Þeim sem langar í styrju eða fisk.. stóð í myndatexta í Morgunblaðinu (03.07.2009) Og ég sem hélt að Mogginn væri vaxinn upp úr svona villum !
Heyrði brot úr endurteknum þætti í Útvarpi Sögu (03.07.2009) þar sem verið var að mæra og auglýsa hvalaskoðunarfyrirtæki í Reykjavík. Þar var skemmtileg ambaga, eða mismæli, þegar önnur konan sem rætt var við kallaði hvalbátana ryðkálfa, en ætlaði sér væntanlega að segja ryðkláfa. Annars hafa mér sýnst hvalbátar Kristjáns Loftssonar bara líta prýðilega út og vera hafnarprýði þótt komnir séu vel til ára sinna. Í lokin sagði svo stjórnandi þáttarins: Við erum að verða uppiskroppa með þáttinn. Hann átti við að þeim tíma sem þættinum var ætlaður í dagskránni væri að ljúka. Að verða uppiskroppa með eitthvað er að komast í þrot. Þannig getur kaupmaður orðið uppiskroppa með kanil eða kaffi.
Af Vefdv (03.07.2009): Hann segist vonast til þess að svona lagað endurtaki sig ekki aftur.Það hálfa hefði verið nóg. Meira af Vefdv (04.07.2009) : Þeir sem ætla að leggja leið sína í Þjórsárdal eða Úthlíð í dag er þó bent á að hafa fyrst samband við…. Fastir liðir eins og venjulega. Skrifari man ekki hvaðan hann lagði af stað.
Í stuttu viðtali (04.07.2009) í hádegisfréttum RÚV sagði embættismaður Reykjavíkurborgar fjórum sinnum: Við erum að sjá.. Minna hefði mátt gagn gera. Sá hinn sami talaði um að koma fólki í virkni. Líklega var átt við að virkja hæfileika fólks til góðs. Margt fleira mætti segja um þetta stutta viðtal. Góðvinur sem einnig hlustaði á þetta viðtal sagði að senda ætti þennan embættismann á námskeið í íslensku fyrir útlendinga ! Í sama fréttatíma var haft eftir formanni launþegasamtaka að menn væru ekki að ná lendingu…
Stundum er hér vikið að orðalagi í auglýsingum. Í heilsíðu auglýsingu (DV, 03.-05.07.2009) býður Humarskipið upp á ferskann humar. Sumar auglýsingastofur hafa ekki vald á grunnatriðum íslenskrar málfræði. Meira um auglýsingar: Ég verð að játa að ég átta mig ekki alveg á auglýsingu Ríkisútvarps um eigið ágæti þar sem notuð eru brot úr frægu Kastljósi með Davíð Oddssyni og úr ávarpi Geirs H. Haarde forsætisráðherra þar sem hann biður Íslandi guðsblessunar. Mér finnst þessi auglýsing ógóð. Kannski er ég einn um þá skoðun. Mér finnst ekki í lagi að Ríkisútvarpið noti samtalsbrot og brot úr ræðu með þessum hætti.
Einhverntíma sagði ég að fjölmiðlamönnum liði best er þeir töluðu við aðra fjölmiðlamenn. Sigmar Guðmundsson talaði við Láru Ómarsdóttur í Kastljósi og Lára talar við Sigmar í morgunútvarpi Rásar tvö. Þau eru bæði starfsmenn Ríkisútvarpsins. Alltaf er gott að leita ekki langt yfir skammt !
Annars er firna mikið af góðu efni í dagskrá hljóðvarpsins og þar hefur Sigrún Stefánsdóttir dagsskrárstjóri breytt mörgu til bóta.Óþarfi fannst mér þó að slátra morgunvaktinni á Rás eitt. Þar var ekkert að. Þar þurfti ekki að breyta. En sérstaklega hrósa ég vel undirbúnum og vönduðum tónlistarþáttum, sem eru margir á Rás eitt. Ekki er hægt að segja það sama um sjónvarpið. Þrjár bandarískar bíómyndir í bunu (03.07.2009) Það er ekki dagskrárgerð sem hægt er að hrósa.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Atli Steinn skrifar:
07/07/2009 at 10:49 (UTC 0)
Það er allrar lofsemi vert að menn hafi áhuga á móðurmálinu á þessum síðustu og verstu. Þetta er óhönduglega orðað, ég get alveg fallist á það með þér. Ef svona löng innskotssetning er ekki að minnsta kosti innrömmuð með kommum missir lesandinn þráðinn og samhengið glatast. Daglega þarf ég að minna sjálfan mig á þetta þar sem ég starfa við að skrifa útvarpsfréttir þar sem hlustandinn sér engar kommur. Þar þarf sérstaklega að gæta að lengd innskota.
Þorgrímur: Vissulega ánægjulegt að KK var ekki sleginn af:)
Atli
Eiður skrifar:
07/07/2009 at 07:57 (UTC 0)
Sjálfsagt er þetta rétt hjá þér, Atli Steinn. Enda er ég ekki íslenskufræðingur, aðeins leikmaður,sem hef áhuga á móðurmálinu. Kannski varð mér svo um að lesa þeim sem langar að ég rýndi ekki nægilega í framhaldið. Hvað um það, mér finnst þetta óhönduglega orðað. Þakka þér ábendinguna.
Þakka þér orðin, Þorgrímur. Ég kann því ágætlega að heyrast skuli í kirkjuklukkum að lokinni morgunbæn. En ég kann því illa að umsjónarmaður segi á hverjum morgni að klukkurnar sem við heyrðum tilheyri og svo nafngreinir hún kirkjuna. Hún ætti að segja við heyrðum klukkur Útskálakirkju eða þetta voru klukkur dómkirkjunnar í Reykjavík. Þá velti ég því fyrir mér hvort fliss sé óhjákvæmilegur fylgifiskur morgunútvarpsins á Rás 2. Það var búið að vera lengi í tíð fyrri umsjónarmanna og virðist halda áfram með nýju fólki. Ég endist ekki til að hlusta á fólk hlæja að eigin aulafyndni.
Þorgrímur Gestsson skrifar:
06/07/2009 at 23:59 (UTC 0)
Þar fékkstu á baukinn, Eiður! Að ófyrirsynju. Ég hef alltaf gaman af málfarsaðfinnslum þinum og ýmislegt sem þú nefnir þarna hefur stungið mín eyru líka! En ég ætlaði bara að taka undir það sem þú skrifaðir um Morgunvaktina; það var algjör óþarfi að slá hana af. Blessuð stúlkan sem kom í staðinn situr þarna og les af blaði alltaf það sama, morgun eftir morgun; klukkan hálfátta: Hitastigið í Reykjavík er….. þá slekk ég og kveiki ekki fyrr en á áttafréttum en hlusta á KK með mikilli ánægju. Gott að hann var ekki sleginn af!
Bestu kveðjur