«

»

Molar um málfar XCIX

 Morgunblaðinu verður  tíðrætt um það á  forsíðu (30.06.09.) að komu nýrra gæsluflugvélar  til landsins seinki vegna  pappírsvinnu í tengslum  við  tryggingar og  fleira.   Orðið pappírsvinna  er  aulaþýðing á  enska  orðinu paperwork. Á íslensku heitir þetta skriffinnska.

Vefmoggi  segir í fyrirsögn (30.06.09.): Keyrt á reiðhjólamann. Fyrirsagnarhöfundur  hefur líklega ekki þekkt orðið hjólreiðamaður,sem þó er  notað í fréttinni undir  fyrirsögninni.

Á Vefvísi er skrifað (30.06.09.): Rétt rúmlega sextugur bóndi nálægt Hellu var dæmdur fyrir að hóta sveitungi sínum og fyrir vopnalagabrot. Það var hinn nítjánda ágúst á síðasta ári sem bóndinn sendi sveitungi sínum eftirfarandi skilaboð:Þetta er enn eitt  dæmi þess að blaðamaður  kann   ekki einföldustu beygingar nafnorða í íslensku.   Hér á  orðið  sveitungi  auðvitað að vera í þolfalli,  sveitunga, í báðum tilvikum.  Ýmislegt fleira  er  raunar athugavert við þessa frétt.

  Greinilegt er að  fyrirtækið  Rekkjan  ehf  skiptir  við  auglýsingastofu þar sem  menn kunna ekki  móðurmálið nægilega vel. Í  heilsíðu auglýsingu frá Rekkjunni í Fréttablaðinu (30.06.09.)  eru  auglýst með  flennistóru letri þrýstijöfnunarsvampsrúm (hvað  svo sem þar nú er !). Svamps  er  eignarfallsmynd orðsins  svampur, þar  ætti  að  standa  svamprúm ekki svampsrúm. Ef  verið væri að auglýsa  rúm úr  stáli mundi sagt stálrúm, – ekki  stálsrúm.

  Bloggari  skrifar um verkefni,sem hann kallar  Plöggum námskeið  saman. Þetta er hrognamál.

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

     Þakka þér leiðréttinguna,Sæmundur. Þágufall, – að sjálfsögðu. Aulagangur minn.

  2. Sæmundur G Halldórsson skrifar:

    Til hamingju með hundraðasta þáttinn.

    Ég er sammála flestu, en alls ekki öllu sem þú finnur að.

    Þar sem þú ert nú að agnúast út í ambögur og aulahátt fjölmiðlafólks og þeirra sem tjá sig á netinu, sem er hið besta framtak, þá tekur þú leiðréttingar væntanlega ekki illa upp. Áhrifssagnirnar hóta og senda taka „auðvitað“ ekki þolfall. Þær taka þágufall, eins og kemur reyndar fram í samhengi setninganna „hóta sveitunga sínum„, „senda sveitunga sínum„. Það er svo annað mál að karlkyns n-stofns nafnorð eins og sveitungi hafa sömu beygingarendingu í þolfalli og þágufalli eintölu. Segi annars bara: áfram með smjörið, en rétt skal vera rétt!

  3. Eygló skrifar:

    Hvað þýðir að plagga / plögga námskeið saman?

    Ekki þyrði ég fyrir mitt litla líf að leggjast í þetta rúm (þrýsti….. eitthvað) Nafnið gæti alveg eins gefið til kynna að það gerði eitthvað hryllilegt við mann, – eftir að maður er lagstur.

    Tilhugsunin um „geitungur“ og „sveitungur“ er yndisleg.

  4. Silja skrifar:

    Og er svo ekki betra að auglýsa þrýstijöfnunarsvampdýnur, en rúm?

  5. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

     Sæll Sigurður Hreiðar,   – Þú átt líklega kollgátuna.

  6. Sigurður Hreiðar skrifar:

    Sæll Eiður

    þú átt heiður skilið fyrir nennu þína að tína upp spörðin sem eru úti um allt, í ræðu og riti. Í tilviki Vefvísis og sveitunga sýnist mér að sá sem skrifar kunni ekki orðið sveitungi, haldi að nefnifallið sé sveitungur og beygist eins og geitungur.

    Góð kveðja

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>