Hvernig ætlum við að afla fé, sagði samgönguráðherra í sjónvarpi ríkisins (29.06.09.), Við öflum fjár en útvegum fé. Þeir sem voru klukkutíma að aka frá Selfossi til Hveragerðis milli klukkan þrjú á fjögur sunnudaginn 28. júní munu líklega aldrei skilja þá arfavitlausu hugmynd ráðherrans að Vaðlaheiðargöng eigi að koma á undan tvöföldun Suðurlandsvegar. Vegurinn milli Selfoss og Hveragerðis er einn hættulegasti og fjölfarnasti vegarkafli landsins. Það á að skipta höfuðmáli, þegar framkvæmdaröð er ákveðin. Fæstum blandast hinsvegar hugur um að samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll er brýn framkvæmd, – sem er reyndar hálfri öld of seint á ferðinni.
Á ensku eðlilegt að nota orðið risk í fleirtölu og segja to take risks. Að íslenskri málvenju er orðið áhætta eintöluorð. Þessvegna tölum við um að taka áhættu. Ekki áhættur eins og þýtt var ranglega úr ensku í sjónvarpi ríkisins (29.06.09.)
Eftirfarandi er af Vefdv (29.0ö6.09.) . Fréttin fjallar um flugfélag sem ætlunin er að stofna í Kína. Í vélum þess eiga farþegar geta staðið rétt eins og í strætisvagni. Síðan segir: Zenghua segist hafa haft samband við forsvarsmenn Airbus flugvélaframleiðandans. Þar hafi þau skilaboð fengist að ráðahagurinnværi nógu öruggur. „Þegar leyfi fæst frá stjórnvöldum, þá prófum við þetta,“ segir Wang. Sá sem skrifaði þessa frétt veit greinilega ekki að ráðahagur þýðir kvonfang.Þess vegna verður þetta merkingarlaust bull Það er alltaf hættulegt að nota orð sem maður veit ekki hvaða merkingu hafa eins og gert er í þessu tilviki.
Meira af Vefdv (29.06.09.): Maðurinn hefur setið í rúma viku í gæsluvarðhaldi en ekki var ákveðið að krefjast áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir manninum. Þetta er dæmi um einstaklega kjánalega orðaröð. Eðlilegt hefði verið að segja…. ákveðið var að krefjast ekki áframhaldandi gæsluvarðhalds ……
Það var óvönduð fréttamennska, eða ótrúlegur klaufaskapur, þegar Þórdís Arnljótsdóttir fréttamaður tók svo til orða í tíufréttum sjónvarps ríkisins (29.06.09.) að fjármálaráðherra hafi reynt að færa rök fyrir því samþykkja þyrfti ríkisábyrgð á Icesave-samkomulagið á fundi í Iðnó. Þetta orðalag er ekki fréttastofunni sæmandi. Skoðun fréttamanns á ekkert erindi í fréttina. Það kom reyndar ekki á óvart að í lokin var rætt við Einar Kárason rithöfund einan um fundinn. Einar fann Icesave flest til foráttu.
Aftur kom hugur fréttastofu RÚV til Icesave fram í hádegisfréttum (30.06.09.) þegar Jóhanna Vigdís spurði fjármálaráðherra hvernig honum litist á að ætla keyra málið í gegn (um þingið) við þessar aðstæður. Ráðherra svaraði réttilega að hér væri ekki verið að keyra eitt eða neitt í gegn. Í þessari frétt var líka talað um meirihluta vegna málsins. Málvenja er að tala um meirihluta fyrir máli, ekki vegna máls.
Flestir fjölmiðlar leiðrétta og biðjast afsökunar, þegar farið er rangt með nöfn. RÚV fór rangt með nafn í fréttum (29.06.09.) Kallaði Árna Múla Jónsson, aðstoðarfiskistofustjóra (samkvæmt því sem segir á heimasíðu Fiskistofu) Þórð Ásgeirsson. Engin leiðrétting, engin afsökunarbeiðni.
Og svo er spurt í lokin: Hversvegna er það sérstakt baráttumál Kastljóss ríkissjónvarpsins (30.06.09.) að hætt verði við byggingu Tónlistarhússins?
10 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Atli Freyr Steinþórsson skrifar:
02/07/2009 at 17:02 (UTC 0)
Verði þér að góðu.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
02/07/2009 at 16:27 (UTC 0)
Rétt skal vera rétt. Jónasson er Árni Múli, en ekki Jónsson. Þakka ábendinguna og einstaklega hófstilltar og kurteislegar athugasemdir Atla Freys Steindórssonar.
Atli Freyr Steinþórsson skrifar:
02/07/2009 at 16:14 (UTC 0)
Aðstoðarfiskistofustjóri heitir Árni Múli Jónasson, ekki Jónsson, eins og Eiður hélt ranglega fram. Tvisvar.
Ég vil spyrja þig, Eiður, í fullri vinsemd: Hvernig litist þér á það að nú yrði sturtað duglega yfir þig úr dónalegu fúkyrðasafni þínu yfir fólk sem þú leitast við að smána og segir ekki kunna að lesa eða hafa vitsmuni til að beita móðurmálinu?
Ég tala fyrir munn margra þegar ég segi: Ég ber hag íslensks máls mjög fyrir brjósti, en er á móti þeim forsendum sem liggja að baki Molum um málfar, sem miða frekar að því að salla íslenska málhafa niður með vélbyssu yfirlætis og ofmetnaðar heldur en leiða menn til þroska með pedagógísku umburðarlyndi og húmor. Svona gerði Gísli Jónsson ekki. Svona gerði Helgi Hálfdanarson ekki. Svona gerði Sigurður Nordal ekki. Svona gera menn ekki.
Það sem þú skrifar á þessa síðu eflir ekki dáð íslensks máls. Það er hefðarrof í sögu málvöndunar á Íslandi.
Ég vitna í herrann: Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.
Haukur Kristinsson skrifar:
01/07/2009 at 19:43 (UTC 0)
OK, prófessor og doktor í lögum skilur ekki faðirvorið. Athyglisvert.
Steini Briem skrifar:
01/07/2009 at 17:18 (UTC 0)
Herdís Þorgeirsdóttir, prófessor og doktor í lögum, virðist ekki vita að orðið skuldunautur merkir ekki skuldareigandi eða lánardrottinn (creditor á latínu), heldur skuldari:
… minna má Hollendinga á óráðsíu og sífelld gjaldþrot Rembrandts. Sem betur fer voru skuldunautarnir ekki utanlands því þá hefðu meistaraverkin verið flutt úr landi.“
(Í grein um Icesave-samningana á blaðsíðu 18 í Fréttablaðinu 20. júní síðastliðinn.)
Eiður skrifar:
01/07/2009 at 15:33 (UTC 0)
.. mannavillt .. átti þetta auðvitað að vera !
Eiður skrifar:
01/07/2009 at 15:06 (UTC 0)
Það hárrétt hjá ykkur Stígur og Bergsteinn að auðvitað átti að standa þarna Einar Már Guðmundsson, en ekki Einar Kárason. Leiðréttist það hér með og biðst ég velvirðingar á þessum mistökum.
Þegar birt er mynd af Árna Múla Jónssyni um leið og nafn Þórðar Ásgeirssonar birtist á skjánum má auðvitað þvarga endalaust um það hvort farið er rangt með nafn eða farið mannavilt. Það birtist rétt mynd en rangt nafn.
Stígur Helgason skrifar:
01/07/2009 at 14:10 (UTC 0)
Sæll Eiður,
Menn þurfa að ruglast rækilega í ríminu til að nafnið Árni Múli Jónsson verði að óvart að Þórði Ásgeirssyni. Enda er ólíklegt að þarna hafi fréttamaður farið rangt með nafnið, eins og þú segir. Líklegra er að hann hafi farið mannavillt – ruglast á þessum tveimur mönnum. Á þessu tvennu er nokkur munu, síðast þegar ég vissi.
Svo er það önnur spurning: Ferð þú mannavillt eða rangt með nafn þegar þú kallar Einar Má Guðmundsson rithöfund Einar Kárason í þessari færslu?
Bergsteinn Sigurðsson skrifar:
01/07/2009 at 14:10 (UTC 0)
Eins talar þú um að Kastljós hafi farið rangt með nafn, þegar þeir kölluðu Árna Múla Jónsson Þórð Ásgeirsson. Er það að fara rangt með nafn? Þegar ég var ungur var einfaldlega talað um að fara mannavillt.
Þú ferð til dæmis mannavillt (frekar en rangt með nafn) þegar þú segir RÚV hafa rætt við Einar Kárason. RÚV ræddi hins vegar við Einar Már Guðmundsson. Þér til varnar má auðvitað benda á að það er svo til ómögulegt að þekkja þá í sundur, þeir báðir eru jú rithöfundar og heita Einar. En ég treysti að þú leiðréttir þetta, góðir fjölmiðlar leiðrétta (og blogg er sannarlega fjölmiðill).
Jón Óskarsson skrifar:
01/07/2009 at 10:15 (UTC 0)
Góður pistill að vanda.
Þú segir um fréttamennskunan hjá RÚV „óvönduð fréttamennska, eða ótrúlegur klaufaskapur“
Þetta er allt meðvitað. Fréttamenn RÚV vinna markvisst að því að koma með skoðanmyndandi fréttir í sínum fréttatímum. Ef frétt fellur ekki að skoðunum fréttamanna þá eru þær einfaldlega ekki fluttar nema þá helst stuttlega í lok fréttatímanna.
Ég tók líka eftir þessu með innlsagið þar sem Enar Már var einn kallaður til að vitna gegn Icesave. Fyrir fundinn var talað við Steingrím og svo einn andstæðing samningsin en sá fékk að vaða á súðum fullur vandlætingar á samningnum en Steingrímur fékk þessar klassísku skildagatíðarspurningu um hvort væri meirihluti fyrir samningnum á þingi.
Orðalag spurninga eru fréttastofunni til vansa. Skoðun fréttamanns kemur iðulega fram í spurningunum. Og meðvitað er sumum spurningum sleppt.