«

»

Molar um málfar XCIII

  Sennilega er munurinn á  orðunum hurð og  dyr  að hverfa. Samkvæmt  Íslensku orðabókinni  er  hurð  fleki  til  að loka  dyrum,  en  dyr  inngangur í herbergi eða hús, oftast með umbúnaði til að hurð geti fallið fyrir. Fjölmiðlar  fjölluðu (22.06.09.)  um vitstola ökumann sem gekk berserksgang á  bíl sínum og olli miklu  tjóni.  Vefvísir  sagði að ökumaðurinn hefðu  ekið á  dyr, en  bæði Vefmoggi  og  fréttavefur  RÚV  sögðu ökumann hafa  ekið á  útkeyrsluhurðir, sem  væntanlega eru einnig innkeyrsluhurðir! Í hádegisfréttum RÚV var   sagt að  ekið hefði verið á  dyr. Á vef  RÚV  var reyndar   einnig  notað  orðatiltækið að klessa á. Það er  barnamál, sem ekki á erindi í fréttir.

 Robin Hood, sýningar hefjast í kvöld (21.06.09.) var sagt í kvikmyndaauglýsingu á  Skjá  einum. Hvað var um þann  gamla,góða  Hróa Hött ?

Fyrirsögn í Lesbók Morgunblaðsins(20.06.09.): Bröns og bækur. Þannig  leggur   þetta menningarfylgirit Morgunblaðsins  sitt  lóð á vogarskálarnar  til  að  festa þessa ótætis enskuslettu í málinu.   Ríkisútvarpið og  Morgunblaðið  eiga  samleið  á þessum óhappavegi.

 Úr Vefdv (23.06.09.) Hann segir dóttur sína líða ágætlega eftir atvikum og beri sig vel.  – Það þarf meira en lítinn skort  á máltilfinningu til að láta  svona  setningu frá sér fara. Þarna  ætti auðvitað að standa:  Hann  segir  dóttur sinni líða ágætlega eftir atvikum og  hún beri  sig vel. 

8 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Jón Óskarsson skrifar:

    Taland um að loka..

    Vísir, 24. jún. 2009 20:41  

     ..segir Ragnheiður Clausen sem er forviða eftir að reikningi hennar á samskiptasíðunni Facebook var lokaður.

    .. ..Nú er hún kominn með þriðja póstfangið

    Blaðamaður lætur ekki nafns síns getið og er þetta því á ábyrgði ritstjórnar og samkvæmt stefnu hennar að hafa málfarssóða til að skrifa fréttir.

    Blaðamaður lætur eðli málsins ekki nafns sín getið 

    En af hverju þetta tiltekna mál er gert að framhaldsfrétt með viðtali er svo kapítuli út af fyrir sig.

  2. Silja skrifar:

    Ég er að reyna að lesa bók sem heitir Í minningu hinna föllnu og er eftir Ian Rankin. Sagan er því miður ákaflega illa þýdd, ég get ímyndað mér að þýðandinn hafi ekki búið á Íslandi í langan tíma, og svo hefur bókin varla verið lesin yfir áður en hún var sett í prentun. Dæmi um villu: ,,Ég sendi hvert skilaboðið eftir annað“. Stingur í augu!

    Svo heyrði ég í útvarpsfréttunum áðan sagt ,,það eru litlar líkur á…“ en ekki ,,litlar líkur eru á“. Mér finnst hið síðarnefnda mun fýsilegri kostur í fréttum Ríkisútvarpsins. Þó ég verði að viðurkenna að ég myndi líklegast sjálf segja að það væru litlar líkur á einhverju, þó ég reyni eftir besta megni að nota hitt í ritmáli.

  3. Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:

    Maður lokar dyrunum með hurð og segir þess vegna lokið dyrunum en hins vegar skellir maður aftur hurðinni. Það er ekki hægt að loka hurð af því að hún er aldrei opin, það eru dyrnar sem eru annaðhvort opnar eða lokaðar. Er þetta nógu flókið eða þarf ég að flækja þetta meira?

  4. Eiður skrifar:

       Þóttist heyra  heyra  hurðarnar , en  var ekki   öldungis  viss um að ég hefði heyrt   rétt.  Þóttist líka heyra  að  fréttaþulur RÚV  læsi:  Veðurfræðing  voru  dæmdar…  En  ekki  nógu  viss  til að setja  það í pistil.

       Þetta er rétt ábending, Maija, með innkeyrsu  og útkeyrslu.

  5. Eygló skrifar:

    Það hefði verið skiljanlegra hefði hann gengið á dyr (sótrauður af reiði)

    Held að dyr/hurð sé enn ein beyglan úr ensku, þeir nota víst bara „door“

    Útkeyrsluhurðir eru ekki alltaf innkeyrsluhurðir og sennilega ekki hjá slökkviliðinu (ekið inn „hinum megin“ frá 🙂    (Bifreiðaskoðunarstöðvar 🙂

    Ég held samt ekki að þetta hafi alveg runnið saman, enda vont að hafa hunda í hurðinni 🙂

    Hef ekki heyrt að neinn hafi sparkað í dyrnar.

    „Lokið hurðinni“ – – –  „Lokið dyrunum“    Ég nota það síðarnefnda en e.t.v. er hitt líka í lagi?  Nei, þá ætti maður að segja „Lokið með hurðinni“!?!

  6. Sæmundur Bjarnason skrifar:

    Einhver tónleikagestur í Egilshöll var að hneykslast á fíkniefnalögreglunni. Þeir voru með „hundinn í hurðinni.“ Sá þetta á prenti fyrir nokkru og þótti langt gengið.

  7. Steingrímur Kristinsson skrifar:

    Sástu ekki þennan hluta fréttarinnar á visir.is um ökuníðinginn og „sjúkrabílinn“ —-„Sjúkrabíll reyndi að stöðva manninn með því að keyra á hann, en án árangurs.“ —-  það hlýtur að teljast til tíðinda ef satt væri að „sjúkrabíll“ gerði tilraun til að keyra á einhvern.  þau er stundum  „orðheppin“  þessi  ungu háskólamenntuðu grey hjá sumum fjölmiðlunum    (http://www.visir.is/article/20090622/FRETTIR01/51103778

    Vísir, 22. jún. 2009 11:38

  8. Steini Briem skrifar:

    Slökkviliðsstjórinn og fréttamaður Sjónvarpsins töluðu reyndar báðir um hurðarnar.

    Og þeim finnst trúlega í lagi að keyra í gegnum hurðir (hurðar).

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>