Er Icesave sáttmálinn hænufet frá landráði ? Svona auglýsir ÍNN sjónvarpsstöðin (23.06.09.) í Ríkisútvarpinu. Þegar sífellt er verið að brigsla ráðamönnum um föðurlandssvik og landráð minnir það á málflutning íslenskra kommúnista og Þjóðviljans á árunum um og upp úr 1950, þegar forystumenn lýðræðisflokkanna voru kallaðir landráðamenn og landssölumenn. Svo er sá sem auglýsinguna samdi ekki vel að sér um íslenskt mál, því orðið landráð er fleirtöluorð og að ég best veit ekki til í eintölu.
Af Vefvísi (23.06.09.)..sem farið hefur meðal annars með hlutverk alríkismannsins Fox Mulder .. Alríkismaður ? Hér hefur skrifari að líkindum verið að þýða úr ensku þar sem talað hefur verið FBI mann, en nákvæmlega þýtt er það alríkislögreglumaður,sem er nú heldur klúðurslegt orð. En alríkismaður er auðvitað merkingarleysa.
Það er leiður siður að nota þolmynd að óþörfu. Germynd er alltaf betri. Af Vefvísi (24.06.09.): Sextán ára drengur var stöðvaður af lögreglu á Akureyri í nótt… Betra hefði verið: Lögreglan á Akureyri stöðvaði sextán ára dreng í nótt…
Líklega kemur að því að maður hættir að vera hissa þegar umsjónarmenn þátta í sjónvarpi kunna ekki að beygja algengustu orð eins og dóttir (umsjónarmaður Íslands í dag á Stöð tvö 23.06.09.)
Fáein orð um fréttaflutning: Vegir fréttastofu RÚV eru oft einkennilegir, að maður ekki segi órannsakanlegir. Á sínum tíma tók fréttastofa sjónvarps sérstöku ástfóstri við mál veðurfræðings, sem taldi sig verða fyrir einelti á vinnustað. Þessi sami veðurfræðingur var að nokkru starfsmaður fréttastofunnar eða RÚV. Nú er búið að dæma í málinu og frá því var sagt í sjónvarpsfréttum 23.06. Veðurfræðingurinn hafði sigur í málinu og fékk bætur vegna eineltis en yfirmenn fengu skömm í hattinn. Gott og vel. Það var frétt. En í kvöldfréttum RÚV sjónvarps 24.06. var aftur fjallað um þetta sama mál og engu bætt við fréttina frá kvöldinu áður. Þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð. Þetta er ekki fagleg fréttamennska. En kannski höfðu þeir sem voru á vakt á miðvikudegi ekki horft á fréttirnar á þriðjudagskvöld, eða er þetta einhverskonar vinavæðing fréttanna ?
8 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Þ. skrifar:
27/06/2009 at 00:14 (UTC 0)
Mér finnst að landráð ætti að vera til í eintölu. Gæti þá annað hvort merkt eitthvað svipað og þjóðráð, eða þá verið gagnmerkt ráð, svipað og vísindaráð, og legið undir feldi mestallt árið, en kæmi fram á Þingvöllum árlega og gæfi góð ráð sem landsmenn færu ekki eftir.
Hvort staðfesting icesave-samnings er nær landráðum eða landráði, er svo annað mál.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
25/06/2009 at 22:32 (UTC 0)
Það er nær ævinlega þannig, Bjarni, að alþjóðasamningar sem við undirritum fela í sér einhverjar takmarkanir á rétti okkar, eða réttindum. Við göngum að slíkum samningum vegna þess að við metum það svo,að þeir færi okkur verðmætari rétt, en þær takmarkanir ,sem þeir kunna að hafa í för með sér. Við eigum ekki og megum ekki einangra okkur frá samskiptum við aðrar þjóðir. Þá værum við að færa þjóðina áratugi aftur í tíman og búa til mestu lífskjaraskerðingu sögunnar.
Ómar Bjarki Kristjánsson skrifar:
25/06/2009 at 19:43 (UTC 0)
Eggert, hver segir að „írar vilji útúr esb ?
Eb með lisbon treaty, þá var það þannig að and-sinnar saumuðu eina hysteríu þar í landi í fyrra kringum atkvæðagreiðsluna og flest nei atkvæðin voru vegna misskilnings – sem nú hefur verið leiðréttur.
Haukur Kristinsson skrifar:
25/06/2009 at 15:15 (UTC 0)
Morgunljóst, borðleggjandi, kristalklárt….leiðinleg lýsingarorð, sem virðast vera í tísku.
Bjarni Kjartansson skrifar:
25/06/2009 at 13:42 (UTC 0)
Þakka svarið en.
Tvíhliðasamningur stóð Sviss EKKI til boða fyrir þann tíma, að Svissararnir höfðu séð, hvert svonefnt ,,fjórfrelsi“ færi með rikt þeirra iðnfyrirtækja, ef frjálst yrði flæði fyrirtækja um allar grundir, einnig komu upp element af efa hjá þeim, varðandi frelsi fólksflutninga en það er annað mál og mun flóknara nú umstundir.
Hitt er, að ég notaði ekki orðið lydduskapur um inngöngu í ESB, heldur átti ég þar við framgang samningamanna okkar og ráðamanna allra í samningum um greiðslur skaðabóta vegna ætlaðs taps af veðmálum erlendra manna um stöðu bréfa og innlána.
Ég er þess hinsvegar fullviss, að ESB og fyrr EES inngangan var ekkert annað en vél brugguð okkar þjóð og afkomendum hennar. Það var ógæfa að semja um Viðeyjarstjórnina fyrir okkur íhaldsmenn, of margir ,,gróðapungar“ komust að ráðum og lýðskrumarar náðu of langt.
Ég er framá með samstarf við þjóðir heims EN geri greinarmun á, hvort afsal réttinda arfgenginna fylgi undirritun. Svo var ekki með Nato, né Efta.
Við erum nú í stöðu sem varð til vegna svonefnds ,,fjórfrelsis“ og sífelldra kærumála víxlara og fyrirtækja þeirra. Menn heyktust á, að stöðva sumt, sem lá fyrir að væri óvarlegt fyrir þjóð okkar og afkomendur, vegna hræðslu og því sem ég hef sagt vera þrælslundar gagnvart erlendu boðvaldi (ESB regluskipanir um frelsi fjármagns) svo lá við, að menn misstu Íbúðalánasjóð fyrir borð.
Þar um stóðum við, nokkrir íhaldskurfar, vörð ásamt og með þjóðhollum mönnum úr öðrum flokkum.
Við verðum að fara varlega því líkt og sagt er um frjáls dýr merkurinnar, þá er bara eitt skerf frá frumskóginum í fjölleikahúsið.
Ég á þá ósk heita mjög, að þeir sem unna máli okkar sjái sig um hönd og fari gegn afsali réttinda og framsali þeirra til útlendra manna.
Miðbæjaríhaldið
Vill halda í það sem hald er í en varpa hinu á haug.
Ellert Júlíusson skrifar:
25/06/2009 at 13:35 (UTC 0)
Það er ástæða fyrir því að Írar vilja út úr ESB. Það er ástæða fyrir því að Írar neita að samþykkja Lissabon sáttmálann.
Eiður. Það eru ekki landráð að leiða landið að ESB enda yrði það hvort sem er aldrei samþykkt í þjóðaratkvæðakosningu. Það tel ég aftur á móti vera mjög slæmt mál að við séum að gefa eftir grunnréttindi þjóðar í einhliða samning sem skrifaður var af kröfuhafa, af þeirri ástæðu einni (að mönnum sýnist) að sumir af okkar stjórnmálamönnum séu búnir að bíta það í sig að við skulum inn í ESB….með góðu eða illu. Þann gjörning tel ég vera nærri því að vera landráð.
Góðar stundir.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
25/06/2009 at 12:41 (UTC 0)
Sæll Bjarni,
Tvíhliðasamningur við ESB stóð okkur aldrei til boða. Sjálfstæðisflokkurinn var eini flokkurinn sem vildi tvíhliðasamning, en sneri við blaðinu á einni nóttu, eða svo, þegar Davíð og Jón Baldvin mynduðu Viðeyjarstjórnina.
Hér fyrr á árum vildu foringjar Sjálfstæðismanna samstarf við aðrar þjóðir (Nató, Efta). Nú er öldin önnur. Ég er ósammála þér um að aðild að ESB sé landráð, lydduskapur eða falli undir þau stóryrði sem þú notar. Ég tel óhjákvæmilegt að við störfum náið með Evrópuríkjum. Einangrun hefur ekki reynst okkur vel í ljósi sögunnar.
Danmörk Svíþjóð og Finnland eru aðilar að ESB. Það hafa þá verið landráðamenn sem leiddu þau lönd til aðildar, eða hvað ? Og þau lönd eru ekki lengur fullvalda ríki, eða hvað ? Það er hreint ekki hægt að ræða málin á þessum nótum.
Bjarni Kjartansson skrifar:
25/06/2009 at 10:34 (UTC 0)
Sammála þér um landráðabrigslin.
Þau eru ekki svo auðsæ í þessum peningasamningum um Icave bætur.
Hinsvegar eru þau morgunljós í ESB áráttuhegðan stjórnmálamanna sumra. Þeim er ekkert heilagt í þeirri viðleitni sinni að koma okkur rakleitt inn í erlent ofurþjóðlegt kerfi, sem hefur okkar hagsmuni að engu, líkt og nú sannast klárlega í ofríki ESB ríkjanna og þvingunaraðgerðum öllum í kringum þá ,,samninga“.
Það munu kristalklár landráð, að vilja okkur enn bundnari erlendu valdi í lagasetningu og boðvaldi en EES gerði.
Þar var ég afar mikið á móti undirritun og vildi fá tvíhliða samning við ESB,líkt og Svisslendingar fengu þá þeir sögðu sig frá EES samning sínum.
Um hið fyrrnefnda, er réttnefni að tala um undirlægjuhátt, lydduskap, aumingjadóm og þýlyndi.
Með þökk fyrir afar snarpa gagnrýni á köflum og vakandi varðstöðu um málið okkar bestan arf.
Miðbæjaríhaldið