarfinu og rústunum (þegar svo illa hefur farið):  t.d. þegar við komum logaði glatt í hlöðunni/íbúðarhúsinu.

    Vona/vænta/gera ráð fyrir/óttast. Mér finnst ekki alltaf að fólk hugsi mikið eða skilji muninn: 

    Væntanlega verða atvinnulausir orðnir um 20þúsund á næsta ári.

    Hún er væntanlega dáin núna.

    Það er von á rigningu alla helgina.

    Ég vona ekki! 

  2. Steini Briem skrifar:

    Útvarpið tekið upp í skuld,
    einnig Hafdís litla Huld,
    en Alþingi það er einskis virði,
    á öllum löngum verið byrði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>